R Y T M Í S K   T Ó N L I S T

Prófþættir í rytmískri tónlist

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla (námskrá í rytmískri tónlist) eru prófþættir á hljóðfæraprófum skilgreindir fyrir hvert hljóðfæri svo og vægi þeirra. Á áfangaprófi er frammistaða nemanda í sérhverjum prófþætti metin til eininga allt að tilgreindu hámarki. Samanlagður einingafjöldi allra prófþátta á hverju prófi er 100 einingar og er gefið í heilum einingum. Jafnframt fær nemandi umsögn í orðum um hvern prófþátt.

Í flestum greinum leikur nemandi tvö ólík aðallög, lag af safnlista og eina æfingu. Aðrir prófþættir eru upprit (ekki á grunnprófi), tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Hér á eftir fara stuttar skýringar á sameiginlegum prófþáttum á áfangaprófum:

Verk og safnlistar

Velja skal verkefni á áfangaprófum með hliðsjón af markmiðum og dæmum í viðeigandi hluta þessarar námskrár. Gæta skal þess að verkefnaval sé fjölbreytt og að nemendur leiki verk sem sýna ólík stílbrigði og tempó. Sérstaklega ætti að gæta þess að aðallögin tvö sýni ólíkar hliðar á leik nemandans.

Mikilvægt er að safnlistar innihaldi fjölbreytt úrval stílbrigða og tempóa. Miðað er við að sá lagafjöldi, sem bætist við frá einum námsáfanga til annars, sé af þyngdarstigi hins nýja áfanga. Heimilt er að nota bæði aðallög og safnlistalög frá fyrri prófum á safnlista síðari prófa. Ekkert er þó því til fyrirstöðu að allur safnlistinn sé endurnýjaður á milli prófa. Miða skal við að flutningur aðallaga sé vandaðri og betur undirbúinn en flutningur safnlistalaga. Hlutverk safnlistans er að stuðla að efnisskráruppbyggingu og verður fjöldi laganna umtalsverður þegar líður á námsferilinn. Því eru gerðar ögn vægari kröfur um flutning safnlistalaga en aðallaga á áfangaprófum.

Sé notast er við hljóðritaðan undirleik á prófum er nauðsynlegt að nemandi heyri vel í upptökunni sem hann leikur með. Sömuleiðis er mikilvægt að prófdómari heyri vel og í jöfnum hlutföllum í nemanda og hljóðriti. Mikilvægt er að á prófstað sé hugað vel að þessum atriðum áður en próf hefst.

Á áfangaprófum í trommuleik kemur taktbirgðalisti í stað safnlista.

Upprit

Upprit eru flutt á miðprófi og framhaldsprófi. Þau eru flutt utanbókar með hljóðritun af upprunalegum einleikara. Á miðprófi geta nemendur valið að flytja eigið upprit eða útgefið. Í báðum tilfellum skal flutningurinn þó vera utanbókar en uppritinu skilað til prófdómara. Á framhaldsprófi er miðað við að nemendur flytji upprit sem þeir hafa unnið sjálfir, lært utan að og skrifað niður. Þegar um eigið upprit nemanda er að ræða skal skila snyrtilega frágengnu uppriti með nótum og hljómatáknum til prófdómara í prófinu.

Í ljósi þess að einleikskaflar á bassa og trommur eru oft styttri en einleikskaflar annarra hljóðfæra getur verið heppilegt að bassa- og trommunemendur riti upp og flytji hluta undirleiks á undan eða eftir einleikskafla. Í slíkum tilfellum er gert ráð fyrir að undirleikur og einleikskafli sé fluttur sem ein heild. Mikilvægt undirleiks- og samleikshlutverk þessara hljóðfæra styður val verkefna af þessari gerð.

Við flutning upprita á áfangaprófum er nauðsynlegt að huga að styrkjafnvægi, sjá nánari umfjöllun um verk hér að framan.

Æfingar

Á áfangaprófum geta nemendur í rytmísku tónlistarnámi leikið klassíska etýðu eða sambærilega æfingu af rytmískum toga. Í báðum tilfellum þarf að gæta þess að um sé að ræða verk sem skrifað er sem æfing, meðal annars með styrkbreytingum, leiðbeinandi orðum eða táknum. Við val æfingar skal hafa til hliðsjónar dæmi um æfingar úr viðeigandi hluta þessarar námskrár eða sambærilegri klassískri greinanámskrá.

Á áfangaprófum í söng koma raddæfingar í stað æfingar.

Tónstigar og hljómar

Í greinanámskrám er að finna ákvæði um hvaða tónstiga og hljóma nemendur skulu undirbúa fyrir hvert áfangapróf. Enn fremur eru í greinanámskrám fyrirmæli um tónsvið, hraða og annan leikmáta. Á prófi velur prófdómari hvaða tónstigar og hljómar eru leiknir.

Rétt eins og í öðrum verkefnum er mikilvægt að flutningur sé vandaður. Tónstiga og hljóma skal leika jafnt, hiklaust og utanbókar. Mikilvægt að svörun sé greið og hraði í samræmi við kröfur námskrár.

Á áfangaprófum í trommuleik koma undirstöðuæfingar, handsetningaræfingar og samhæfingaræfingar í stað tónstiga og hljóma.

Val - grunnpróf

Á grunnprófi er nemanda gefinn kostur á að velja annað eftirtalinna viðfangsefna:

  • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk að því tilskildu að höfundur leiki á sitt aðalhljóðfæri og gegni lykilhlutverki.
  • Nemandi leiki verk samkvæmt klassískri námskrá af sambærilegri þyngd og prófverkefni á klassísku grunnprófi.

Val - miðpróf

Á miðprófi er nemanda gefinn kostur á að velja eitt eftirtalinna viðfangsefna:

  • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk að því tilskildu að höfundur leiki á sitt aðalhljóðfæri og gegni lykilhlutverki.
  • Nemandi leiki verk að eigin vali. Verkið skal vera af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. Þessi valþáttur er þannig sambærilegur einstökum liðum í prófþætti 1a) og gefur meðal annars möguleika á að nemandi sýni enn aukna stílræna breidd í tónlistarflutningi.
  • Nemandi leiki verk samkvæmt klassískri námskrá af sambærilegri þyngd og prófverkefni á klassísku miðprófi.

Val - framhaldspróf

Á framhaldsprófi er nemanda gefinn kostur á að velja eitt eftirtalinna viðfangsefna:

  • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk að því tilskildu að höfundur leiki á sitt aðalhljóðfæri og gegni lykilhlutverki.
  • Nemandi leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni. Þessi valþáttur gefur meðal annars möguleika á að nemandi sýni enn aukna stílræna breidd í tónlistarflutningi.
  • Nemandi leiki verk á annað hljóðfæri úr sömu hljóðfærafjölskyldu og aðalhljóðfæri. Hér er til dæmis átt við að tenórsaxófónleikari leiki verk á sópransaxófón, trompetleikari á flygilhorn eða rafgítarleikari leiki á annars konar gítar. Ekki er gert ráð fyrir að leikið sé á fjarskyldari hljóðfæri, svo sem að saxófónleikari leiki á flautu eða gítarleikari á bassa.

Óundirbúinn nótnalestur

Prófkröfur í óundirbúnum nótnalestri í rytmískri tónlist eru breytilegar eftir hljóðfærum og námsstigum. Almennt er óundirbúinn nótnalestur á áfangaprófum tvískiptur. Annars vegar er um að ræða hefðbundinn nótnalestur og hins vegar hljómalestur til spuna og undirleiks. Nemendur á laglínuhljóðfæri og í söng spinna yfir hljómana en nemendur á hljómahljóðfæri og bassa flytja bæði undirleik og spuna yfir hljómana. Prófdómari leikur hljómana með nemandanum eða notar hljóðritun. Ef um söngvara er að ræða er hljómagangurinn leikinn einu sinni áður en spuni hefst.

Á framhaldsprófi þurfa nemendur sem leika á tónflutningshljóðfæri (t.d. trompet og saxófón), auk ofanritaðs, að tónflytja nótur sem ritaðar eru fyrir C-hljóðfæri.

Hjá trommunemendum er annars vegar um að ræða hefðbundinn lestur á sneriltrommu og hins vegar útsetningalestur á trommusett. Með útsetningalestri er átt við lestrardæmi sem skrifað er á sambærilegan hátt og trommurödd, t.d. í stórsveitarútsetningu. Ákveðinn stíll eða taktbrigði er lagt til grundvallar og má nemandinn leika það frjálslega. Hann fylgist með skráðu formi en leikur þau hrynmynstur og áherslur sem skrifaðar eru á stöku stað.

Á áfangaprófi fær nemandi eina mínútu til að líta yfir nótnalestrardæmið í hljóði og skal síðan flytja verkefnið einu sinni. Nemandi fær eina mínútu til að líta í hljóði yfir verkefni í óundirbúnum hljómalestri. Að þeim tíma liðnum skuku nemendur á laglínuhljóðfæri spinna tvisvar yfir dæmið. Söngnemendur hlusta á dæmið einu sinni og spinna svo tvisvar yfir það. Nemendur á hljómahljóðfæri og bassa leika undirleik tvisvar og spinna tvisvar yfir dæmið.

Þegar um tvö verkefni er að ræða gildir hvort þeirra helming af vægi prófþáttarins (5 einingar af 10). Sé tónflutningur auk þess prófaður gildir hver liður 1/3 að vægi prófþáttarins. Prófverkefni í óundirbúnum nótnalestri og hljómalestri skulu vera stutt og í samræmi við markmið í þessari námskrá. Prófverkefni í óundirbúnum tónflutningi skulu vera stutt og léttari en almenn óundirbúin nótnalestrar- og hljómalestrardæmi á framhaldsprófi.

Heildarsvipur

Á áfangaprófum í rytmískri tónlist er gefin sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins. Á miðprófi og enn frekar á framhaldsprófi hefur val meðleikara, geta þeirra og frammistaða, útsetningar, samsetning og framsetning efnisskrár einnig áhrif á einkunn fyrir heildarsvip. Þannig er meðal annars tekið mið af samsetningu safnlista, einkum hvað varðar fjölbreytni og metnað.