A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurðir um framkvæmd áfangaprófa

Meðal verkefna Prófanefndar er að úrskurða um kærur varðandi framkvæmd áfangaprófa og störf prófdómara. Hér eru birtir helstu úrskurðir nefndarinnar.

Úrskurður nr. 29, 16. ágúst 2022

Tónlistarskóli mótmæælti einkunnagjöf prófdómara á þeim forsendum að ekki væri samræmi milli umsagnar og einkunnagjafar í tveimur tilteknum prófþáttum. Prófanefnd taldi ekki vera slíkt ósamræmi milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar um þessa prófþætti að tilefni væri til að hagga við einkunnagjöf.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 28, 17. febrúar 2020

Flutningur dúetts sem valverkefnis á grunnprófi í einsöng var ekki talinn samræmast kröfum námskrár. Því var prófið afgreitt með frádrætti vegna annmarka á valþættinum. Prófanefnd féllst ekki á kæru sem var borin fram á þeim grundvelli að dúett hefði áður verið fluttur sem valverkefni við skólann og var í því sambandi m.a. bent á að atvik væru ekki samanburðarhæf.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 26, 13. júní 2019

Að mati Prófanefndar skorti verulega á að þyngjdarstig tveggja viðfangsefna sem próftaki flutti á miðprófi, fullnægðu viðmiðunum í námskrá. Ekki var fallist á það með kæranda að sú staðreynd að annað þessara verka hefði áður verið flutt sem viðfangsefni á tveimur miðprófum í skólanum, m.a. vorið 2017, ætti að leiða til þess að verkið yrði viðurkennt sem fullnægjandi prófverkefni á miðprófi próftakans. Við athugun Prófanefndar kom í ljós að prófdómari hefði vorið 2017 gert athugasemdir við þyngdarstig umrædds verks án þess að það hefði leitt til viðbragða nefndarinnar. Af þessari ástæðu þótti rétt að taka próf próftakans til greina sem gilt miðpróf. Einkunn var á hinn bóginn lækkuð vegna ófullnægjandi prófverkefnis.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 25, 13. júní 2019

Talið var að í ollum tónverkum og æfingunni, sem flutt var grunnprófi, hefði þyngdarstig verks vikið verulega frá viðmiðunum í námskrá. Að teknu tilliti til fjölda viðfangsefna sem töldust ekki fullnægjandi og að um veruleg frávik frá kröfum námskrár var að ræða í öllum þessara tilvika, þótti ekki fært að viðurkenna prófið sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 24, 13. júní 2019

Ekki var fallist á það með kæranda að misræmi væri milli umsagnar og einkunnagjafar prófdómara í þremur tilteknum prófþáttum. Að öðru leyti var talið að kæran varðaði atriði sem ekki sættu kæru til Prófanefndar.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 23, 9. nóvember 2015

Prófanefnd taldi að í fjórum viðfangsefna grunnprófs, þar á meðal í öllum tónverkunum, hefði þyngdarstig verks vikið verulega frá viðmiðunum í námskrá. Að teknu tilliti til fjölda viðfangsefna sem töldust ekki fullnægjandi og að um veruleg frávik frá kröfum námskrár var að ræða í öllum þessara tilvika, þótti ekki fært að viðurkenna prófið sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 22, 9. desember 2008

Í kæru var m.a. gerð athugasemd við ætlað misræmi milli einkunnar fyrir heildarsvip og einkunnagjafar að öðru leyti. Prófanefnd tók fram að þessum prófþætti fælist að gefin væri sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins. Taka mætti undir það að niðurstaða um þennan lið, sem fæli sér heildarmat á frammistöðu próftaka, hlyti að vera í verulegri samhljóman við umsögn og einkunnagjöf um aðra prófþætti. Allt að einu kæmu hér til athugunar atriði sem ekki yrðu fyllilega metin í einkunnagjöf fyrir einstök verkefni á prófi og gæti einkunn vegna þessa liðar því verið hlutfallslega hærri eða lægri en fyrir aðra prófþætti. Í greinargerð prófdómara vegna kærunnar var fallist á að einkunn fyrir þennan prófþátt hefði verið of lág og að hækka bæri hana úr 3 í 4. Að virtum atvikum féllst Prófanefnd á að efni væru til að breyta niðurstöðu prófs nemandans á þann hátt sem prófdómari legði til.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 21, 9. desember 2008

Talið var að ummæli prófdómara, sem ekki áttu við rök að styðjast, kynnu að hafa haft áhrif á frammistöðu nemandans í hluta viðkomandi prófþáttar. Þótti rétt að hækka einkunn vegna prófþáttarins um tvær einingar, úr 10 í 12, en umsögn prófdómara stóð óhögguð.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 18, 15. júlí 2008

Talið var að þrjú verkefni á grunnprófi, þ.e. tónverk, æfing og valverkefni, hefðu ekki verið í samræmi við þyngdarkröfur námskrár og að frávik væru veruleg í a.m.k. tveimur þeirra tilvika. Því þótti ekki fært að viðurkenna prófið sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. Var ekki fallist á kæru sem var borin fram á þeim grundvelli að tvö verkanna hefðu áður verið flutt á grunnprófum án athugasemda af hálfu prófdómara.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 16, 15. október 2007

Frádráttur sjö eininga á grunnprófi, þar sem hvorki tónverk né æfing var leikin utanbókar, var fellur niður á þeim forsendum að prófið væri eitt fyrsta áfangaprófið frá viðkomandi skóla og væntanlega um byrjunarörðugleika að ræða í nýju kerfi. Prófanefnd féllst hins vegar ekki á kæruna að öðru leyti, m.a. að prófdómari bæri ábyrgð á atvikum sem urðu til þess að hann komst ekki á prófstað í tæka tíð.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 9, 13. október 2006

Kært var yfir því að prófdómari hefði tekið sér óeðlilega langan tíma milli prófþátta á söngprófi til að semja umsagnir um frammistöðu próftaka. Prófanefnd taldi ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir vegna framkvæmdar prófsins.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 8, 13. október 2006

Próftaka á miðprófi mistókst ítrekað að ljúka flutningi þriðja viðfangsefnisins í prófinu og var í miklu ójafnvægi í framhaldi af því. Talið var að prófdómari hefði getað gripið til frekari úrræða en gert var til að létta undir með próftaka við flutninginn. Var mælt fyrir um að prófið skyldi endurtekið.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 7, 29. september 2006

Prófanefnd taldi að athugasemd prófdómara um rangan hryn lags, sem nemandi flutti sem valverkefni eftir eyra, væri ekki réttmæt, enda yrði ekki staðhæft um réttan eða rangan flutning verks sem lært hefði verið eftir eyra. Var umsögn vegna valverkefnis felld niður og einkunn vegna prófþáttarins jafnframt hækkuð.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 6, 19. nóvember 2005

Tónlistarskóli mótmælti umsögn og einkunnagjöf prófdómara í sex prófliðum á grunnprófi í saxófónleik m.a. með samanburði við aðrar prófúrlausnir í skólanum sama dag. Í úrskurði Prófanefndar var tekið fram að mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi yrði ekki hnekkt með kæru til nefndarinnar. Hins vegar var tekið til athugunar hvort greinilegt ósamræmi væri milli umsagnar og einkunnagjafar prófdómara og komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 5, 5. nóvember 2005

Valverkefni nemanda á grunnprófi var verk sem hann skyldi hafa lært eftir eyra. Prófdómari taldi að verkið hefði verið leikið eftir nótum í prófinu og því var einkunn fyrir verkefnið felld niður við útgáfu vitnisburðarblaðs. Ekki var fallist á kæru þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við þessa ákvörðun. Þá var ekki fallist á að annmarkar hefðu verið á framkvæmd prófsins eða að misræmi hefði verið milli umsagnar og einkunnar (eininga) fyrir heildarsvip.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 4, 9. júní 2005

Truflun varð í prófi við það að sími prófdómara hringdi og var ekki talið útilokað að atvikið hefði haft truflandi áhrif á frammistöðu nemandans í því verki sem hann var að leika. Því var umsögn vegna þess prófþáttar felld niður og einkunn hækkuð.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 3, 13. apríl 2005

Ekki var fallist á það með kæranda að misræmi væri milli umsagnar og einkunnagjafar prófdómara í þremur tilteknum prófþáttum. Að öðru leyti var talið að kæran varðaði atriði sem ekki sættu kæru til Prófanefndar.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 2, 21. ágúst 2004

Kæra var byggð á því að prófdómari hefði beðið nemandann að leika tónstiga sem ekki hefðu verið í prófbeiðni og að óróleiki vegna þessara mistaka hefði leitt til þess að nemandinn hefði leikið undir getu á prófinu. Í úrskurði Prófanefndar var rakið að gögn prófdómara um þennan prófþátt væru í samræmi við prófbeiðni tónlistarskólans. Því þótti ekki tilefni til að gera athugasemd við framkvæmd prófsins.

Úrskurður í heild
Úrskurður nr. 1, 21. ágúst 2004

Prófanefnd féllst á að ósamræmi væri milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) í fjórum prófþáttum og var einkunn hækkuð um alls 10 einingar.

Úrskurður í heild