T Ó N F R Æ Ð A P R Ó F

Munnlegur hluti miðprófs

Munnlegur hluti miðprófs í tónfræðagreinum er 20% prófsins alls. Aðrir hlutar eru skriflegt próf (60%) og valverkefni (20%). Öllum hlutum prófsins skal lokið á sama skólaári.

Prófþættir á munnlegu prófi eru þessir (alls 20 einingar):
    1. Hryndæmi endurtekið eftir heyrn (5 einingar)
    2. Hryndæmi lesið af blaði (5 einingar)
    3. Laglína endurtekin eftir heyrn (5 einingar)
    4. Laglína lesin af blaði (5 einingar)

   Sýnispróf - munnleg tónheyrn

Framkvæmd

Framkvæmd og fyrirgjöf munnlega prófsins er á hendi hvers tónlistarskóla. Skólastjórar í einstökum skólum bera ábyrgð á að framkvæmd og fyrirgjöf munnlegra prófþátta sé í samræmi við leiðbeiningar og fyrirmæli Prófanefndar.

Prófdómari, sem ekki er tónfræðakennari nemandans, stjórnar framkvæmd prófsins. Sjálfsagt er þó að kennarinn sé viðstaddur og er honum heimilt að leika þau dæmi sem nemandinn á að herma, að öðrum kosti leikur prófdómari dæmin. Ekki skulu aðrir vera viðstaddir prófið.

Miða skal við að próftími á munnlegu prófi fari ekki fram yfir 10 mínútur á hvern nemanda. Ekki er nauðsynlegt að prófþættirnir séu prófaðir í ofangreindri röð.

Í hverjum prófþætti dregur nemandi um það verkefni sem hann á að leysa af tveimur til fjórum mögulegum. Nemandi skal fá stutta stund (u.þ.b. 30 sekúndur) til þess að líta yfir dæmi sem honum er ætlað að flytja af blaði. Tóndæmin sem nemandanum er ætlað að herma skulu leikin þrisvar á meðalhraða.

Flutningur nemanda er frjáls, t.d. hvað varðar hraða, hvort púlsinn er sleginn, hvort notuð eru hrynatkvæði, söngheiti eða nótnanöfn.

Mat á frammistöðu

Hámarkseiningarfjöldi á munnlega prófinu er 20 einingar og gefur því hver prófþáttur að hámarki 5 einingar.

Eftirfarandi skal hafa til hliðsjónar þegar frammistaða nemanda er metin:

Frammistaða: Einingar:
  • Dæmi er flutt hiklaust og án hnökra
5
  • Dæmi er flutt hiklaust og að mestu rétt 
4
  • Hikandi flutningur, þó yfirleitt réttar nótur og hrynur
3
  • Mikið um rangar nótur og hryn
2
  • Mjög mikið um rangar nótur og hryn
1
  • Nemandi reynir ekki við dæmið
0

Niðurstöðum munnlega prófsins, ásamt mati á valverkefni, skal skilað rafrænt á eyðublaði sem Prófanefnd sendir tónlistarskólunum.