A L M E N N T U M Á F A N G A P R Ó F
Úrskurður nr. 24, 13. júní 2019
Hinn 13. júní 2019 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:
I.
Með tölvupóstum 18. desember 2018 og 1. mars 2019 hefur skólastjóri tónlistarskólans T gert athugasemdir við einkunnagjöf á áfangaprófi sem A þreytti hinn 29. nóvember 2018. Prófdómari var P. Af hálfu Prófanefndar tónlistarskóla (hér eftir PT) var upphaflega ekki litið á erindi skólans sem formlega kæru. Eftir viðræður við skólastjóra var ákveðið að taka erindið til meðferðar sem kæru.
Í samræmi við skipulagsskrá PT var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skrifleg greinargerð prófdómara borist nefndinni.
II.
Hinn 9. desember 2020 þreytti A grunnpróf í einsöng við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara og ákvörðun Prófanefndar var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:
Verkefni | Umsögn | Einingar | |
|
|
|
|
Tónverk I | Hressilega leikið, með góðri tilfinningu fyrir stöðugu tempó en inntónun óörugg á stöku stað. | 14 | |
Tónverk II | Leikið af gleði en ekki alveg örugg og góð inntónun á nokkrum stöðum og svolítið óöryggi í lokin. | 15 | |
Tónverk III | Mjög vel leikið, góð sveifla (swing) og tilfinning fyrir stíl. Alveg hreint leikið. | 15 | |
Æfing | Góður púls en tempó hefði jafnvel mátt vera aðeins hægar til að ná betri skerpu í punkteringu. Örlítið óöryggi í inntónun. | 14 | |
Tónstigar og hljómar | Yfirleitt góð kunnátta en inntónun stundum óörugg í skiptingu á handstillingu. | 14 | |
Val (frumsamið verk) | Mjög flott lag með góðum andstæðum á milli laghluta. Glæsileg notkun á boganum og gott vald yfir hröðu köflunum. Afar sannfærandi og glæsilegur flutningur. | 9 | |
Óundirbúinn nótnalestur | Nótur að mestu réttar en nokkrar hrynvillur. | 7 | |
Heildarsvipur | Vel undirbúið próf, jákvæðni og gleði í leiknum en mætti huga að meiri nákvæmni í inntónun, sérstaklega í erfiðari lögunum. Glæsilegt frumsamið lag! Fínn samleikur. | 5 | |
|
|
|
|
Einkunn | Stóðst grunnpróf í fiðluleik | 8,6 | |
|
|
|
|
III.
Í kæru til PT er fundið að einkunn fyrir prófþáttinn „Heildarsvipur“ á grunnprófi A í fiðluleik. Telur skólinn að ekki sé samræmi milli umsagnar prófdómara og einkunnar fyrir þennan prófþátt og jafnframt ekki samræmi í einkunn og upplifun kennara og skólastjóra af gangi prófsins. Að mati kæranda eigi einkunnin að vera einum punkti hærri.
Í kærunni er umsögn prófdómara borin saman við viðmiðanir PT fyrir einkunnagjöf á hljóðfæraprófum og rakið að miðað við gang prófsins telji kærandi að viðmiðanir sem gefi 4 einingar eigi betur við, þar sem prófið hafi greinilega verið vel undirbúið, nemandi verið öruggur í hljóðfæraleiknum, brugðist fljótt og vel við og verið með alla prófþætti tilbúna. Það eina sem á hafi skyggt hafi verið inntónun á erfiðustu stöðunum.
IV.
Í greinargerð P, prófdómara, dags. 29. apríl 2019, kemur fram að hún hafi haft veður af sjónarmiðum sem fram komi í kæru tónlistarskólans T. Af þessu tilefni hafi hún vakið máls á því á fundi PT með prófdómurum, sem nýlega fór fram, hvort það að gefa 3 í heildarsvip feli í sér að nemandanum sé gefin falleinkunn í einhverju atriði, en prófdómarinn kveðst telja að það sé skilningur kennara og skólastjóra tónlistarskólans T. Af hálfu PT hafi komið fram það svar við þessari fyrirspurn á fundinum að slík túlkun væri misskilningur.
Prófdómarinn tekur fram að þessi þrönga túlkun sé að vissu leyti skiljanleg þar sem í viðmiðunarreglum fyrir einkunnagjöf um heildarsvip segi við einkunnina 3 m.a.: „Verðskuldar að standast próf að undanskildu einu eða tveimur atriðum.“
Ef þessi þrönga túlkun eigi að gilda sé fremur lítið svigrúm fyrir prófdómara til að gefa sanngjarna heildareinkunn. Þá séu einungis tveir möguleikar fyrir mestan part nemenda, þ.e. hæsta einkunn (5: framúrskarandi flutningur) og næst hæsta einkunn (4: góður og markvissur flutningur). Innan næst hæstu einkunnar yrði þá að rúmast ágætur flutningur, góður flutningur og meðalgóður flutningur. Prófdómarar þyrftu þá að gefa sömu heildareinkunn fyrir þann sem væri með ágætan flutning en skorti aðeins uppá að vera framúrskarandi og hinn sem væri með góðan eða meðalgóðan flutning. Sé spurning hvort þetta væri sanngjarnt.
Þá segir í greinargerð prófdómarans:
„Í prófdæmingum mínum undanfarið hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi skilning fyrir einkunn í Heildarsvip.
5: Framúrskarandi og sannfærandi flutningur, nánast engir hnökrar og afar vel undirbúið próf. Falleg framkoma.
4: Ágæt kunnátta, falleg spilamennska, sannfærandi flutningur og mjög vel undirbúið próf, en vantar kannski aðeins uppá framúrskarandi. Falleg framkoma.
3: Góð og jafnvel mjög góð kunnátta í sumum atriðum, en einhver atriði í flutningnum draga frá heildarsvip. Samt getur það verið vel undirbúið próf að öllu öðru leyti. En það er af og frá að með þessari einkunn hafi ég verið að hugsa fall í neinu atriði. Aðeins að draga athygli að þætti í spilamennskunni sem mætti betur fara.
Í þessu einstaka tilviki var það meiri nákvæmni í inntónun og sérstaklega í stöðuskiptingum í erfiðari verkefnunum, eins og kemur fram í umsögn bæði við verkin og í umsögn um heildarsvip. Það er ástæðan fyrir því að ég gaf 3 fremur en 4 í heildarsvip.“
Prófdómarinn lætur þess getið að alltaf sé vandaverk að dæma tónlistarflutning, hvort sem um ræði próf eða tónleika. Vel megi vera að einkunn hafi í þessu tilviki verið í strangari kantinum. Einnig kunni skilningur prófdómarans á einkunninni 3 sem meðalgóðri einkunn að vera umdeilanlegur. Í viðmiðunum PT fyrir Heildarsvip segi m.a. um einkunnina 4: „Greinilega vel undirbúið próf.“ Það sé í samræmi við umsögn prófdómara um að prófið hafi verið vel undirbúið. Það sé því engin fyrirstaða af hálfu prófdómara að einkunnin verði færð upp um eina einingu, þ.e. frá 3 í 4, ef PT telji að sú einkunn sé réttari og í meira samræmi við aðra einkunnagjöf prófdómara og orðalag umsagnar.
V.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til PT. Þá geta þessir aðilar kært til PT ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Með úrskurði PT skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.
2.
Af hálfu kæranda er talið að ósamræmi sé milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) varðandi prófþáttinn Heildarsvipur. Í þessu sambandi vísar kærandi aðallega til þess að í heild hafi prófið gengið vel, nemandinn verið vel undirbúinn og verið öruggur í leik sínum. Er það sjónarmið kæranda að próftakinn hafi verðskuldað hærri einkunn (fjórar einingar í stað þriggja) fyrir heildarsvip prófsins þegar litið sé til framgangs prófsins í heild og viðmiðana PT.
Kæra í máli þessu gefur tilefni til að árétta, sem hefur komið fram í fyrri úrskurðum PT, að viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangri á áfangaprófum er mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Þjálfun prófdómara á vegum PT beinist sérstaklega að þessum atriðum. Til að auka áreiðanleika og samræmi í mati á tónlistarflutningi hefur PT samið viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum í hljóðfæraleik og einsöng sem prófdómurum á vegum nefndarinnar er ætlað að nota við mat á frammistöðu nemenda. Þrátt fyrir eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk PT samkvæmt skipulagsskrá ræðst einkunnagjöf hverju sinni af heildstæðu mati prófdómara á frammistöðu próftaka við flutning viðkomandi prófþáttar. Því verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til PT, svo sem tekið er fram í 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT, nema greinilegt ósamræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar.
Samkvæmt framansögðu verður í úrskurði þessum eingöngu tekin afstaða til kröfugerðar kæranda á þeim grundvelli hvort misræmi hafi verið milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar í prófi A um heildarsvip prófsins. Við umfjöllun um hugsanlegt misræmi milli umsagnar og einkunnar verður að gæta að því að í viðmiðunum PT fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans.
3.
Eins og fram kemur í aðalnámskrá tónlistarskóla felst í prófþættinum Heildarsvipur að gefin er sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins. Má út af fyrir sig taka undir það viðhorf kæranda að niðurstaða um þennan lið, sem felur í sér heildarmat á frammistöðu próftaka, hljóti að vera í verulegri samhljóman við umsögn og einkunnagjöf um aðra prófþætti. Allt að einu koma hér til athugunar atriði sem ekki verða fyllilega metin í einkunnagjöf fyrir einstök verkefni á prófi og getur einkunn vegna þessa liðar því verið hlutfallslega hærri eða lægri en fyrir aðra prófþætti.
Í viðmiðunum PT kemur fram að til þess að hljóta einkunnina 4 í heildarsvip þurfi flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:
Til þess að hljóta einkunnina 3 þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:
Í greinargerð prófdómara er rakið að í einkunnagjöf sinni hafi hann stuðst við tiltekinn skilning á viðmiðunum PT fyrir einkunnagjöf um Heildarsvip. Taka má undir skilning prófdómarans í meginatriðum. Sérstaklega skal áréttað að einkunnin 3 þarf ekki að fela í sér að talið sé að próftakinn verðskuldi ekki að standast próf í öllum prófþáttum, þ.e. verðskuldi lægri einkunn en 60% eininga fyrir prófþátt. Þess er þó að geta að með því að aðeins er um fimm möguleika úr að velja (1–5 einingar) í einkunnagjöf fyrir Heildarsvip verður óhjákvæmileg um „grófari“ flokkun að ræða en í einkunnagjöf fyrir aðra prófþætti. Til þess er að líta að í flokk næst fyrir neðan 3 einingar falla próf sem að miklu leyti geta ekki talist viðunandi. Í þessu ljósi er ekki að undra að meginþorri einkunna fyrir Heildarsvip falli í næst efsta flokk (4 einingar).
Í skriflegri umsögn prófdómara vegna prófþáttarins Heildarsvipur á umræddu áfangaprófi er getið bæði jákvæðra atriða og atriða sem að mati prófdómara draga einkunnagjöf niður. Eins og fram kemur hjá kæranda – og prófdómari tekur undir í greinargerð sinni – er umsögn prófdómara um góðan undirbúning prófsins í samræmi við viðmiðanir fyrir einkunnina 4, svo og er þar getið fleiri jákvæðra atriða. Jafnframt er fundið að ónákvæmni í inntónun. Tekið skal fram að prófdómari hefur talið ástæðu til aðfinnslu vegna inntónunar í umsögnum um fjögur af sjö verkefnum prófsins, þar á meðal í þremur af fjórum verkum/æfingu sem flutt voru í prófinu. Er ljóst að þetta hefur ráðið úrslitum um einkunnagjöf varðandi Heildarsvip.
Þegar þetta er virt verður ekki talið að þau atriði sem týna má til því til stuðnings að nemandinn verðskuldi 4 en ekki 3 einingar fyrir prófþáttinn vegi svo þungt í því heildarmati sem jafnan liggur til grundvallar einkunnagjöf um Heildarsvip að staðhæft verði um „greinilegt ósamræmi“ í umsögn og einkunnagjöf prófdómara, sbr. 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT. Samkvæmt því verður ekki talið að tilefni sé til að hagga við einkunnagjöf fyrir greindan prófþátt. Kröfu kæranda þar að lútandi er því hafnað.
Úrskurðarorð:
Áfangapróf A 29. nóvember 2018 stendur óhaggað án athugasemda.