A L M E N N T U M Á F A N G A P R Ó F
Á áfangaprófum í hljóðfæraleik skal bæði gefa skriflegar umsagnir um hvern prófþátt og einkunn í tölustöfum (einingum). Frammistaða nemanda í sérhverjum prófþætti er metin til eininga allt að tilgreindu hámarki. Samanlagður hámarkseiningafjöldi allra prófþátta á hverju prófi er 100 einingar og skal gefið í heilum einingum. Einkunn er reiknuð á þann hátt að deilt er í heildareiningafjölda með 10. Nota skal hundrað eininga kvarða og tilgreina einkunn með tölunum 1 til 10 og einum aukastaf, t.d. gefa 79 einingar einkunnina 7,9.
Til að standast áfangapróf þarf nemandi að ná samtals 60 einingum í hljóðfæraleik, sem samsvarar lágmarkseinkunn 6,0, og jafnframt að hljóta sömu lágmarkseinkunn í tónfræðagreinum.
Ef prófverkefni fullnægja ekki kröfum aðalnámskrár tónlistarskóla að mati Prófanefndar tónlistarskóla, áskilur nefndin sér rétt til þess að hafna prófinu sem lokaprófi úr viðkomandi áfanga. Í slíkum tilvikum verða gefin út sérstök vitnisburðarblöð, ásamt skýringu, og viðkomandi tónlistarskóla send greinargerð, eftir atvikum áminning, um málið.
Prófanefnd gefur út vitnisburðarblöð og áfangaprófsskírteini fyrir áfangapróf í hljóðfæraleik og einsöng. Vitnisburðarblöð og prófskírteini eru send viðkomandi tónlistarskóla til afhendingar til nemenda sinna nema skólinn óski sérstaklega eftir því að Prófanefnd sendi þau beint til próftaka.
Á vitnisburðarblöðum koma fram einkunnir og umsagnir fyrir viðkomandi prófhluta en áfangaprófsskírteini eru án einkunna og umsagna. Áfangaprófsskírteini eru gefin út þegar nemandi hefur lokið áfangaprófi að öllu leyti, þ.e. einnig lokið prófi í tónfræðagreinum.
Nemandi sem ekki hefur lokið samsvarandi prófi í tónfræðum þegar hann þreytir hljóðfæraprófið fær ekki útgefið áfangaprófsskírteini - einungis vitnisburðarblað. Af þessari ástæðu þurfa upplýsingar um kunnáttu nemanda í tónfræðagreinum að koma fram í prófbeiðni. Hafi nemandi ekki lokið prófi í tónfræðum þegar prófbeiðni er send Prófanefnd þarf skólastjórnandi að láta nefndina vita þegar nemandinn lýkur slíku prófi til að áfangaprófsskírteinið verði gefið út.
Nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, getur kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Kæra skal vera skrifleg og er kærufrestur 14 dagar frá því að nemanda var tilkynnt niðurstaða prófs. Úrskurður nefndarinnar skal kveðinn upp innan tveggja mánaða frá því að kæran barst henni.
Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Úrskurður Prófanefndar tónlistarskóla er endanlegur.