R Y T M Í S K   T Ó N L I S T

Prófþættir í rytmískri tónlist

Rafbassi

Grunnpróf

Á grunnprófi í rafbassaleik skal nemandi leika tvö aðallög. Auk þess skal hann leggja fram lista með fjórum lögum og velur prófdómari eitt þeirra til flutnings. Alls eru því undirbúin sex lög og skulu þau öll vera í samræmi við kröfur námskrár. Aðrir prófþættir eru tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Aðallög og safnlistalög skulu flutt með undirleik. Á grunnprófi er heimilt að notast við undirleik kennara eða hljóðritaðan undirleik.

Á grunnprófi skulu bassanemendur að lágmarki flytja laglínu í öðru tveggja aðallaga og helmingi safnlistalaga. Ekki er nauðsynlegt að rafbassanemendur flytji laglínur í öðrum lögum. Tilgreina skal í prófgögnum í hvaða lögum próftaki flytur laglínu.

Miða skal við að heildartími á grunnprófi á rafbassa fari ekki fram yfir 30 mínútur. Á prófinu skal nemandi flytja öll lög samkvæmt prófþætti 1 utanbókar. Sama á við um tónstiga og hljóma samkvæmt prófþætti 3. Annað prófefni má leika eftir nótum.

Prófþættir eru þessir:

  • Verk (45 einingar alls) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
    1. Tvö ólík aðallög (15 einingar hvort).
    2. Eitt lag af fjögurra laga safnlista - valið af prófdómara (15 einingar).
  • Æfing (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Tónstigar og hljómar (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Val (10 einingar). Nemandi velji annað eftirtalinna viðfangsefna:
    1. Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu.
    2. Leiki verk samkvæmt klassískri námskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.
  • Óundirbúinn nótnalestur (10 einingar).
    1. Hefðbundinn nótnalestur (5 einingar).
    2. Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá (5 einingar).
  • Heildarsvipur (5 einingar).
   Dæmi um prófverkefni á grunnprófi

Í námskrá eru gefin eftirfarandi dæmi um prófverkefni á grunnprófi. Dæmunum er ætlað að skilgreina þyngdarstig prófsins. Fullt eins má velja önnur verkefni af sambærilegri þyngd.

Dæmi um aðallög og lög á safnlista

  • Autumn leaves (Kosma)
  • Blue Bossa (Dorham)
  • Can´t buy me love (McCartney)
  • Cantloupe Island (Hancock)
  • Cissy strut (Meters)
  • I wish (Wonder)
  • Misty (Garner)
  • Mo better blues (Lee)
  • Satin doll (Ellington)
  • Summertime (Gershwin)

Dæmi um æfingar

  • Exercise 1 Ode drip – Úr: J. Goldsby: The jazz bass book, bls. 199
  • Total Blues – Úr: J. Snidero: Jazz conception (21 solo etudes)
Miðpróf

Á miðprófi skal nemandi leika tvö aðallög. Auk þess skal hann leggja fram lista með fjórtán lögum og velur prófdómari eitt þeirra til flutnings. Alls eru því undirbúin sextán lög og skulu þau öll vera í samræmi við kröfur námskrár. Miðað er við að a.m.k. helmingur laga samkvæmt prófþætti 1 sé djasstónlist. Aðrir prófþættir eru upprit, æfing, tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Á miðprófi skulu bassanemendur að lágmarki flytja laglínu í öðru tveggja aðallaga og helmingi safnlistalaga. Ekki er nauðsynlegt að rafbassanemendur flytji laglínur í öðrum lögum. Tilgreina skal í prófgögnum í hvaða lögum próftaki flytur laglínu.

Miða skal við að heildartími á miðprófi fari ekki fram yfir 50 mínútur. Á prófinu skal nemandi flytja öll lög samkvæmt prófþætti 1 utanbókar. Sama á við um upprit samkvæmt prófþætti 2 og tónstiga og hljóma samkvæmt prófþætti 4. Einnig skal leika valverkefni samkvæmt prófþætti 5 b) utanbókar. Önnur prófverkefni, þ.e. æfingu samkvæmt prófþætti 3 og val samkvæmt prófþætti 5 a) og 5 c), má leika eftir nótum. Eðli málsins samkvæmt er óundirbúinn nótnalestur samkvæmt prófþætti 6 alltaf eftir nótum.

Prófþættir eru þessir:

  • Verk (36 einingar alls) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
    1. Tvö ólík aðallög, flutt með hljómsveit (12 einingar hvort).
    2. Eitt lag af fjórtán laga safnlista, flutt með hljómsveit - valið af prófdómara (12 einingar).
  • Upprit (12 einingar) flutt með upprunalegri upptöku. (Getur verið einleikskafli eða samfelld blanda einleiks og undirleiks sama flytjanda.)
  • Æfing (12 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Tónstigar og hljómar (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Val (10 einingar). Nemandi velji eitt eftirtalinna viðfangsefna:
    1. Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu.
    2. Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni.
    3. Leiki verk samkvæmt klassískri námskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.
  • Óundirbúinn nótnalestur (10 einingar).
    1. Hefðbundinn nótnalestur (5 einingar).
    2. Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá (5 einingar).
  • Heildarsvipur (5 einingar).
   Dæmi um prófverkefni á miðprófi

Í námskrá eru gefin eftirfarandi dæmi um prófverkefni á miðprófi. Dæmunum er ætlað að skilgreina þyngdarstig prófsins. Fullt eins má velja önnur verkefni af sambærilegri þyngd. Dæmin eiga við um aðallög og þau lög sem bæst hafa á safnlista frá grunnprófi.

Dæmi um aðallög og ný lög á safnlista

  • All the things you are (Kern)
  • Black Orpheus (Bonfa)
  • Bluesette (Thielemans)
  • Don´t give up (Gabriel)
  • Groovin High (Gillespie)
  • I’ll remember April (Raye / DePaul / Johnston)
  • Portrait of Tracy (Pastorius)
  • Rio funk (Ritenour)
  • There will never be another you (Warren / Gordon)
  • What’s this thing called love (Porter)

Dæmi um upprit

  • Kai Eckhardt: Blue in Green (John McLaughlin trio: Live at the Royal Festival Hall)
  • Jaco Pastorius: Bright size life (Pat Metheny: Bright size life)

Dæmi um æfingar

  • V. Blues with a bridge – Úr: 14 blues & Funk etudes (for Bass clef instruments)
  • Svíta nr. 1, BWV 1007, 1. kafli Prélude – Úr: J.S. Bach: Suiten für Violoncello solo
Framhaldspróf

Á framhaldsprófi skal nemandi leika tvö aðallög. Auk þess skal hann leggja fram lista með 32 lögum og velur prófdómari eitt þeirra til flutnings. Alls eru því undirbúin 34 lög og skulu þau öll vera í samræmi við kröfur námskrár. Miðað er við að a.m.k. helmingur laga samkvæmt prófþætti 1 sé djasstónlist. Aðrir prófþættir eru upprit, æfing, tónstigar og hljómar, val og óundirbúinn nótnalestur, auk þess sem gefið er fyrir heildarsvip prófsins.

Á framhaldsprófi skulu bassanemendur að lágmarki flytja laglínu í öðru tveggja aðallaga og helmingi safnlistalaga. Ekki er nauðsynlegt að rafbassanemendur flytji laglínur í öðrum lögum. Tilgreina skal í prófgögnum í hvaða lögum próftaki flytur laglínu.

Miða skal við að heildartími á framhaldsprófi fari ekki fram yfir 60 mínútur. Á prófinu skal nemandi flytja öll lög samkvæmt prófþætti 1 utanbókar. Sama á við um upprit samkvæmt prófþætti 2 og tónstiga og hljóma samkvæmt prófþætti 4. Einnig skal leika valverkefni samkvæmt prófþætti 5 b) og 5 c) utanbókar. Önnur prófverkefni, þ.e. æfingu samkvæmt prófþætti 3 og val samkvæmt prófþætti 5 a), má leika eftir nótum. Eðli málsins samkvæmt er óundirbúinn nótnalestur samkvæmt prófþætti 6 alltaf eftir nótum.

Miða skal við að heildartími á framhaldsprófi fari ekki fram yfir 60 mínútur. Á prófinu skal nemandi flytja öll lög samkvæmt prófþætti 1 utanbókar. Sama á við um upprit samkvæmt prófþætti 2 og tónstiga og hljóma samkvæmt prófþætti 4. Annað prófefni má leika eftir nótum.

Prófþættir eru þessir:

  • Verk (36 einingar alls) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
    1. Tvö ólík aðallög, flutt með hljómsveit (12 einingar hvort).
    2. Eitt lag af 32 laga lista, flutt með hljómsveit - valið af prófdómara (12 einingar).
  • Upprit (12 einingar) flutt með upprunalegri upptöku. (Getur verið einleikskafli eða samfelld blanda einleiks og undirleiks sama flytjanda.)
  • Æfing (12 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Tónstigar og hljómar (15 einingar) í samræmi við kröfur greinanámskrár.
  • Val (10 einingar). Nemandi velji eitt eftirtalinna viðfangsefna:
    1. Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu.
    2. Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni.
    3. Leiki verk á annað hljóðfæri úr sömu fjölskyldu og aðalhljóðfæri.
  • Óundirbúinn nótnalestur (10 einingar).
    1. Hefðbundinn nótnalestur (5 einingar).
    2. Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá (5 einingar).
  • Heildarsvipur (5 einingar).
   Dæmi um prófverkefni á framhaldsprófi

Í námskrá eru gefin eftirfarandi dæmi um prófverkefni á framhaldsprófi. Dæmunum er ætlað að skilgreina þyngdarstig prófsins. Fullt eins má velja önnur verkefni af sambærilegri þyngd.

Dæmi um aðallög og ný lög á safnlista

  • Bright Size Life (Metheny)
  • Dolphin Dance (Hancock)
  • Giant steps (Coltrane)
  • Heyoke (Wheeler)
  • How my heart sings (Zindars)
  • Infant eyes (Shorter)
  • Inner Urge (Henderson)
  • Portrait of Tracy (Pastorius)
  • Teen Town (Pastorious)
  • The necessary blonde (Willis)

Dæmi um upprit

  • Jaco Pastorius: Havona (Weather Report: Heavy weather)
  • Gary Willis: The necessary blonde (Scott Henderson & Tribal Tech: Primal tracks)

Dæmi um æfingar

  • XI. See forever – Úr: Mintzer, Bob: 14 Blues & Funk etudes (for Bass clef instruments)
  • Æfing nr. 25 – Úr: Sher/Johnson: Concepts for Bass soloing
Tónleikar

Að loknu framhaldsprófi í hljóðfæraleik í rytmískri tónlist skal nemandi halda tónleika með u.þ.b. 60 mínútna langri efnisskrá. Alla jafna er gert ráð fyrir að tónleikarnir séu samfelldir, án hlés. Efnistök eru frjáls og engar stílrænar takmarkanir eru gerðar um efnisskrá en áhersla lögð á að hún sé sannfærandi og persónuleg, fjölbreytt og krefjandi. Ekki er heldur gerð krafa um tengingu við efnisskrá undangengins framhaldsprófs en heimilt er að nota hana eða hluta hennar á tónleikunum. Þá er heimilt að nota eigin tónsmíðar á tónleikunum, þær geta verið hluti efnisskrár eða hugsanlega getur efnisskrá alfarið byggst á eigin tónsmíðum. Megináherslan er á að nemandi undirbúi og flytji efnisskrá sem er sannfærandi músíkölsk upplifun frá upphafi til enda. Nemandi ber ábyrgð á framsetningu tónlistarinnar, þ.m.t. samsetningu hljómsveitar og frammistöðu meðleikara. Fyrir frammistöðu á tónleikunum er gefin umsögn en ekki einkunn. Ekki er nauðsynlegt að halda tónleikana á sama skólaári og hljóðfæraprófið fer fram.