Skráning í
áfangapróf
Áfangapróf í
klassískri tónlist
Áfangapróf í
rytmískri tónlist
Um Prófanefnd
tónlistarskóla
Information
in english

Helstu verkefni

Skipulagsskrá

Aðild

Ársskýrslur
Úrskurðir
Spurt og svarað
Tölfræðilegar
upplýsingar

 

Skýrsla um starfsemi Prófanefndar tónlistarskóla frá október 2002 til loka september 2003

Tildrög að stofnun Prófanefndar tónlistarskóla

Undirbúning stofnunar Prófanefndar tónlistarskóla má rekja allt aftur til ársins 2000 en það ár tók til starfa nefnd með þátttöku fulltrúa Samtaka tónlistarskólastjóra, Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og menntamálaráðuneytisins. Nefndin hafði það hlutverk að finna farveg fyrir nýtt prófakerfi í tónlistarskólum sem uppfyllti kröfur aðalnámskrár tónlistarskóla.

Í samræmi við niðurstöður nefndarinnar var Prófanefnd tónlistarskóla stofnuð 27. febrúar 2002. Fjörutíu og sjö tónlistarskólar eru stofnaðilar nefndarinnar.

Hlutverk Prófanefndar tónlistarskóla er að annast samræmt og hlutlaust mat á áfangaprófum í tónlistarskólum samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla. Megintilgangur samræmds prófakerfis að tryggja sem kostur er að sambærileg þekking og færni búi að baki prófi, án tillits til þess hvaða skóla, kennara eða prófdómara um er að ræða. Reglur námskrárinnar miða einnig að því að treysta hlutverk prófdómara í prófdæmingunni.

Nánar tiltekið eru verkefni Prófanefndar eftirfarandi:

  • uppsetning prófdómarakerfis í samræmi við ákvæði aðalnámskrár og fyrirliggjandi hugmyndir,
  • frágangur reglna/viðmiðana fyrir prófdómara um prófdæminguna,
  • hönnun vitnisburðarblaða/áfangaprófsskírteina,
  • þjálfun prófdómara, símenntun og handleiðsla,
  • stjórnun og daglegur rekstur prófdómarakerfis,
  • ráðning prófdómara,
  • skipulag áfangaprófa,
  • afgreiðsla kvartana og úrskurðir um kærur vegna áfangaprófa,
  • varðveisla gagna um niðurstöður prófa,
  • varðveisla gagna um skipulag prófdæmingar,
  • skýrslugerð um niðurstöður áfangaprófa,
  • upplýsingamiðlun til tónlistarskóla og kennara um prófdómarakerfið

Skipan Prófanefndar

Samkvæmt skipulagsskrá tilnefna Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök tónlistarskólastjóra hvor sinn fulltrúa í Prófanefndina. Þá tilnefna Félag tónlistarskólakennara og Félag íslenskra hljómlistarmanna sameiginlega einn nefndarmann. Loks kýs fulltrúaráð Prófanefndar tvo nefndarmenn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Prófanefnd velur formann og varaformann úr sínum hópi. Kjörtímabil nefndarinnar er fjögur ár.

Í Prófanefnd tónlistarskóla eiga nú sæti:

  • Kristín Stefánsdóttir, formaður, fulltrúi FT og FÍH
  • Robert Faulkner, varaformaður, fulltrúi STS
  • Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Hafsteinn Guðmundsson, kosinn á stofnfundi
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, kosin á stofnfundi.

Varamenn eru:

  • Bragi Michaelsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Helgi Þ. Svavarsson, fulltrúi STS
  • Sigurður Flosason, fulltrúi FT og FÍH
  • Árni Harðarson, kosinn á stofnfundi
  • Hildigunnur Halldórsdóttir, kosin á stofnfundi.

Starfsemi nefndarinnar

Frá því að fyrsti fulltrúaráðsfundur Prófanefndar var haldinn í Hrafnagili í októberbyrjun á síðasta ári hefur nefndin haldið áfram undirbúningi að fyrstu áfangaprófum í tónlistarskólum. Það verklag var valið að skipta verkum milli nefndarmanna og nýta netið til samskipta. Formaður og varaformaður hafa átt nokkra vinnufundi og símafundi, auk vinnufunda einstakra nefndarmanna. Einn tveggja daga fundur var auk þess haldinn með aðal- og varamönnum í Prófanefnd.

Prófanefnd er ljóst að það er ekki einfalt að tryggja samræmt og hlutlaust mat á áfangaprófum í hljóðfæraleik en rannsóknir hafa sýnt að með því að prófdómarar hafi skýr viðmið og séu þjálfaðir í notkun þeirra þá eykst áreiðanleiki matsins. Þetta er því sú leið sem nefndin hefur ákveðið að fara og hafa meginviðfangsefni á tímabilinu verið gerð handbókar fyrir prófdómara og viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á grunn- og miðprófi í hljóðfæraleik og söng. Þá er hafinn undirbúningur að fyrsta námskeiði fyrir væntanlega prófdómara.

Það var ætlun Prófanefndar að fyrstu áfangapróf á vegum nefndarinnar yrðu haldin vorið 2004 og var þá reiknað með öllum áfangaprófunum, þ.e. grunnprófi, miðprófi og framhaldsprófi í hljóðfæraleik. Nú er ljóst að þessi áform voru ekki að öllu leyti raunhæf. Nefndin hefur því ákveðið að stefna að fyrstu grunn- og miðprófum í hljóðfæraleik í vor, þ.e. á tímabilinu mars - maí 2004, en framhaldspróf bíði til næsta skólaárs.

Ákveðið hefur verið að halda námskeið í prófdæmingu í hljóðfæraleik og einsöng á grunn- og miðprófi fyrstu helgina í febrúar 2004. Aðalleiðbeinandi á námskeiðinu verður Philip Jenkins, píanóleikari og prófessor við Royal Scottish Academy of Music. Hámarksfjöldi þátttakenda er 35 og verða þátttakendur valdir með tilliti til þarfa Prófanefndar um fjölda prófdómara í einstökum hljóðfæraflokkum, en eins og kunnugt er miðar aðalnámskrá tónlistarskóla við að prófdómarar á grunnprófi geti dæmt próf á hvaða hljóðfæri sem er en á miðprófi dæmi prófdómari einungis próf í sínum hljóðfæraflokki. Prófanefnd hefur gengið frá auglýsingu um námskeiðið sem liggur hér frammi og mun m.a. verða dreift í alla tónlistarskóla. Í kjölfar námskeiðsins verða prófdómarar ráðnir til starfa en þátttaka í námskeiðinu er ekki trygging fyrir ráðningu. Mikilvægt er að hæfir prófdómarar fáist og mun Prófanefnd kappkosta að svo verði.

Að undanförnu hefur verið unnið að heimasíðu fyrir Prófanefnd og mun hún verða opnuð á næstu dögum. Veffangið verður: www.profanefnd.is og mun tilkynning um opnun síðunnar verða send í tónlistarskóla. Enda þótt síðan sé enn ekki komin á netið er ekkert því til fyrirstöðu að kynna uppbyggingu hennar hér. Vonandi mun heimasíðan reynast gagnleg og þiggur nefndin með þökkum ábendingar um efni á síðuna.

Sérstaklega vil ég vekja athygli á drögum að viðmiðunum fyrir einkunnagjöf á grunn- og miðprófi sem komið hefur verið fyrir á heimasíðunni. Óskar Prófanefnd eftir ábendingum varðandi þessar viðmiðanir fyrir miðjan nóvember næstkomandi.

Formanni og varaformanni Prófanefndar gafst kostur á að kynna störf nefndarinnar á svæðisþingum tónlistarskóla, annars vegar á Selfossi þar sem saman komu tónlistarkennarar úr nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, af Reykjanesi, úr Vestmannaeyjum og Suðurlandi, og hins vegar hér í Borgarnesi um síðustu helgi þar sem tónlistarkennarar af Vesturlandi og Vestfjörðum hittust. Tókust þessar kynningar vel og sýndu þátttakendur viðfangsefnum Prófanefndar áhuga.

Fjármál

Reikningsár Prófanefndar tónlistarskóla er frá 1. ágúst til 31. júlí. Á síðasta fulltrúaráðsfundi var samþykkt árstillag að upphæð 100 krónur á hvern nemanda í reglulegu námi, skv. ákvæðum skipulagskrár. Þá ber aðildarskólum að greiða stofnframlag, 15.000 kr. vegna tónlistarskóla með færri en 200 nemendur og 30.000 kr. vegna skóla með 200 nemendur eða fleiri. Prófanefnd hefur enn ekki innheimt þessi gjöld enda þótt greiða ætti þau fyrir 15. nóvember á síðasta ári. En nú er ljóst að gera verður bragarbót því ekki er lengur hægt að komast hjá útgjöldum vegna Prófanefndar. Ekki verða lagðir fram endurskoðaðir reikningar að þessu sinni heldur einungis yfirlit um ógreiddan kostnað vegna nefndarinnar.

Viðræður við menntamálaráðuneytið hafa átt sér stað um fjárstuðning til nefndarinnar og nýverið var sótt um þróunarstyrk að fjárhæð 500.000 kr. en svar hefur enn ekki borist. Þá er gert ráð fyrir að ráðuneytið styrki prófdómaranámskeið eins og áður hefur verið lofað og verður fjárstyrkur væntanlega hækkaður eitthvað frá því sem ákveðið hafði verið. Síðast en ekki er gert ráð fyrir að Prófanefnd tónlistarskóla og menntamálaráðuneytið geri með sér samstarfssamning og mun væntanlega verða gengið frá honum í kjölfar afgreiðslu umsókna um þróunarstyrkinn og fjárstuðning vegna prófdómaranámskeiðsins.

Verkefni framundan

Ljóst er að mikið starf er framundan hjá Prófanefnd tónlistarskóla á næstu mánuðum. Ganga þarf frá viðmiðunum fyrir einkunnagjöf, handbók fyrir prófdómara, halda prófdómaranámskeiðið, ráða prófdómara, endurskoða áætlanir um kostnað vegna áfangaprófanna, ljúka gerð vitnisburðar- og einkunnablaða, skipuleggja framkvæmd prófanna og varðveislu niðurstaðna prófanna, svo það helsta sé nefnt. Síðast en ekki síst þarf að kynna þetta nýja prófakerfi fyrir væntanlegum notendum.

Lokaorð

Það er von Prófanefndar tónlistarskóla að okkur takist það vandasama verk að koma á fót prófakerfi fyrir tónlistarskólana sem standi undir væntingum og í því efni er samstarf við fulltrúaráðið mikilvægt á næstu árum. Vonandi hefur okkur miðað áleiðis í rétta átt þegar við hittumst að ári. Ég vil að lokum þakka samstarfsmönnum í Prófanefndinni, bæði aðal- og varamönnum einkar gott samstarf á þessu starfstímabili.

Reykjavík, 3. október 2003

Kristín Stefánsdóttir, formaður

 

 

 

Prófanefnd tónlistarskóla