Skráning í
áfangapróf
Áfangapróf í
klassískri tónlist
Áfangapróf í
rytmískri tónlist
Um Prófanefnd
tónlistarskóla
Information
in english

Helstu verkefni

Skipulagsskrá

Aðild

Ársskýrslur
Úrskurðir
Spurt og svarað
Tölfræðilegar
upplýsingar

 

Skýrsla um starfsemi Prófanefndar tónlistarskóla frá stofnun 27. febrúar 2002 til loka september 2002

Tildrög að stofnun Prófanefndar tónlistarskóla

Snemma árs 2000 tók til starfa nefnd með þátttöku fulltrúa Samtaka tónlistarskólastjóra, Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna, Sambands íslenskrá sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins sem hafði það hlutverk að finna farveg fyrir nýtt prófakerfi í tónlistarskólum sem uppfyllti kröfur aðalnámskrár tónlistarskóla. Niðurstaða nefndarinnar var sú að sérstökum aðila yrði falið að fara með þessi málefni og að í því skyni skyldi stofnuð Prófanefnd tónlistarskóla.

Stofnfundur

Stofnfundur Prófanefndar tónlistarskóla var haldinn í Borgartúni 6 í Reykjavík miðvikudaginn 27. febrúar 2002 og hófst fundurinn með því að Halldór Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, gerði grein fyrir aðdraganda málsins í framhaldi af samþykkt nýrrar aðalnámskrár tónlistarskóla. Þá flutti Björn Bjarnason menntamálaráðherra ávarp. Síðan kynnti Kristín Stefánsdóttir drög að skipulagsskrá fyrir Prófanefnd tónlistarskóla sem undirbúningsnefndin hafði samið. Eftir nokkrar umræður var skipulagsskráin samþykkt og undirrituð af fulltrúum tónlistarskóla og rekstraraðila þeirra. Að því búnu voru aðal- og varamenn kjörnir í nefndina til fjögurra ára í samræmi við skipulagsskrána, auk þess sem löggiltur endurskoðandi var kjörinn. Að loknum eiginlegum stofnfundarstörfum flutti Guðrún Geirsdóttir, lektor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands og námskrárfræðingur, fræðsluerindi sem hún nefndi "Nokkrar námskrárnótur". Að fundi loknum bauð menntamálaráðherra viðstöddum upp á hressingu. Fundinn sóttu um 30 manns og var Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, starfsmannastjóri Hafnarfjarðarbæjar, fundarstjóri.

Skipan prófanefndar

Samkvæmt skipulagsskránni tilnefna Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök tónlistarskólastjóra hvor sinn fulltrúa í Prófanefndina. Þá tilnefna Félag tónlistarskólakennara og Félag íslenskra hljómlistarmanna sameiginlega einn nefndarmann. Loks kýs fulltrúaráð Prófanefndar tvo nefndarmenn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Prófanefnd velur formann og varaformann úr sínum hópi.

Í Prófanefnd tónlistarskóla eiga nú sæti:

  • Kristín Stefánsdóttir, formaður, fulltrúi FT og FÍH
  • Robert Faulkner, varaformaður, fulltrúi STS
  • Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Hafsteinn Guðmundsson, kosinn á stofnfundi
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, kosin á stofnfundi.

Varamenn eru:

  • Bragi Michaelsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Helgi Þ. Svavarsson, fulltrúi STS
  • Sigurður Flosason, fulltrúi FT og FÍH
  • Árni Harðarson, kosinn á stofnfundi
  • Hildigunnur Halldórsdóttir, kosin á stofnfundi

Megintilgangur og hlutverk prófanefndar

Tilgangur með stofnun Prófanefndar er að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla, sem tók gildi 1. júní 2000, um að tryggja samræmt og hlutlaust mat og þar með sem áreiðanlegastar niðurstöður á áfangaprófum í hljóðfæraleik og miðprófi í tónfræðagreiðum. Hefur verið talið að í eldra stigsprófakerfi hafi skort á að skilgreind væri sú þekking og færni sem nemendur þyrftu að búa yfir við lok hvers stigs og námskröfur því mjög mismunandi milli skóla og milli nemenda á ólík hljóðfæri. Eins hefur samræming ekki verið fyrir hendi í mati á námsárangri nemenda. Þetta hefur í mörgum tilvikum valdið nemendum vandræðum, ekki hvað síst þegar þeir hafa flust á milli skóla, og hafa þá að mati viðtökuskóla ekki verið komnir eins langt í náminu og nemendur gerðu ráð fyrir. Með aðalnámskrá tónlistarskóla er ætlunin að bæta úr helstu ágöllum eldra kerfis og að mati tónlistarskólakennara og skólastjóra er samræmt mat á námsárangri nemenda ein meginforsenda þess að það takist.

Samkvæmt framansögðu er megintilgangur samræmds prófakerfis að tryggja sem kostur er að sambærileg þekking og færni búi að baki prófi, án tillits til þess hvaða skóla, kennara eða prófdómara um er að ræða. Reglur námskrárinnar miða einnig að því að treysta hlutverk prófdómara í prófdæmingunni. Lykilatriði í því að þessum markmiðum verði náð er þjálfun prófdómara ásamt eftirliti með störfum þeirra. Til að tryggja áreiðanleika í prófdæmingu þarf því að útbúa ítarlegar leiðbeiningar varðandi prófdæminguna, umsagnir og notkun einkunnaskalans, auk þess að þjálfa prófdómara í notkun þeirra. Jafnframt þarf að kynna tónlistarkennurum og nemendum prófakerfið og þær viðmiðanir sem gengið er út frá.

Nánar tiltekið eru verkefni Prófanefndar eftirfarandi:

  • uppsetning prófdómarakerfis í samræmi við ákvæði aðalnámskrár og fyrirliggjandi hugmyndir,
  • frágangur reglna/viðmiðana fyrir prófdómara um prófdæminguna,
  • hönnun vitnisburðarblaða/áfangaprófsskírteina,
  • þjálfun prófdómara, símenntun og handleiðsla,
  • stjórnun og daglegur rekstur prófdómarakerfis,
  • ráðning prófdómara,
  • skipulag áfangaprófa,
  • afgreiðsla kvartana og úrskurðir um kærur vegna áfangaprófa,
  • varðveisla gagna um niðurstöður prófa,
  • varðveisla gagna um skipulag prófdæmingar,
  • skýrslugerð um niðurstöður áfangaprófa,
  • upplýsingamiðlun til tónlistarskóla og kennara um prófdómarakerfið

Aðild að Prófanefnd tónlistarskóla

Í lok september höfðu 47 tónlistarskólar óskað eftir aðild að Prófanefnd tónlistarskóla og tæpur helmingur þeirra undirritað stofnskrána. Hér á eftir gefst sem enn hafa ekki undirritað stofnskrána að gera það. Eftirtaldir skólar hafa óskað aðildar:

Tónlistarskólinn í Reykjavík
Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar
Söngskólinn í Reykjavík
Tónlistarskóli FÍH
Tónmenntaskóli Reykjavíkur
Nýi tónlistarskólinn
Tónskóli Eddu Borg
Suzukitónlistarskólinn í Reykjavík
Tónlistarskólinn í Grafarvogi
Tónskóli grunnskólanna
Tónskóli Björgvins Þ. Valdimarssonar
Tónskóli Þjóðkirkjunnar
Tónlistarskóli Kópavogs
Tónlistarskóli Garðabæjar
Tónlistarskóli Bessastaðarhrepps
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar
Tónlistarskóli Seltjarnarness
Tónlistarskóli Mosfellsbæjar
Tónlistarskóli Grindavíkur
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar
Tónlistarskóli Sandgerðis
Tónlistarskólinn í Garði
Tónlistarskólinn á Akranesi
Tónlistarskóli Borgarfjarðar
Tónlistarskóli Bolungarvíkur
Tónlistarskóli Ísafjarðar
Tónlistarskóli Vestur-Húnavatnssýslu
Tónlistarskóli Skagafjarðar
Tónlistarskóli Siglufjarðar
Tónskóli Ólafsfjarðar
Tónlistarskóli Dalvíkur
Tónlistarskólinn á Akureyri
Tónlistarskóli Eyjafjarðar
Tónlistarskóli Húsavíkur
Tónlistarskóli Hafralækjarskóla
Tónlistarskóli Austur-Héraðs
Tónlistarskóli Fellahrepps
Tónlistarskóli Seyðisfjarðar
Tónlistarskóli Eski- og Reyðarfjarðar
Tónskóli Neskaupstaðar
Tónlistarskóli Stöðvarfjarðar
Tónskóli Djúpavogs
Tónskóli Austur-Skaftafellssýslu
Tónlistarskólinn á Kirkjubæjarklaustri
Tónlistarskóli Rangæinga
Tónlistarskóli Vestmannaeyja
Tónlistarskóli Árnesinga

Starfsemi nefndarinnar

Starf Prófanefndar tónlistarskóla hófst ekki af krafti fyrr en nú á haustdögum. Haldnir hafa verið tveir fundir. Nefndin er þeirrar skoðunar að stefna beri að því að fyrstu próf á vegum nefndarinnar verði haldin vorið 2004 og eigi það við um öll áfangaprófin í hljóðfæraleik, þ.e. grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf. Of snemmt er hins vegar að gera raunhæfar áætlanir vegna miðprófs í tónfræðagreinum þar sem ekki sér enn fyrir endann á vinnu við námskrá í þeim greinum.

Prófanefndin hefur þegar hafið vinnu við leiðbeiningar fyrir prófdómara og þær viðmiðanir sem leggja beri til grundvallar við mat á áfangaprófum í hljóðfæraleik. Aflað hefur verið upplýsinga erlendis frá, einkum frá Associated Board-, Guildhall- og Trinity-prófakerfunum í Bretlandi og einnig nýtur nefndin góðs af því erlenda samstarfi sem átti sér stað á undirbúningstímanum að stofun Prófanefndarinnar. Mun Prófanefndin án efa leita samráðs við ýmsa sérfróða aðila eftir þörfum.

Prófanefndin hefur enn ekki tekið ákvarðanir um einstök framkvæmdaatriði varðandi prófakerfið og þjálfun prófdómara, enda nauðsynlegt að að faglegar viðmiðanir liggi fyrir áður en að þjálfun prófdómaranna kemur. Þannig hefur nefndin enn ekki gert áætlanir um fjölda prófdómara, skiptingu þeirra milli einstakra hljóðfæra né heldur hvernig staðið verði að því að velja þátttakendur á prófdómaranámskeið.

Fjármál Prófanefndar

Reikningsár Prófanefndar tónlistarskóla er 1. ágúst til 31. júlí. Frá stofnfundi til júlíloka var hvorki um að ræða tekjur né gjöld af starfsemi nefndarinnar þar sem menntamálaráðuneytið stóð straum af kostnaði við stofnfund. Því eru ekki lagðir fram reikningar fyrir nefndina á fyrsta fulltrúaráðsfundi.

Eins og áður hefur fram komið hefur menntamálaráðuneytið gefið vilyrði fyrir fjárstuðningi við Prófanefndina og er undirbúningur hafinn að gerð nokkurs konar þjónustusamnings milli ráðuneytisins og nefndarinnar. Næsti fundur Prófanefndar og menntamálaráðuneytisins vegna samningsgerðar verður haldinn síðar í þessum mánuði.

Í rekstraráætlun, sem undirbúningsnefnd prófanefndar gerði fyrir fyrstu starfsár Prófanefndar tónlistarskóla, var gert ráð fyrir árlegu framlagi ráðuneytisins að fjárhæð 2.000.000 króna, auk 350.000 króna fjárveitingar vegna þjálfunar prófdómara. Standa vonir til þess að framlög ráðuneytisins verði ekki lægri en þessu nemur. Að öðru leyti er gert ráð fyrir árlegum greiðslum frá rekstraraðilum tónlistarskóla er taki mið af nemendafjölda skólanna. Er fulltrúaráði ætlað að ákveða fjárhæð árstillags frá skólunum fyrir yfirstandandi skólaár.

Prófanefndin tók þá ákvörðun að bíða með innheimtu stofnframlags frá tónlistarskólum þar til eftir fyrsta fulltrúaráðsfund og er það von okkar að það komi sér ekki illa fyrir skólana. Í rekstraráætlun undirbúningsnefndar var gert ráð fyrir að stofnframlögin mynduðu stofnsjóð Prófanefndar og er enn við það miðað að svo verði.

Lokaorð

Ég vil þakka samstarfsmönnum mínum í Prófanefnd tónlistarskóla fyrir mjög gott samstarf það sem af er. Samstarf við fulltrúaráðið er jafnframt mikilvægt í því vandasama verkefni að koma á fót prófakerfi fyrir tónlistarskólana sem standi undir væntingum. Verkefni þessa fulltrúaráðsfundar bera merki þess að Prófanefndin er nú að stíga sín fyrstu skref. Þess er að vænta að í framtíðinni geti skapast á þessum fundum gott tækifæri til þess að ræða ýmis þróunarmál varðandi starfsemi tónlistarskólanna og auðvitað sérstaklega atriði sem varða áfangaprófin.

Reyjavík, 3. október 2002

Kristín Stefánsdóttir

 

 

 

Prófanefnd tónlistarskóla