R Y T M Í S K   T Ó N L I S T

Prófreglur námskrár í rytmískri tónlist

Hér að neðan er að finna prófreglur samkvæmt ákvæðum námskrár í rytmískri tónlist, bæði almennar prófreglur, prófreglur sem gilda um hljóðfærapróf og prófreglur sem gilda um tónfræðapróf.

Almennar prófreglur - hljóðfæra- og tónfræðapróf

1. 
Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum.

2. 
Það ræðst eingöngu af heildareinkunn allra prófþátta í hljóðfæraleik og tónfræðum hvort nemandi stenst próf eða ekki. Til að standast áfangapróf þarf nemandi að ná samtals 60 einingum í hljóðfæraleik sem samsvarar lágmarkseinkunn 6,0 og jafnframt að hljóta sömu lágmarkseinkunn í tónfræðagreinum. (Til að standast framhaldspróf í tónfræðagreinum þarf lágmarkseinkunnina 6,0 í hverri grein, sjá nánar í kafla um tónfræðagreinar í námskrá í rytmískri tónlist.)

3. 
Kennurum ber að útskýra fyrir nemendum og foreldrum/forráða-mönnum hvað niðurstöður hljóðfæra- og tónfræðaprófa merkja.

4. 
Komi til ágreinings um einkunnagjöf eiga nemandi og foreldri/forráðamaður rétt á að fá ítarlegar útskýringar á forsendum og niðurstöðum mats, bæði í hljóðfæra- og tónfræðaprófum.

Prófreglur - hljóðfærapróf

1. 
Við val prófverkefna skal kennari gæta þess að lengd prófsins sé í samræmi við tímamörk aðalnámskrár. Miðað er við að prófverkefni séu leikin til enda.

2. 
Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár.

3. 
Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta. Þannig getur t.d. eitt langt verk ekki komið í stað tveggja styttri og einstakir kaflar sama tónverks ekki talist aðskildir prófþættir.

4. 
Fylgja skal fyrirmælum námskrár varðandi tónstiga og hljóma sem undirbúnir skulu fyrir hvert áfangapróf. Á prófi velur prófdómari hvaða tónstigar og hljómar eru leiknir.

5. 
Nemandi ræður röð prófþátta.

6. 
Áfangapróf skulu einungis dæmd af utanaðkomandi prófdómurum.

7. 
Gæta skal þess að sami prófdómari dæmi ekki mörg ár í röð í sama skóla.

8. 
Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Einnig skal á öllum prófum fylgja safnlisti og upprit á miðprófi og framhaldsprófi.

9. 
Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara ber honum að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar tónlistarskóla sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti.

10. 
Prófdómari er ábyrgur fyrir því að nemandi fái hæfilegt prófverkefni í óundirbúnum nótnalestri.

11. 
Kennara er heimilt að vera viðstaddur áfangapróf enda hafi hann ekki áhrif á niðurstöður prófdómara.

12. 
Prófdómari dæmir frammistöðu nemandans á prófi án tillits til hugsanlegra skýringa eða athugasemda.

13. 
Prófdómara ber að gera nemendum grein fyrir mati sínu á hverjum þætti prófsins með skriflegri umsögn og tölum, bæði hvað vel var gert og hvað betur hefði mátt fara.

14. 
Prófdómari skal vera viðstaddur framhaldsprófstónleika og gefa skriflega umsögn um frammistöðu nemandans. Sé þess nokkur kostur skal það vera sami prófdómari og dæmdi framhaldspróf viðkomandi nemanda.

Prófreglur - tónfræðapróf

1. 
Tónfræðapróf í miðnámi er skriflegt, verklegt og munnlegt.

2. 
Framhaldspróf í djasshljómfræði er skriflegt og verklegt, framhaldspróf í tónheyrn er skriflegt og munnlegt, framhaldspróf í djass- og rokksögu er skriflegt. Alla jafna skal prófa í valgrein til framhaldsprófs en gerð prófs eða annars námsmats veltur á eðli valgreinar.

3. 
Það ræðst eingöngu af meðaleinkunn allra prófþátta hvort nemandi stenst próf eða ekki. Til að standast miðpróf í tónfræðum þarf einkunnina 6,0. Til að standast framhaldspróf í tónfræðum þarf einkunnina 6,0 í eftirtöldum greinum, hverri fyrir sig: djasshljómfræði, tónheyrn, djass- og rokksögu og einni valgrein. Til að standast framhaldspróf í tónfræðum sem aðalgrein þarf einkunnina 6,0 í hverri eftirtalinna greina: tónsmíðum, útsetningu og tölvutækni.

4. 
Miðpróf skal fara fram að vori, samkvæmt nánari ákvörðun Prófanefndar tónlistarskóla.

5. 
Próftími miðprófs skal auglýstur í upphafi hvers skólaárs.

6. 
Miðpróf skal samið af Prófanefnd tónlistarskóla.

7. 
Nákvæmar leiðbeiningar um framkvæmd og fyrirgjöf munnlegra og verklegra prófþátta fylgja miðprófi. Skólastjórar í einstökum skólum bera ábyrgð á að framkvæmd og fyrirgjöf sé í samræmi við leiðbeiningar og fyrirmæli Prófanefndar.

8. 
Skriflegar úrlausnir nemenda á miðprófi, ásamt einkunn úr munnlegum prófþáttum, skal senda Prófanefnd sem annast yfirferð og sendir niðurstöður til viðkomandi skóla.

9. 
Framhaldspróf skal fara fram að minnsta kosti einu sinni á ári svo fremi að nemendur í viðkomandi skóla hyggist þreyta prófið.

10. 
Framhaldspróf eru samin í hverjum skóla og skulu þau vera í samræmi við ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla.

11. 
Framhaldspróf skulu yfirfarin í hverjum skóla.

12. 
Prófdómari skal vera viðstaddur framhaldsprófstónleika nemenda í tónfræðum sem aðalnámsgrein og gefa skriflega umsögn um tónleikana, framlag nemandans og heildaráhrif. Prófanefnd tónlistarskóla gefur út vitnisburðarblað fyrir tónleikana og áfangaprófsskírteini við námslok.