R Y T M Í S K   T Ó N L I S T

Undirbúningur áfangaprófs í rytmískri tónlist

Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og eiga því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf. Kennari skal gæta þess við undirbúning prófsins að þyngd, fjöldi, inntak og umfang viðfangsefna sé í samræmi við kröfur námskrár. Ef kennari er í vafa um hvort prófverkefni sé í samræmi við kröfur námskrár, getur hann óskað eftir mati Prófanefndar á viðfangsefninu. Skal slíkt gert eigi síðar en fjórum vikum fyrir áætlaðan prófdag.

Við undirbúning áfangaprófa í rytmískri tónlist er mikilvægt að hafa í huga eftirfarandi atriði úr aðalnámskrá tónlistarskóla, námskrá í rytmískri tónlist (2010):

Spuni

Snarstefjun eða spuni er þungamiðja í djasstónlist og mikilvægur þáttur í öðrum gerðum rytmískrar tónlistar. Spuni er því afar mikilvægur þáttur í öllu rytmísku tónlistarnámi sem ber að sinna jafnt í einkakennslu, tónfræðagreinum og samspili. Leiðsögn í spuna þarf að vera fyrir hendi frá upphafi námsins og gæta þarf að eðlilegri framvindu varðandi þennan námsþátt allan námstímann.

Prófkröfur – verk og safnlistar

Í rytmískri tónlist felst flutningur verka annars vegar í túlkun laglínu og hins vegar í spuna. Fyrir nemendur á hljómahljóðfæri kemur einnig til flutningur hljómagangs í undirleik.

Velja skal verkefni á áfangaprófum með hliðsjón af markmiðum og dæmum í viðeigandi hluta námskrár í rytmískri tónlist. Gæta skal þess að verkefnaval sé fjölbreytt og að nemendur leiki verk sem sýna ólík stílbrigði og tempó. Sérstaklega ætti að gæta þess að aðallögin tvö sýni ólíkar hliðar á leik nemandans. Nemendur sem leika á hljómahljóðfæri skulu sýna undirleik í aðallögum og öllum safnlistalögum. Sömuleiðis skal laglínuflutningur og spuni koma fram í öllum lögum samkvæmt prófþætti 1. Nemendur á bassa skulu sýna undirleik og spuna í öllum lögum samkvæmt prófþætti 1 og laglínuflutningur skal koma fram í a.m.k. helmingi aðallaga og helmingi safnlistalaga.

Mikilvægt er að safnlistar innihaldi fjölbreytt úrval stílbrigða og tempóa. Miðað er við að sá lagafjöldi, sem bætist við frá einum námsáfanga til annars, sé af þyngdarstigi hins nýja áfanga. Heimilt er að nota bæði aðallög og safnlistalög frá fyrri prófum á safnlista síðari prófa. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að allur safnlistinn sé endurnýjaður á milli prófa. Miðað er við að einungis útgefin tónlist, hvort heldur er á nótum eða hljóðriti, teljist gjaldgeng á lista.

Miðað er við að djasstónlist sé að minnsta kosti helmingur laga á safnlista við lok mið- og framhaldsnáms en í grunnnámi eru ekki gerðar kröfur um viðfangsefni í tilteknum stíltegundum.

Á áfangaprófum í trommuleik kemur taktbirgðalisti í stað safnlista.

Undirleikur á áfangaprófum

Á öllum áfangaprófum skulu aðallög og safnlistalög flutt með undirleik. Á mið- og framhaldsprófum skulu lögin flutt með hljómsveit en á grunnprófi er heimilt að notast við undirleik kennara eða hljóðritaðan undirleik. Ekkert er því til fyrirstöðu að kennarar leiki í hljómsveit á áfangaprófum.

Próftími

Við val prófverkefna þurfa kennarar að hafa í huga að próftími verði ekki lengri en kveðið er á um í námskrá í rytmískri tónlist:

  • Heildarpróftími á grunnprófi í hljóðfæraleik eða söng skal ekki fara fram úr 30 mínútum. Próf á trommusett mega þó vera allt að 40 mínútur. 
  • Heildarpróftími á miðprófi í hljóðfæraleik eða söng skal ekki fara fram úr 50 mínútum.
  • Heildartími á framhaldsprófi í hljóðfæraleik eða söng skal ekki fara fram úr 60 mínútum.

Aðstaða við próftöku

Mikilvægt er að nemendum sem ganga til prófs sé búin góð aðstaða við próftöku og að skipulag á prófstað sé gott þannig að unnt sé að fylgja tímaáætlun. Því þarf tónlistarskóli m.a. að gæta að eftirfarandi atriðum:

  • Prófstofa sé rúmgóð, björt, hlý, vel loftræst og að hljóð berist ekki frá öðrum stofum.
  • Píanó sem nota á fyrir nemendur eða meðleikara sé sæmilega stillt og jafnt að áslætti.
  • Allur nauðsynlegur búnaður sé fyrir hendi, s.s. nótnapúlt, hljómflutningstæki og hljóðkerfi, og búið sé að stilla upp hljóðfærum sem nota á í prófinu.
  • Hæð nótnapúlta og píanóstóls sé við hæfi nemenda.
  • Prófdómari sé þannig staðsettur að hann geti auðveldlega stjórnað prófinu og fylgst með próftaka. Einnig þarf að gæta að því að prófdómari heyri vel og í jöfnum hlutföllum í próftaka og hljóðriti þegar það á við.
  • Prófdómari sitji einn við borð og að borð og stóll prófdómara sé ætlað fullorðnum.
  • Prófdómara séu látin í té eintök af verkum og æfingum próftaka og verði þess sérstaklega gætt að prófdómari fái í hendur sömu útgáfu prófverkefnanna og próftaki notaði við prófundirbúninginn.
  • Nemendur séu mættir fyrir áætlaðan próftíma.
  • Nemendur fái viðunandi aðstöðu til að taka upp hljóðfæri og til upphitunar.
  • Nemendur séu tilbúnir til að spila þegar þeir koma inn í prófstofu. Reikna verður með eðlilegum tíma til hljóðprufu þegar hljómsveit spilar með nemanda í prófi.
  • Nemendur hafi aðgang að drykkjarvatni meðan á prófi stendur, óski þeir þess.
  • Prófdómari fái sérstaka aðstöðu til undirbúnings og frágangs, óski hann þess.

Prófdómara er óheimilt að ræða niðurstöður einstakra prófa við kennara, skólastjóra, nemendur eða aðstandendur þeirra. Æskilegt er að kennari geri nemendum og aðstandendum þetta ljóst áður en próf fer fram. Rétt er einnig að taka fram að hlutverk prófdómara er einungis að meta frammistöðu nemenda á áfangaprófum, hvorki að leiðbeina kennurum né nemendum.