Skráning í
áfangapróf
Áfangapróf í
klassískri tónlist
Áfangapróf í
rytmískri tónlist
Um Prófanefnd
tónlistarskóla
Information
in english

Helstu verkefni

Skipulagsskrá

Aðild

Ársskýrslur
Úrskurðir
Spurt og svarað
Tölfræðilegar
upplýsingar

 

Skýrsla um starfsemi Prófanefndar tónlistarskóla frá október 2003 til september 2004

Inngangur

Í þriðja sinn koma fulltrúar aðildarskóla Prófanefndar tónlistarskóla saman til fulltrúaráðsfundar og lýkur með því annasömu starfsári þegar fyrstu áfangapróf í íslenskum tónlistarskólum urðu að veruleika.

Skipan Prófanefndar

Á liðnu starfsári var prófanefnd skipuð sömu aðilum og áður, enda kjörtímabil nefndarinnar fjögur ár.

Í Prófanefnd tónlistarskóla sitja:

  • Kristín Stefánsdóttir, formaður, fulltrúi FT og FÍH
  • Robert Faulkner, varaformaður, fulltrúi STS
  • Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Hafsteinn Guðmundsson, kosinn á stofnfundi
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, kosin á stofnfundi.

Varamenn eru:

  • Bragi Michaelsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Helgi Þ. Svavarsson, fulltrúi STS
  • Sigurður Flosason, fulltrúi FT og FÍH
  • Árni Harðarson, kosinn á stofnfundi
  • Hildigunnur Halldórsdóttir, kosin á stofnfundi.

Starfsemi nefndarinnar

Á liðnu starfsári hefur verklag innan Prófanefndar tónlistarskóla verið með svipuðu sniði og áður. Nefndin hélt sjö fundi á tímabilinu en auk þess hefur verkefnum verið skipt á milli nefndarmanna milli funda, tölvupóstur notaður til samskipta og vinnu- eða símafundir formanns, varaformanns og einstakra nefndarmanna haldnir um tiltekin mál. Meginviðfangsefnin voru þjálfun prófdómara og skipulagning áfangaprófa ásamt tilheyrandi undirbúningsstarfi.

Undirbúningur vetrarstarfsins

Síðastliðið haust óskaði Prófanefnd eftir upplýsingum frá aðildarskólunum um áætlaðan fjölda grunn- og miðprófa í einstökum skólum og brugðust margir vel við þeirri beiðni. Þessar upplýsingar gáfu Prófanefnd vísbendingar um umfang prófanna, sem m.a. voru hafðar til hliðsjónar við val þátttakenda á prófdómaranámskeið.

Val og þjálfun prófdómara

Eins og fram kom á fulltrúaráðsfundi á síðasta ári fékk Prófanefnd tónlistarskóla Philip Jenkins, píanóleikara og prófessor við Royal Scottish Academy of Music, til að vera aðalleiðbeinandi á prófdómaranámskeiði og var það haldið var 6.-8. febrúar 2004 í sal FÍH í Reykjavík. Auglýst var eftir þátttakendum á námskeiðið í október 2003 og lá auglýsingin frammi á fulltrúaráðsfundi PT 2003, auk þess sem hún var bæði send til tónlistarskóla, sett á vefsíðu Prófanefndar og birt í Morgunblaðinu. Um 60 umsóknir bárust um þátttöku.

Strax var ljóst að takmarka yrði fjölda þátttakenda í námskeiðinu til að þjálfun yrði nægilega markviss og var fjöldinn takmarkaður við 35 þátttakendur. Við val þátttakenda var tekið mið af menntun og reynslu umsækjenda í samræmi við kröfur til tilgreindar voru í auglýsingunni, auk þess sem Prófanefnd hafði áður en námskeiðið var auglýst gert áætlun um hvernig skipta þyrfti plássum á námskeiðinu á milli einstakra hljóðfæraflokka, þannig að þörfum Prófanefndar fyrir sérhæfingu samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla yrði sem best mætt. Við þá áætlanagerð var höfð hliðsjón af könnun Félags tónlistarskólakennara um starfsemi tónlistarskóla frá árinu 2003 og áætlunum skólanna. Þrjátíu og þrír prófdómarar luku námskeiðinu og allir utan einn hafa dæmt próf á vegum nefndarinnar.

Leitað var til nokkurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu um að senda nemendur til að spila eða syngja á prófdómaranámskeiðinu og var brugðist vel við þeirri bón. Eru skólunum, nemendum og kennurum þeirra færðar bestu þakkir. Framlag þeirra var mikils virði.

Menntamálaráðuneytið veitti fjárstuðning til námskeiðsins að fjárhæð 350.000 krónur.

Að mati Prófanefndar og þátttakenda tókst námskeiðið mjög vel og reyndist það góður grunnur fyrir prófdómarastörfin á liðnu vori.

Viðmiðanir fyrir prófdæmingu

Eiit af lykilatriðum í að ná samræmi í mat prófdómara er að þeir hafi haldgóðar viðmiðanir til að ganga út frá. Lögð var mikil vinna af hálfu prófanefndarmanna í gerð viðmiðana fyrir eintaka prófþætti á grunn- og miðprófum í hljóðfæraleik og einsöng. Eru þessar viðmiðanir aðgengilegar á vef Prófanefndar, bæði á íslensku og ensku.

Undirbúningur áfangaprófa

Prófanefnd tók saman lítinn bækling með hagnýtum upplýsingum varðandi áfangaprófin og undirbúning þeirra og var bæklingurinn sendur til allra tónlistarskóla á landinu.

Óskað var eftir því að beiðnir um próftöku vorið 2004, ásamt óskum um próftíma, bærust Prófanefnd eigi síðar en 15. mars 2004. Prófanefnd setti þann fyrirvara að ekki væri unnt að tryggja að hægt yrði að verða við beiðnum um prófdæmingu ef óskir þess efnis bærust eftir 15. mars. Ekki þurfti að skila fullkomnum verkefnalistum fyrr en fjórum vikum fyrir áætlaðan prófdag. Talsvert á fimmta hundrað beiðna bárust á tilsettum tíma og í nokkrum tilvikum bárust beiðnir síðar.

Það sem olli einna mestum vandræðum í skipulagningu prófanna var hversu margir hættu við próftöku, oft með skömmum fyrirvara eða jafnvel mættu ekki í prófið, en vonandi mun slíkt ekki endurtaka sig í svo ríkum mæli. Prófanefnd tókst að verða við öllum beiðnum um próftöku, jafnvel þeim sem bárust eftir 15. mars.

Óundirbúinn nótnalestur

Prófanefnd lét semja sérstök dæmi til að meta "óundirbúinn nótnalestur". Í öllum tilvikum fékk tónskáldið sýnishorn sem gaf til kynna af hvaða erfiðleikagráðu tóndæmin áttu að vera og voru dæmin síðan yfirfarin af sérfræðingum áður en gengið var endanlega frá þeim til nota í áfangaprófunum.

Aðildarskólar Prófanefndar tónlistarskóla

Fjörutíu og sjö tónlistarskólar voru stofnaðilar Prófanefndar en aðildarskólum fjölgaði á liðnum vetri og eru skólarnir nú 54 og tveir til viðbótar hafa spurst fyrir um aðild að nefndinni.

Starfsmaður Prófanefndar

Í marsmánuði var Ingrid Markan ráðin til starfa fyrir Prófanefnd. Hafði hún það hlutverk að taka við prófbeiðnum, skipuleggja áfangaprófin í samráði við viðkomandi skóla, ráða prófdómara til starfa í hverju tilviki og sjá til þess að prófdómarar hefðu öll nauðsynleg gögn undir höndum fyrir hvert próf. Að loknu prófi sendu prófdómarar prófgögnin síðan til baka til hennar.

Mikið álag var á Ingrid fram undir lok maímánaðar og sinnti hún störfum af mikilli prýði og samviskusemi. Byrjunarörðugleikar í nýju kerfi hafa án efa valdið því að oft þurfti að hafa talsvert fyrir því að fá fullnægjandi upplýsingar um viðfangsefni próftaka og ekki var alltaf létt verk að finna prófdómara, enda álagið mikið á stuttum tíma og prófdómararnir oft bundnir í öðrum störfum.

Í upphafi þessa skólaárs varð ljóst að Ingrid Markan sæi sér ekki fært að sinna áfram störfum fyrir Prófanefnd og hefur hún nú látið af störfum. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir mikilvægt brautryðjendastarf.

Kostnaður við áfangaprófin

Prófgjöld voru ákveðin 4.600 krónur fyrir grunnpróf og 6.900 kr. fyrir miðpróf.

Prófanefnd og starfsmaður hennar lögðu kapp á að halda kostnaði við áfangaprófin eins lágum og mögulegt var. Í því skyni var reynt að skipuleggja prófin með sem hagkvæmustum hætti en þess jafnframt gætt að reyna að veita sem besta þjónustu.

Prófanefnd gerði samning við bílaleiguna "Hertz" og gildir hann til næstu áramóta. Bílaleigubílar voru notaðir á landsbyggðinni í tengslum við flug og vegna lengri ferða. Góð reynsla er af samningnum og er miðað við að hann verði endurnýjaður í vetur.

Prófanefnd sá um greiðslu og pöntun flugfarseðla þegar sá ferðamáti var nauðsynlegur. Prófdómarar fengu greidda þóknun fyrir hvert próf sem þeir dæmdu, akstur á eigin bifreið ef prófstaður var í meira en 30 km fjarlægð frá heimili prófdómara, auk greiðslu sem tók mið af dagpeningum samkvæmt reglum Ferðakostnaðarnefndar ríkisins, ef prófdæming og tilheyrandi ferðalag tók lengri tíma en sex klukkustundir. Samkvæmt samningi við prófdómara er þeim tryggð lágmarksþóknun í hvert sinn sem þeir eru fengnir til prófdæmingar en við skipulagningu prófanna var reynt eftir megni að forðast að prófgjöldin stæðu ekki undir kostnaði við prófin.

Framkvæmd áfangaprófa

Í aðalnámskrá tónlistarskóla er að finna eftirfarandi ákvæði: "Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara." Við undirbúning áfangaprófanna síðastliðinn vetur óskaði Prófanefnd eftir heimild menntamálaráðuneytisins til þess að víkja frá þessu ákvæði og féllst ráðuneytið á tillögu nefndarinnar þess efnis að áfangapróf fari alltaf fram en sé prófdómari í vafa um að prófið eða hlutar þess samræmist ekki ákvæðum námskrár geri hann athugasemd þess efnis til Prófanefndar og láti ljósrit af viðkomandi prófverkefni eða verkefnum fylgja. Prófanefnd úrskurðar síðan um gildi prófsins. Þetta felur það í sér að nemandi fær alltaf vitnisburðarblað um frammistöðu sína á prófinu en mögulegt er að prófið verði ekki viðurkennt sem áfangapróf ef um veruleg frávik er að ræða frá ákvæðum námskrár.

Í nokkrum tilvikum gerðu prófdómarar athugasemdir til Prófanefndar varðandi verkefnaval á prófi. Nefndin tók þá ákvörðun að ógilda ekki próf en athugasemdir voru sendar til tónlistarskóla þegar tilefni var til slíks.

Vorið 2004 þreyttu nemendur 35 tónlistarskóla áfangapróf, alls 395 nemendur. Fyrsta próf fór fram 12. mars og síðasta prófið 4. júní. Þrjátíu og tveir prófdómarar mátu prófin á vegum nefndarinnar.

Prófanefnd er þeirrar skoðunar að framkvæmd prófanna hafi gengið eins vel og hægt var að búast við miðað við að allir voru að feta sín fyrstu skref í nýju prófakerfi.

Tvær kærur bárust vegna áfangaprófa, í öðru tilvikinu vegna meints ósamræmis milli umsagna og einkunna en hins vegar vegna framkvæmdar prófsins. Að fenginni umsögn prófdómara úrskurðaði Prófanefnd í fyrra tilvikinu að breyta skyldi niðurstöðu prófsins en hvorki þótti tilefni til að hreyfa niðurstöðu síðara prófsins né heimila endurtöku þess.

Vitnisburðarblöð og áfangaprófsskírteini

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla fá nemendur vitnisburðarblað fyrir hvorn prófhluta á grunn- og miðprófi, þ.e. hljóðfærapróf annars vegar og tónfræðapróf hins vegar. Þar sem tónfræðanámskrá hefur enn ekki verið gefin út í nema í bráðabirgðaútgáfu fyrir grunn- og miðnám, tók Prófanefnd þá ákvörðun að óska eftir upplýsingum um tónfræðakunnáttu próftaka miðað við þær kröfur sem þar eru gerðar. Nemendur sem höfðu tónfræðakunnáttu samsvarandi kröfum á grunnprófi í tónfræðagreinum fengu, auk vitnisburðarblaðs með einkunnum og umsögunum um frammistöðu á hljóðfæraprófinu, skírteini um að þeir hefðu lokið grunnprófi og sami háttur var hafður á varðandi miðprófsnemendur.

Prófanefnd tónlistarskóla hafði alltaf ætlað sér að senda niðurstöður prófanna til viðkomandi tónlistarskóla sem myndu síðan sjá til þess að koma þeim áfram til nemenda. Hins vegar reyndust þau vandkvæði á því að nefndinni var nauðsynlegt að vita hvenær nemendur fengju vitnisburðinn til þess að kærufrestur væri ekki umdeilanlegur. Í ljósi þessa var ákveðið að Prófanefnd myndi senda nemendum niðurstöður prófanna og tónlistarskólum afrit. Þessi ákvörðun mæltist ekki vel fyrir og Prófanefnd var heldur ekki sátt við þessa tilhögun. Sem betur fer fannst sú lausn á þessu vandamáli, áður en að útsendingu prófgagna kom, að tónlistarskólarnir gæfu nefndinni upp hvenær nemendur fengju vitnisburðinn og þar með væri hætta á ágreiningi um kærufrest ekki lengur fyrir hendi. Voru tónlistarskólum sendar upplýsingar um þetta og óskuðu flestir eftir að afhenda nemendunum prófniðurstöðurnar.

Frágangur vitnisburðarblaða og prófskírteina reyndist mjög tímafrekur og var lögð nótt við dag til að unnt yrði að ganga frá öllu í tæka tíð. Í öllum tilvikum tókst að ganga frá gögnunum í tíma, enda þótt það stæði stundum tæpt. Vonir standa til þess að unnt verði að flýta þessum lokafrágangi á þessu skólaári, enda liggur útlit skjalanna að mestu leyti fyrir og unnið er að frágangi gagnagrunns fyrir nefndina sem væntanlega mun létta störfin til muna.

Niðurstöður áfangaprófa

Eins og að framan sagði þreyttu 395 nemendur grunn- eða miðpróf vorið 2004. Grunnpróf þreyttu 315 nemendur, 243 luku prófinu að fullu, 69 höfðu ekki nægilega tónfræðakunnáttu miðað við námskrá og þrír nemendur stóðust ekki próf.

Miðpróf í hljóðfæraleik eða einsöng þreyttu 80 nemendur, 54 luku prófinu að fullu, 24 hafa ekki lokið tónfræðahlutanum og tveir stóðust ekki próf.

Próftakar á grunnprófi skiptust þannig á milli hljóðfæraflokka:

Nemendur sem þreyttu miðpróf skiptust á milli hljóðfæraflokka á eftirfarandi hátt:

Meðaleinkunn á grunnprófi var 7,95, lægsta einkunn var 5,7 og hæsta einkunn 9,6. Á miðprófi var meðaleinkunn 7,91, lægsta einkunn var 5,0 og hæsta einkunn 9,6.

Þegar frammistaða nemenda í einstökum prófliðum er athuguð kemur eftirfarandi í ljós:

Við úrvinnslu á niðurstöðum áfangaprófanna var valþáttur prófanna athugaður sérstaklega og hefur nefndin greint eftirfarandi skiptingu viðfangsefna, en tekið skal fram að viðfangsefni falla oft illa í tiltekinn flokk og oft matsatriði hvernig flokka ætti viðfangsefnin.

Prófdómarar

Eftir að próftímabilinu lauk var athugað hverjir hefðu metið prófin og kom þá í ljós að 63% prófa voru metin af sérfræðingum á viðkomandi hljóðfæri eða í viðkomandi hljóðfæraflokki en 36% prófa metin af prófdómurum sem leika á hljóðfæri í öðrum hljóðfæraflokkum.

Ekki reyndist tölfræðilega marktækur munur á því hvort prófdómari dæmdi próf innan eigin hljóðfæraflokks eða ekki.

Sunnudaginn 19. september síðastliðinn var haldinn fundur í Reykjavík með prófdómurum Prófanefndar og var mætingin á fundinum góð. Farið var yfir niðurstöður prófanna, rætt var um reynsluna af fyrsta próftímabilinu, fjallað um umsagnir, auk þess sem prófdómurum gafst kostur á að bera saman bækur sínar og meta eigin frammistöðu. Enn fremur var viðhorf prófdómara til ýmissa þátta kannað.

Hér á eftir fer samantekt á helstu svörum prófdómara:

Próftími á grunnprófi (30 mínútur):
83% töldu próftíma hæfilegan, 13% of langan og 4% of stuttan.

Próftími á miðprófi (45 mínútur):
85% töldu próftíma hæfilegan, 10% of langan og 5% of stuttan.

Langflestum prófdómurum fannst viðmiðin nýtast vel við að orða umsagnir og gefa einkunnir en töldu að aukin æfing í notkun þeirra væri æskileg.

Í flestum tilvikum þótti prófdómurum aðstaðan í skólunum vera góð en eftirfarandi athugasemdir komu þó fram:

  • í íþróttasal, mjög kalt, hljóðfærið á hjólum og átt í pedal
  • truflandi umhverfishljóð og hávaði á milli hæða
  • prófdómari sat við barnaborð sem var alltof lágt
  • flygill ekki nógu góður, falskur og mð ójafnan áslátt
  • afskipti kennara á einum stað, athuga hvar kennari situr
  • óþægilegt getur reynst að hafa kennara í sjónlínu á milli prófdómara og nemanda.

Í nokkrum tilvikum sögðu prófdómarar kennara hafa haft óeðlileg afskipti af prófi.

Prófdómarar voru spurðir sína um afstöðu til þess að skólastjórnendur sætu inni í prófum. 74% svarenda voru frekar eða mjög hlynntir því en 26% voru því andvígir eða mjög andvígir. Prófdómarar voru spurðir um það hvort þeim hefði þótt erfitt að dæma próf í einstökum hljóðfæraflokkum og mátti merkja af svörunum að sumum fyndist heldur erfiðara að meta próf í öðrum hljóðfæraflokkum en þeirra eigin.

Auk þessa var spurt um hvort og hve oft prófdómarar hefðu verið í vafa um að prófverkefni væru í samræmi við námskrá. Allir svöruðu því játandi, níu í einu til tveimur prófum, 11 í þremur til níu prófum og þrír í fleiri en níu prófum.

Í könnuninni komu enn fremur fram nokkur atriði og ábendingar sem Prófanefnd mun hafa til hliðsjónar við skipulag prófanna í vetur.

Vefsíða Prófanefndar

Vefsíða Prófanefndar var opnuð skömmu eftir síðasta fulltrúaráðsfund og má þar finna ýmsar upplýsingar varðandi áfangaprófin og störf nefndarinnar, bæði á íslensku og ensku. Fyrir liggur nú að bæta upplýsingum og á síðuna og endurnýja, m.a. verða tölfræðilegar upplýsingar um niðurstöður prófanna birtar þar í kjölfar þessa fundar.

Kynningarstarf

Á síðastliðnu skólaári heimsótti formaður Prófanefndar nokkra tónlistarskóla, að ósk forsvarsmanna þeirra, kynnti prófakerfið og svaraði fyrirspurnum. Sömuleiðis hafa tveir tónlistarskólar verið heimsóttir það sem af er vetri. Prófanefnd reynir að verða við öllum slíkum óskum sem berast. Þá hefur fjölmörgum fyrirspurnum verið svarað, ýmist símleiðis, með tölvupósti eða á förnum vegi. Auk þess var umfjöllun um áfangapróf og valþátt prófanna á dagskrá þeirra tveggja svæðisþinga tónlistarkennara sem haldin hafa verið í haust. Formaður og varaformaður önnuðust þennan dagskrárlið á svæðisþinginu á Ísafirði og í Reykjavík var umfjöllunin í höndum formanns og Sigurðar Flosasonar, varamanns í Prófanefnd. Ráðgert er að formaður og varaformaður taki þátt í svæðisþingi fyrir Norður- og Austurland sem haldið verður um næstu helgi.

Það er mat Prófanefndar að slíkar heimsóknir og kynningar séu veigamikill þáttur í starfsemi nefndarinnar og hvarvetna hafa áheyrendur sýnt viðfangsefnum Prófanefndar áhuga.

Fjármál

Síðastliðinn vetur voru stofnframlög til Prófanefndar tónlistarskóla innheimt, ásamt árgjöldum fyrir skólaárin 2002-2003 og 2003-2004, í samræmi við samþykktir á síðasta fulltrúaráðsfundi. Auk þess veitti menntamálaráðuneytið nefndinni fjárstuðning, annars vegar 500.000 kr. vegna þróunarstarfs og hins vegar 350.000 kr. vegna prófdómaranámskeiðsins. Vonir standa til þess að gengið verði frá samstarfssamningi við menntamálaráðuneytið og mun það væntanlega skýrast á næstu mánuðum. Ráðuneytið hefur fylgst með störfum nefndarinnar og verður ekki annað séð en að ráðuneytismenn séu sáttir við þróun mála.

Lokaorð

Þegar á heildina er litið er ekki hægt að segja annað en að framkvæmd áfangaprófanna síðastliðið vor hafi gengið vonum framar. Prófanefnd þakkar það ekki síst góðu samstarfi við tónlistarskólana og lipurð og jákvæðri afstöðu prófdómara. Vissulega hefur rekstrarfé nefndarinnar verið af skornum skammti en þrátt fyrir það hefur Prófanefnd reynt að sinna sínum verkefnum eftir fremsta megni. Nefndin er nú reynslunni ríkari og það er von okkar að með samstilltu átaki takists að þróa og festa prófakerfið betur í sessi þannig að það geti staðið undir væntingum.

Ég vil að lokum þakka samstarfsmönnum í Prófanefndinni, bæði aðal- og varamönnum, einkar gott samstarf á þessu starfstímabili.

Reykjavík, 25. september 2004

Kristín Stefánsdóttir, formaður

 

 

 

Prófanefnd tónlistarskóla