A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 4, 9. júní 2005

Hinn 9. júní 2005 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 1. júní 2005, hefur X, aðstoðarskólastjóri, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 21. maí 2005 við tónlistarskólann T. Prófdómarar voru P og T.

II.

Hinn 21. maí 2005 þreytti A framhaldspróf í víóluleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara, P og T, var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni      Umsögn  Einingar
Tónverk I Góð og persónuleg tjáning. Tæknilegt öryggi. Spilaði af tilfinningu. 11
Tónverk II Góður heildarsvipur, spilaði hreint og músíkalskt. Ath. betur blæbrigði, styrkleikabreytingar o.s.frv. 10
Tónverk III Byrjaði mjög vel. Góð bogatækni. Augljós tilfinning fyrir verkinu en missti síðan einbeitinguna og þá vantaði meiri nákvæmni í tónmyndun og inntónun (vinstri og hægri hendi) og minnið datt út. 8
Tónverk IV Stíltilfinning fín, hryntilfinning fín. Vantaði meiri nákvæmni í inntónun, tónmyndun og tvígripum. 10
Útdrættir úr hljómsveitarverkum Vel unnið, sannfærandi flutningur, allgóð tilfinning fyrir hryn. 10
Tónstigar og hljómar Mjög hreint, þéttur og fallegur tónn. Vel undirbúið. 13
Valverkefni Ekki nógu nákvæmt farið með verkið, mikið um rangar nótur og ekki rétt talið, vantaði upp á tónmyndun. 7
Óundirbúinn nótnalestur Réttar nótur og hrynur. Sannfærandi flutningur. 9
Heildarsvipur  Góð tilfinning fyrir hljóðfærinu. Spilar músíkalskt, góð hryntilfinning, góð tónheyrn, en spilar stundun hroðvirknislega, vantar ögun í vinnubrögð. 3
Einkunn  Stóðst framhaldspróf í víóluleik 8,1
III.

Í kæru til Prófanefndar segir að gerð sé alvarleg athugasemd við einn lið á framhaldsprófi A. Kæruatriðinu er lýst þannig:

"Tildrögin voru þau að þegar A lék [Tónverk III] hringdi farsími hjá öðrum prófdómaranum. - Prófdómara tókst að þagga niður í símanum nokkuð fljótt, en augljóst er engu að síður að atvikið hafði truflandi áhrif á prófið og þá sérstaklega verkið sem nemandinn var að leika. - Umsögn prófdómara er svo á þessa leið: Byrjaði mjög vel. Góð bogatækni. Augljós tilfinning fyrir verkinu en missti síðan einbeitinguna og þá vantaði meiri nákvæmni í tónmyndun og inntónun (vinstri og hægri hendi) og minnið datt út. - Það er ljóst að umsögnin ber þess greinileg merki að nemandinn hafi verið truflaður við leik af prófdómara sjálfum og er það algerlega óviðunandi. Það staðfestist enn fremur þegar litið er til þeirra eininga sem nemandinn fékk, 8 af 12, sem er slakasti hluti prófsins."

IV.

P, prófdómari, staðfesti í viðtali við formann Prófanefndar að farsími annars prófdómarans hefði hringt á þeim tíma sem lýst er í kærunni.

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, getur kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds skv. 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Fyrir liggur að farsími annars prófdómarans á áfangaprófi A hringdi meðan nemandinn flutti prófþáttinn Tónverk III. Í kæru til Prófanefndar er því haldið fram að þetta atvik hafi haft truflandi áhrif á prófið og þá sérstaklega verkið sem nemandinn var að leika. Prófanefnd telur að hér hafi orðið mistök við framkvæmd prófsins, enda er eðlilegt að gera þá kröfu til prófdómara að þeir geri viðeigandi ráðstafanir áður en próftaka hefst til að forða truflun af þessu tagi. Þá eru ekki efni til að draga í efa að þetta atvik kunni að hafa haft áhrif á frammistöðu nemandans í þessum prófþætti. Ekki þykja hins vegar rök til þess að ætla að þessi truflun hafi haft áhrif sem máli skipta á frammistöðu nemandans í öðrum prófþáttum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og eins og atvikum er hér sérstaklega háttað þykir Prófanefnd rétt að fella niður umsögn vegna Tónverks III og hækka jafnframt einkunn vegna prófþáttarins úr 8 í 12. Samkvæmt því yrði einkunn nemandans á prófinu 8,5. Þó þykir rétt að gefa nemandanum kost á því að endurtaka umræddan þátt prófsins með því að flytja sama verk fyrir prófdómara að nýju. Kjósi nemandinn að endurtaka prófþáttinn skal síðari umsögn og einkunnagjöf gilda. Ósk nemandans um að endurtaka prófþáttinn þarf að hafa borist Prófanefnd í síðasta lagi 11. júlí 2005, en að öðrum kosti mun verða gefið út nýtt vitnisburðarblað í samræmi við það sem fyrr greinir.

Úrskurðarorð:

Umsögn fellur niður og einkunn hækkar úr 8 í 12 fyrir prófþáttinn Tónverk III á hinu kærða áfangaprófi. Nemandanum gefst þó kostur á því að endurtaka greindan prófþátt og skal þá umsögn og einkunn vegna þess flutnings gilda á prófinu.