K L A S S Í S K   T Ó N L I S T

Undirbúningur áfangaprófs í klassískri tónlist

Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og eiga því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf. Kennari skal gæta þess við undirbúning prófsins að þyngd, fjöldi, inntak og umfang viðfangsefna sé í samræmi við kröfur námskrár. Ef kennari er í vafa um hvort prófverkefni sé í samræmi við kröfur námskrár, getur hann óskað eftir mati Prófanefndar á viðfangsefninu. Skal slíkt gert eigi síðar en fjórum vikum fyrir áætlaðan prófdag.

Próftími

Við val prófverkefna þurfa kennarar að hafa í huga að próftími verði ekki lengri en kveðið er á um í aðalnámskrá:

 • Heildarpróftími á grunnprófi í hljóðfæraleik eða einsöng skal ekki fara fram úr 30 mínútum.
 • Heildarpróftími á miðprófi í hljóðfæraleik eða einsöng skal ekki fara fram úr 45 mínútum.
 • Heildartími á framhaldsprófi í hljóðfæraleik eða einsöng skal ekki fara fram úr 60 mínútum.

Aðstaða við próftöku

Mikilvægt er að nemendum sem ganga til prófs sé búin góð aðstaða við próftöku og að skipulag á prófstað sé gott þannig að unnt sé að fylgja tímaáætlun. Því þarf tónlistarskóli m.a. að gæta að eftirfarandi atriðum:

 • Prófstofa sé rúmgóð, björt, hlý, vel loftræst og að hljóð berist ekki frá öðrum stofum.
 • Píanó sem nota á fyrir nemendur eða meðleikara sé sæmilega stillt og jafnt að áslætti.
 • Allur nauðsynlegur búnaður sé fyrir hendi, s.s. píanóstóll, nótnapúlt og fótskemill.
 • Hæð nótnapúlta og píanóstóls sé við hæfi nemenda.
 • Prófdómari sé þannig staðsettur að hann geti auðveldlega stjórnað prófinu og fylgst með próftaka.
 • Prófdómari sitji einn við borð og að borð og stóll prófdómara sé ætlað fullorðnum.
 • Prófdómara séu látin í té eintök af verkum og æfingum próftaka og verði þess sérstaklega gætt að prófdómari fái í hendur sömu útgáfu prófverkefnanna og próftaki notaði við prófundirbúninginn.
 • Nemendur séu mættir fyrir áætlaðan próftíma.
 • Nemendur fái viðunandi aðstöðu til að taka upp hljóðfæri og til upphitunar.
 • Nemendur séu tilbúnir til að spila þegar þeir koma inn í prófstofu.
 • Nemendur hafi aðgang að drykkjarvatni meðan á prófi stendur, óski þeir þess.
 • Prófdómari fái sérstaka aðstöðu til undirbúnings og frágangs, óski hann þess.

Prófdómara er óheimilt að ræða niðurstöður einstakra prófa við kennara, skólastjóra, nemendur eða aðstandendur þeirra. Æskilegt er að kennari geri nemendum og aðstandendum þetta ljóst áður en próf fer fram. Rétt er einnig að taka fram að hlutverk prófdómara er einungis að meta frammistöðu nemenda á áfangaprófum, hvorki að leiðbeina kennurum né nemendum.