U M P T
1. gr.
Prófanefnd tónlistarskóla er sett á fót að frumkvæði Samtaka tónlistarskólastjóra, Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna að höfðu samráði við menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Tónlistarskólar eða rekstraraðilar tónlistarskóla, sem hafa samþykkt skipulagsskrá þessa og greitt stofnframlag, sbr. 7. gr., teljast eiga aðild að Prófanefnd tónlistarskóla.
Heimili og varnarþing Prófanefndar tónlistarskóla er í Reykjavík.
2. gr.
Prófanefnd tónlistarskóla er ætlað að tryggja samræmt og hlutlaust mat á frammistöðu nemenda á áfangaprófum í tónlistarskólum, sbr. markmið aðalnámskrár tónlistarskóla. Í því skyni skal Prófanefnd tónlistarskóla m.a. vinna að eftirtöldum verkefnum:
3. gr.
Með aðild að Prófanefnd tónlistarskóla fela tónlistarskólar nefndinni að annast þau verkefni sem getur í 2. gr. vegna allra nemenda sinna sem þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og miðpróf í tónfræðum. Prófanefnd tónlistarskóla getur að beiðni tónlistarskóla tekið að sér hliðstæð verkefni og þar greinir vegna annarra prófa.
4. gr.
Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að almennum starfstíma tónlistarskóla lýkur hvert ár, skal Prófanefnd tónlistarskóla gefa út yfirlit um heildarniðurstöður áfangaprófa, sem metin hafa verið á vegum nefndarinnar, og leggja fyrir viðkomandi tónlistarskóla. Þar skal koma fram fjöldi og hlutfall nemenda sem þreyta áfangapróf í hverjum skóla, meðaltöl einstakra skóla og á landsvísu og fjöldi nemenda með hverja einkunn. Jafnframt skal senda hverjum skóla þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við túlkun á einkunnum nemenda. Láta má öðrum aðilum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa ef þeir óska þess, en ætíð skal gæta trúnaðar gagnvart einstökum nemendum.
Enn fremur skal Prófanefnd tónlistarskóla afla upplýsinga um fjölda nemenda í tónlistarskólum og önnur atriði sem þýðingu hafa fyrir starfsemi hennar.
5. gr.
Starfssamningar við prófdómara, sem starfa á vegum Prófanefndar tónlistarskóla, skulu gerðir til þriggja ára í senn. Prófdómurum er skylt að viðhalda kunnáttu sinni eftir föngum m.a. með því að sækja námskeið sem nefndin stendur fyrir. Þeir skulu jafnframt skuldbinda sig til þess að sinna ekki sambærilegu starfi á vegum annarra aðila þann tíma sem þeir eru í starfi fyrir nefndina.
Heimilt er Prófanefnd tónlistarskóla að ákveða að prófanefndarmaður, framkvæmdastjóri nefndarinnar eða annar fulltrúi hennar sé viðstaddur próf, m.a. í því skyni að meta hæfni prófdómara.
6. gr.
Nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, getur kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Kæra skal vera skrifleg og er kærufrestur 14 dagar frá því að nemanda var tilkynnt um ákvörðun prófdómara eða niðurstöðu prófs. Prófanefnd tónlistarskóla skal gefa viðkomandi prófdómara kost á að leggja fram umsögn um kæruna og veita honum hæfilegan frest til þess. Við úrlausn kærumála er Prófanefnd heimilt að kalla sérfróða aðila til ráðgjafar og aðstoðar. Úrskurður nefndarinnar skal kveðinn upp innan tveggja mánaða frá því að kæran barst henni.
Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds skv. 9. gr.
Úrskurður Prófanefndar tónlistarskóla er endanlegur.
7. gr.
Tónlistarskólar (rekstraraðilar tónlistarskóla), sem aðild vilja eiga að Prófanefnd tónlistarskóla, skulu greiða óafturkræft stofnframlag til hennar. Stofnframlag skal vera 15.000 kr. vegna tónlistarskóla með færri en 200 nemendur en 30.000 kr. vegna skóla með 200 nemendur eða fleiri. Stofnframlög skulu lögð í stofnsjóð.
8. gr.
Tónlistarskólar, sem aðild eiga að Prófanefnd tónlistarskóla, skulu árlega greiða til hennar rekstrarframlag (árstillag) sem miðist við fjölda nemenda í reglulegu námi við skólana samkvæmt nemendaskrá 1. október, þó ekki í forskóla. Fjárhæð árstillags skal ákveðin á fundi fulltrúaráðs, sbr. 11. gr., og er gjalddagi þess 15. nóvember ár hvert.
9. gr.
Til viðbótar árstillagi skv. 8. gr. skulu tónlistarskólar greiða Prófanefnd tónlistarskóla ákveðna fjárhæð (prófgjald) vegna hvers nemanda sem gengur til prófs sem metið er á vegum nefndarinnar. Fjárhæð prófgjalds skal taka mið af áætluðum kostnaði nefndarinnar vegna launa prófdómara og ferðakostnaðar þeirra. Þó er heimilt að taka tillit til hagnaðar eða taps sem kann að hafa orðið af þessum þætti í starfsemi nefndarinnar á fyrra ári eða árum. Prófgjald, sem skal vera jafnhá fjárhæð vegna allra tónlistarskóla, skal ákveðið af Prófanefnd tónlistarskóla og tilkynnt tónlistarskólum fyrir upphaf hvers skólaárs.
10. gr.
Prófanefnd tónlistarskóla er skipuð fimm mönnum og þremur varamönnum. Fulltrúaráð, sbr. 11. gr., kýs nefndarmenn til þriggja ára í senn, þannig að þriðja hvert ár er kosinn einn nefndarmaður auk varamanns, en önnur ár tveir nefndarmenn og einn varamaður hverju sinni. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabilinu skal varamaður, sá sem kjörinn var samhliða honum en ella elsti varamaður, taka hans stað fram að fulltrúaráðsfundi þegar kjörtímabili lýkur.
Prófanefnd tónlistarskóla kýs formann og varaformann úr sínum hópi.
Einfaldur meirihluti ræður ákvörðunum Prófanefndar tónlistarskóla.
11. gr.
Í fulltrúaráði Prófanefndar tónlistarskóla eiga sæti fulltrúar tónlistarskóla, sem aðild eiga að nefndinni, einn frá hverjum skóla. Þá eiga aðalmenn og varamenn í Prófanefnd sæti í fulltrúaráði.
Á fundi fulltrúaráðs, sem haldinn skal fyrir 1. nóvember ár hvert, skal Prófanefnd tónlistarskóla kynna endurskoðaðan ársreikning og leggja fram til afgreiðslu skýrslu um starfsemi nefndarinnar á liðnu starfsári. Prófanefnd tónlistarskóla skal gera tillögu til fulltrúaráðs um árstillag skv. 8. gr. Fulltrúaráð ákveður þóknun nefndarmanna í Prófanefnd.
Boða skal til fundar fulltrúaráðs með a.m.k. 14 daga fyrirvara með bréfi til tónlistarskóla (rekstraraðila tónlistarskóla) og annarra viðkomandi aðila.
12. gr.
Prófanefnd tónlistarskóla er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast dagleg verkefni samkvæmt skipulagsskrá þessari og rekstur nefndarinnar í umboði hennar.
Um störf framkvæmdastjóra fer samkvæmt erindisbréfi sem Prófanefnd setur honum.
13. gr.
Prófanefnd tónlistarskóla getur að fengnu samþykki fulltrúaráðs samið við annan aðila um að annast að öllu leyti eða að hluta framkvæmd þeirra verkefna Prófanefndar sem getið er í 2.-5. gr.
14. gr.
Reikningsár Prófanefndar tónlistarskóla er frá 1. ágúst til 31. júlí. Prófanefnd skal sjá til þess að gerður sé reikningur yfir rekstur og efnahag hennar. Skal reikningurinn endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda sem fulltrúaráð velur til starfsins.
15. gr.
Fulltrúaráð getur að tillögu Prófanefndar tónlistarskóla breytt skipulagsskrá þessari og þarf til þess einfaldan meirihluta atkvæða, enda hafi tillögur um breytingar áður verið kynntar með fundarboði.
Fulltrúaráð getur með sömu skilyrðum ákveðið að leggja Prófanefnd tónlistarskóla niður. Skilanefnd, sem til þess skal kosin á fundi fulltrúaráðs, skal ákveða hvernig að niðurlagningu verður staðið.
Ákvæði til bráðabirgða:
Eftir breytingu á 10. gr. skal fulltrúaráð kjósa einn stjórnarmann til eins árs, tvo til tveggja ára og tvo til þriggja ára, svo og varamenn í samræmi við það, sbr. ákvæði breyttrar 10. gr.
Skipulagsskrá var upphaflega samþykkt á stofnfundi miðvikudaginn 27. febrúar 2002. Breytingar voru gerðar á fundi fulltrúaráðs 13. janúar 2017.