A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Skipulagning áfangaprófa

Í aðalnámskrá tónlistarskóla (útg. 2000) segir að við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms skuli nemendur þreyta áfangapróf, annars vegar í hljóðfæraleik og hins vegar í tónfræðagreinum. Ekki er nauðsynlegt að nemendur ljúki báðum hlutum áfangaprófs á sama ári, en nemandi getur ekki þreytt miðpróf fyrr en grunnprófi er að fullu lokið. Sömuleiðis þarf að ljúka báðum hlutum miðprófs áður en framhaldspróf er tekið. Til að ljúka framhaldsprófi þarf nemandi að halda sjálfstæða tónleika innan eða utan skólans, auk þess að standast próf í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum.

Prófanefnd tónlistarskóla skipuleggur áfangapróf í hljóðfæraleik í samvinnu við viðkomandi tónlistarskóla. Próf geta farið fram hvenær skólaárs sem er að því tilskildu að hæfur prófdómari fáist til starfa. Leitast er við að verða við beiðnum skóla um prófdaga, eftir því sem frekast er kostur, en þar sem lögð er áhersla á það við skipulagningu áfangaprófa að nýta starfskrafta prófdómara sem best, verður stundum að tengja saman próf í fleiri en einum skóla ef um mjög fá próf er að ræða. Þó er miðað við að nemendur þreyti áfangapróf í sínum skólum nema samkomulag verði um annað.

Tilgangur áfangaprófa

Tilgangur áfangaprófa er fjölþættur. Prófunum er ætlað að skera úr um hvort og að hve miklu leyti nemendur uppfylla ákveðnar samræmdar kröfur um hæfni. Þeim er einnig ætlað að afla upplýsinga um nám og kennslu á vissum sviðum innan tónlistarskóla, meta frammistöðu nemenda í samræmi við markmið og kröfur aðalnámskrár og gera nemendum grein fyrir eigin frammistöðu í hverjum prófþætti. Enn fremur eru prófin lokapróf úr viðkomandi áfanga innan tónlistarskólans.

Sérstaklega um framhaldspróf

Til að ljúka framhaldsprófi tónlistarskóla þurfa nemendur að standast próf í hljóðfæraleik og tónfræðagreinum samkvæmt námskrám, jafnframt því að ljúka tónleikaþætti framhaldsprófsins.

Að loknu framhaldsprófi í hljóðfæraleik skal nemandi leika 30-60 mínútna langa efnisskrá á tónleikum innan eða utan skólans. Fyrir frammistöðu á tónleikunum er gefin umsögn en ekki einkunn. Ekki er nauðsynlegt að halda tónleikana á sama skólaári og hljóðfæraprófið fer fram. Séu prófið og tónleikarnir haldnir á sama skólaári er heimilt að nota alla efnisskrá prófsins á tónleikunum. Fari tónleikar fram síðar skal a.m.k. helmingur efnisskrárinnar endurnýjaður. Gæta þarf þess að efnisskrá sé fjölþætt og vel saman sett.

Prófanefnd leitast við að láta sama prófdómara meta hljóðfæraprófið og tónleikana.