A L M E N N T U M Á F A N G A P R Ó F
Úrskurður nr. 7, 29. september 2006
Hinn 29. september 2006 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:
I.
Með bréfi, dags. 10. júní 2006, hefur X, píanókennari, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 19. maí 2006 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.
Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.
II.
Hinn 19. maí 2006 þreytti A grunnpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:
Verkefni | Umsögn | Einingar | |
|
|
|
|
Tónverk I | Allgóður heildarsvipur. Viðeigandi hraði, greinilegar styrkleikabreytingar. | 12 | |
Tónverk II | Viðeigandi hraði en full varkárt - hikandi. | 10 | |
Tónverk III | Merkjanlegar styrkleikabreytingar. Ekki nægileg nákvæmni. | 10 | |
Æfing | Viðeigandi hraði en full varkárt. Ekki nægilega nákvæmt. | 11 | |
Tónstigar og hljómar | Varkárt - nokkuð um mistök. | 8 | |
Val | Vísur Vatnsenda-Rósu - leikið eftir eyra og hljómsett: Allgóður hljómagangur. Hrynur lags ekki réttur, 4-3-4. | 6 | |
Óundirbúinn nótnalestur | Oftast réttar nótur og hrynur. Stöðugur púls. | 8 | |
Heildarsvipur | Viðunandi flutningur og öryggi. | 3 | |
|
|
|
|
Einkunn | Stóðst grunnpróf í píanóleik | 6,8 | |
|
|
|
|
III.
Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla gerir kærandi athugasemd vegna valþáttar grunnprófs A. Nemandinn hafi spilað eftir eyra og hljómsett Vísur Vatnsenda-Rósu. Í umsögn prófdómara segi: "Allgóður hljómagangur. Hrynur lags ekki réttur, 4-3-4." Kveðst kærandi vilja benda á að nemandinn eigi þetta verk í útsetningu Fjölnis Stefánssonar og hafi það haft áhrif á hvernig nemandinn lærði verkið eftir eyranu. Telji kærandi einkunnina 6 fyrir frammistöðu nemandans ekki sanngjarna.
IV.
Í greinargerð P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 8. september 2006, segir:
"Undirritaðri barst þann 6. sept. s.l. kæra vegna píanóprófs sem tekið var þann 19.05. s.l.
Ég harma það mjög að til þessarar kæru hafi komið og verð að viðurkenna að á mínum langa tónlistarferli hef ég aldrei heyrt útsetningu þá sem þar er tiltekin. Er mér því prófþáttur þessi mjög eftirminnilegur, til allrar lukku, þar sem það er skoðun mín að alltof langur tími líði frá því að kæran berst prófanefnd þar til hún kemur í mínar hendur.
Það er mér ekki tilfinningamál hvort nemandinn fær stiginu meira eða minna fyrir flutning sinn á tilteknu lagi og sjálfsagt að bæta honum upp mistök prófdómara, hins vegar var allt prófið frekar í slakari kantinum og kannski líka þess vegna að undirrituð tók valþáttinn sem illa undirbúinn en lét sér ekki detta í hug að þetta væri útsetning."
V.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.
2.
Kæra í máli þessu varðar umsögn og einkunnagjöf prófdómara vegna valverkefnis próftaka, A, á grunnprófi hennar í píanóleik, en verkefni fólst í flutningi verksins Vísur Vatnsenda-Rósu sem próftaki hafði lært eftir eyra og hljómsett. Er kæran byggð á því að athugasemd prófdómara um rangan hryn lagsins, þ.e. að hrynur hafi ekki verið 4-3-4, eigi ekki við rök að styðjast, enda hafi Fjölnir Stefánsson útsett verkið með sama hryn og í flutningi próftaka. Mun hér vera átt við útsetningu Fjölnis sem notuð var á hljómdiskinum Mixtúru sem gefinn var út árið 2001. Þá telur kærandi að af þessari ástæðu hafi einkunn fyrir þennan prófþátt verið of lág.
Í greinargerð prófdómara kemur fram að prófdómari hafi ekki þekkt til þeirrar útsetningar Fjölnis Stefánssonar sem tiltekin sé í kæru. Þá tekur prófdómari fram að það sé sér ekki tilfinningamál hvort nemandinn fái stiginu meira eða minna fyrir flutning sinn og sé sjálfsagt að bæta honum upp mistök prófdómara.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að prófdómari fallist á að greind athugasemd í umsögn um rangan hryn hafi ekki átt rétt á sér og að rétt sé að hækka einkunn af þeim sökum.
3.
Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla er vægi valþáttar á áfangaprófi 10 einingar af 100 einingum alls. Skal nemandi velja eitt eftirtalinna viðfangsefna sem valverkefni:
Það er sameiginlegt atriði þessum viðfangsefnum að nemendum er ætlað að sýna afrakstur af skapandi starfi og sjálfstæðri tónlistariðkun og í engu tilviki er um að ræða flutning skráðra verka eftir aðra. Um leik eftir eyra segir í aðalnámskrá tónlistarskóla:
"Fátt þroskar tóneyra meira en að leika eftir eyra. Mikilvægt er að nemendur fái örvun og leiðbeiningu í að leika lög á þennan hátt, t.d. þekkt lög eftir minni eða lög lærð af hljóðritunum. Þessi þáttur námsins miðar meðal annars að því að nemendur verði hæfari til sjálfstæðrar tónlistariðkunar og að þeir geti leikið undirbúningslítið við ýmsar aðstæður."
Tekið skal fram að á áfangaprófi eiga hvorki að liggja fyrir nótur né hljóðritanir af verki sem telst hafa verið lært eftir eyra. Þá verður ekki ætlast til þess að prófdómari þekki öll þau verk sem kunna að vera flutt á áfangaprófi og lærð hafa verið eftir eyra eða allar útsetningar þekktra laga - auk þess sem vera kann að um sé að ræða eigin útsetningu próftaka. Verður af þessum ástæðum ekki staðhæft um réttan eða rangan flutning verks sem lært hefur verið eftir eyra. Viðmiðanir Prófanefndar um mat á valþætti taka mið af þessu og því að þessum prófþætti er fyrst og fremst ætlað að leiða í ljós færni nemandans í skapandi tónlistarflutningi. Í samræmi við það er ekki að finna í viðmiðununum atriði sem skírskota til þess hvort rétt eða rangt sé farið með lag sem lært hefur verið eftir eyra, hvað þá þegar lagt er mat á frumsamið verk eða útsetningu nemanda, en atriði í þá veru er hins vegar að finna í viðmiðunum fyrir tónverk og æfingar, tónstíga og hljóma og óundirbúinn nótnalestur, t.d. "Mikið um ranga nótur og hryn" og "Mikið um mistök".
4.
Það leiðir af því sem rakið er í V.3 að framan að athugasemd prófdómara um rangan hryn var ekki réttmæt - og er það raunar ekki vefengt af hálfu prófdómara, svo sem fram er komið. Þá þykir bæði orðalag umsagnar prófdómara og skýringar í greinargerð hans til Prófanefndar leiða til þess að líta beri á umsögnina heildstætt. Að þessu athuguðu er það niðurstaða úrskurðar þessa að fella beri niður umsögn vegna valverkefnis og hækka jafnframt einkunn vegna prófþáttarins úr 6 í 10. Samkvæmt því verður einkunn nemandans á prófinu 7,2. Þó þykir rétt að gefa nemandanum kost á því að endurtaka umræddan þátt prófsins með því að flytja sama verk fyrir prófdómara að nýju. Kjósi nemandinn að endurtaka prófþáttinn skal síðari umsögn og einkunnagjöf gilda. Ósk nemandans um að endurtaka prófþáttinn þarf að hafa borist Prófanefnd í síðasta lagi 30. október 2006, en að öðrum kosti mun verða gefið út nýtt vitnisburðarblað í samræmi við það sem fyrr greinir.
Úrskurðarorð:
Umsögn fellur niður og einkunn hækkar úr 6 í 10 fyrir prófþáttinn Val á hinu kærða áfangaprófi. Nemandanum gefst þó kostur á því að endurtaka greindan prófþátt og skal þá umsögn og einkunn vegna þess flutnings gilda á prófinu.