K L A S S Í S K   T Ó N L I S T

Framkvæmd áfangaprófs í klassískri tónlist

Prófdómari stjórnar áfangaprófi, en nemandi ræður þó röð prófþátta.

Kennari próftaka má vera viðstaddur áfangapróf. Einnig er skólastjórnanda heimilt að vera við áfangapróf. Meðleikara er einungis heimilt að vera viðstaddur þá prófhluta sem hann tekur þátt í. Öðrum er óheimilt að vera viðstaddir áfangapróf að því undanskildu að Prófanefnd er heimilt að ákveða að prófanefndarmaður eða annar fulltrúi nefndarinnar sé viðstaddur próf, m.a. í því skyni að meta hæfni prófdómara.

Á grunnprófi er kennurum heimilt að aðstoða nemendur við stillingar hljóðfæra, en á mið- og framhaldsprófi er ætlast til að nemendur stilli hljóðfæri sín sjálfir. Ekki er gert ráð fyrir að kennari eða skólastjórnandi taki þátt í prófi að öðru leyti en sem þögull áheyrandi. Þó er kennara eða skólastjórnanda heimilt að vera meðleikari eða að fletta nótum fyrir meðleikara.

Telji prófdómari að starfsmaður skóla hafi á einhvern hátt truflandi áhrif á próf er prófdómara heimilt að vísa honum af prófstað.

Prófdómari hlustar á prófverkefni til enda, en þó er ekki gert ráð fyrir að prófdómari hlusti á alla tónstiga og hljóma sem undirbúnir hafa verið fyrir prófið. Prófdómari velur hvaða tónstigar og hljómar eru leiknir á prófinu. Á áfangaprófum í einsöng stjórnar prófdómari flutningi söngæfinga sem undirbúnar hafa verið fyrir prófið og velur hvað flutt er.

Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar.

Miðað er við að nemandi hafi í öllum tilvikum undirbúið valþátt prófsins og er því ekki gert ráð fyrir að prófað verði í óundirbúinni hljómsetningu.

Próf í óundirbúnum nótnalestri eru eign Prófanefndar tónlistarskóla. Prófdómurum er ekki heimilt að ljósrita þessi próf, veita kennurum eða nemendum aðgang að þeim eða nota þau í öðrum tilgangi en Prófanefnd hefur skilgreint.

Prófdómara er óheimilt að ræða niðurstöður einstakra prófa við kennara, skólastjóra, próftaka eða aðstandendur þeirra og ber forráðamönnum skólans að gæta þess að slíkar aðstæður komi ekki upp.

Ef aðstæður til prófs hafa verið óviðunandi að mati prófdómara skal hann senda Prófanefnd skriflegar athugasemdir þess efnis.