K L A S S Í S K   T Ó N L I S T

Prófþættir í klassískri tónlist

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla eru prófþættir á hljóðfæraprófum skilgreindir fyrir hvert hljóðfæri svo og vægi þeirra. Á áfangaprófi er frammistaða nemanda í sérhverjum prófþætti metin til eininga allt að tilgreindu hámarki. Samanlagður einingafjöldi allra prófþátta á hverju prófi er 100 einingar og er gefið í heilum einingum. Jafnframt fær nemandi umsögn í orðum um hvern prófþátt.

Í flestum greinum leikur nemandi þrjú verk og eina æfingu. Aðrir prófþættir eru tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

   Prófþættir í einstökum greinum
Hljómborðshljóðfæri:
Píanó Semball Orgel Harmonika
 
Málmblásturshljóðfæri:
Trompet Horn Althorn Básúna Barínónhorn Túba
 
Strokhljóðfæri:
Fiðla Víóla Selló Kontrabassi
 
Tréblásturshljóðfæri:
Blokkflauta Þverflauta Óbó Klarínetta Fagott Saxófónn
 
Aðrar greinar:
Ásláttarhljóðfæri Einsöngur Gítar Harpa

Hér á eftir fara stuttar skýringar á sameiginlegum prófþáttum á áfangaprófum:

Tónverk og æfingar

Velja skal verkefni á áfangaprófum með hliðsjón af viðeigandi greinanámskrá. Gæta skal þess að verkefnaval sé fjölbreytt og að nemendur leiki verk frá mismunandi tímabilum.

Hljóðfæranemendur þurfa samkvæmt aðalnámskrá að leika að minnsta kosti eitt tónverk eða æfingu utanbókar en söngnemendur þurfa að flytja alla efnisskrá prófsins utanbókar.

Tónstigar og hljómar

Í greinanámskrám er að finna ákvæði um hvaða tónstiga og hljóma nemendur skulu undirbúa fyrir hvert áfangapróf. Enn fremur eru í greinanámskrám fyrirmæli um tónsvið, hraða og annan leikmáta. Á prófi velur prófdómari hvaða tónstigar og hljómar eru leiknir.

Prófkröfur varðandi leik tónstiga og hljóma eru ekki eins í öllum hljóðfæraflokkum, enda eðli og hefðir hljóðfæranna ólíkar:

 • Í sumum hljóðfæraflokkum er tilgreint í greinanámskrá hvaða tónstiga og hljóma eigi að undirbúa fyrir viðkomandi áfangapróf og þá velur prófdómari úr því efni það sem nemandinn flytur á prófinu. Dæmi um slíkt fyrirkomulag eru áfangapróf á tréblásturshljóðfæri og málmblásturshljóðfæri.
 • Í öðrum hljóðfæraflokkum skulu kennari og nemandi velja fyrir prófið tiltekna tónstiga og hljóma í samræmi við ákvæði viðkomandi greinanámskrár. Í þeim tilvikum eru valdir tónstigar skráðir á prófblað nemandans og prófdómari velur einungis úr því efni það sem nemandinn flytur á prófinu. Dæmi um þetta fyrirkomulag eru áfangapróf á strokhljóðfæri og hljómborðshljóðfæri.

Útdrættir úr hljómsveitarverkum

Geri greinanámskrá ráð fyrir að nemendur þjálfist í leik útdrátta úr hljómsveitarverkum skal prófa sérstaklega í þeim námsþætti á framhaldsprófi. Um er að ræða útdrætti úr hljómsveitarverkum þar sem viðkomandi hljóðfæri gegnir veigamiklu hlutverki. Undirbúa skal a.m.k. staði úr þremur tónverkum. Prófdómari velur hvað leikið er á prófinu.

Val - grunnpróf

Á grunnprófi er nemanda gefinn kostur á að velja eitt eftirtalinna viðfangsefna:

 • Nemandi spinni út frá gefnu upphafi, einföldu hljómferli eða lagi. Nemandi getur valið hvort hann spinnur með eða án undirleiks og er miðað við að hann hafi haft tækifæri til að undirbúa þennan prófþátt.
 • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk, að því tilskildu að höfundur gegni þar lykilhlutverki.
 • Nemandi hljómsetji stutta laglínu. Þetta á við um þá nemendur sem geta leikið hljóma á hljóðfæri sín.
 • Nemandi leiki stutt alþýðulag eða þjóðlag sem hann hefur lært eftir eyra. Miðað er við að tónsvið lagsins sé í samræmi við getu nemanda og námsstig og að lagið sé flutt einradda, með eða án undirleiks. Söngnemendum er þó skylt að flytja lagið án undirleiks.

Val - miðpróf

Á miðprófi er nemanda gefinn kostur á að velja eitt eftirtalinna viðfangsefna:

 • Nemandi leiki tónverk að eigin vali. Tónverkið skal vera af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. Þessi valþáttur er þannig sambærilegur einstökum liðum í prófþætti 1 og gefur möguleika á að nemandi sýni enn aukna stílræna breidd í tónlistarflutningi.
 • Nemandi spinni út frá gefnu upphafi, einföldu hljómferli eða lagi. Nemandi getur valið hvort hann spinnur með eða án undirleiks og er miðað við að hann hafi haft tækifæri til að undirbúa þennan prófþátt.
 • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk, að því tilskildu að höfundur gegni þar lykilhlutverki.
 • Nemandi hljómsetji stutta laglínu. Þetta á við um þá nemendur sem geta leikið hljóma á hljóðfæri sín.

Val - framhaldspróf

Á framhaldsprófi er nemanda gefinn kostur á að velja á eitt eftirtalinna viðfangsefna:

 • Nemandi leiki tónverk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni. Þessi valþáttur gefur möguleika á að nemandi sýni enn aukna stílræna breidd í tónlistarflutningi.
 • Nemandi leiki samleiksverk þar sem próftaki gegnir lykilhlutverki. Miðað er við að samleiksverkið sé af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni.
 • Nemandi leiki tónverk á annað hljóðfæri úr sömu hljóðfærafjölskyldu og aðalhljóðfæri ef kostur er gefinn á slíku í viðeigandi greinanámskrá.

Óundirbúinn nótnalestur

Á áfangaprófi fær nemandi eina mínútu til að líta yfir lestrardæmið í hljóði og skal síðan flytja verkefnið einu sinni. Geri greinanámskrá viðkomandi hljóðfæris ráð fyrir tónflutningi á viðkomandi áfangaprófi skal hann prófaður undir þessum lið og gildir þá helming af vægi prófþáttarins (5 einingar af 10). Ef tónflutningur er prófaður fær nemandi sérstakt tónflutningsdæmi sem leika skal einu sinni eftir einnar mínútu undirbúningstíma í hljóði. Prófverkefni í óundirbúnum nótnalestri skulu vera stutt og í samræmi við markmið í viðeigandi greinanámskrám.

Heildarsvipur

Á áfangaprófum er gefin sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins.