A L M E N N T U M Á F A N G A P R Ó F
Úrskurður nr. 18, 15. júlí 2008
Hinn 15. júlí 2008 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:
I.
Með kæru, dags. 4. júní 2008, hefur deildarstjóri píanódeildar tónlistarskólans T mótmælt athugasemdum prófdómara vegna verkefnavals á áfangaprófi sem A þreytti hinn 20. maí 2008. Tekið er fram að kæran sé send fyrir hönd foreldra nemandans. Prófdómari var P.
Með hliðsjón af aðdraganda og efni kærunnar taldi Prófanefnd ekki tilefni til þess að leita álits prófdómara á kærunni.
II.
Hinn 20. maí 2008 þreytti A grunnpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:
Verkefni | Umsögn | Einingar | |
|
|
|
|
Tónverk I | Leikið af öryggi, vantaði þó skýrari styrkleikabreytingar. | 13 | |
Tónverk II | Leikið af öryggi, hefði mátt gera skýrari styrkleikabreytingar auk þess semhraðinn var í hægara lagi. | 12 | |
Tónverk III | Leikið af öryggi. Skýrar áherslur og yfirleitt góðar styrkleikabreytingar. | 14 | |
Æfing | Vel leikið, skýrar styrkleikabreytingar. Einstöku sinnum hefði tónninn mátt vera jafnari. | 14 | |
Tónstigar og hljómar | Leikið af öryggi, allt rétt og hiklaust. | 15 | |
Val (leikið eftir eyra) | Öruggt, rytmískt en full einföld hljómsetning. | 8 | |
Óundirbúinn nótnalestur | Nokkuð hikandi en hrynur og nótur oftast réttar. | 7 | |
Heildarsvipur | Góður og markviss flutningur. | 4 | |
|
|
|
|
Einkunn | 8,7 | ||
|
|
|
|
III.
Prófdómari gerði athugasemdir við verkefnaval á áfangaprófinu. Þar kom fram að hann teldi hluta prófverkefna hafa verið of létt miðað við kröfur námskrár. Í viðræðum við prófdómara kom fram að þar væri átt við tónverkið Tom-Tom eftir B. Joyner og æfinguna Snowmobiling (Bastian, Technic, level 3). Þá tók prófdómari fram að valverkefni nemandans, sem var samkvæmt prófbeiðni hljómsetning við lagið Signir sól, hefði einnig verið sérlega einföld og hefði hann gert athugasemd við það í umsögninni og gefið einkunnina 8 af því tilefni. Prófdómari gat þess að nótum af prófverkefnum yrði komið til Prófanefndar.
III.
Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla, sem m.a. varðar einnig annað áfangapróf við skólann vorið 2008, er greint frá því að kennari hafi talið verkefnaval á prófi A vera í lagi og hafi deildarstjóri ekki gert athugasemdir við það, enda hefðu sömu verkefni áður farið í gegn í prófum hjá tilgreindum nemendum vorið 2005 og haustið 2006.
Kærunni fylgdu m.a. ljósrit af prófverkefnum A auk ljósrita af vitnisburðarblöðum vegna grunnprófa sem vísað er til í kærunni.
IV.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.
2.
Í almennum prófreglum fyrir hljóðfæra- og tónfræðapróf, sem er að finna í aðalnámskrá tónlistarskóla, segir í 1. lið:
"Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum."
Í prófreglum fyrir hljóðfærapróf í sama riti, segir í 2. og 3. lið:
"Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár." ... "Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta."
Þá er svohljóðandi ákvæði í 8. lið prófreglnanna:
"Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara."
Þetta ákvæði hefur ekki verið skilið þannig að tónlistarskólum sé skylt að senda Prófanefnd nákvæmar upplýsingar um inntak allra prófþátta, svo sem nótur af tónverkum og tækniæfingum og lýsingu á valverkefni. Prófanefnd hefur hins vegar boðið tónlistarskólum þá þjónustu að leggja mat á það hvort viðfangsefni samræmist kröfum aðalnámskrár, en slíkar beiðnir ásamt gögnum þurfa að berast með tilteknum fyrirvara. Af hálfu tónlistarskólans T var ekki farið fram á mat Prófanefndar á verkefnavali A áður en próf fór fram.
Þá hefur við framkvæmd Prófanefndar á 8. lið prófreglna verið farið nokkuð vægar í sakirnar en orðalag ákvæðisins gefur tilefni til. Hefur sú framkvæmd verið ákveðin í samráði við menntamálaráðuneytið. Í verklagsreglum Prófanefndar er fjallað um það tilvik þegar prófdómari telur að prófverkefni samrýmist ekki þyngdarstigi prófs eða falli að öðru leyti ekki að ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Um slík atvik segir:
"Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar."
Samkvæmt verklagsreglum Prófanefndar er því ekki eingöngu hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni sé í samræmi við reglur aðalnámskrár tónlistarskóla, heldur er gengið út frá því að Prófanefnd geti hnekkt áliti prófdómara um slík atriði, eftir atvikum á grundvelli ráðgjafar sérfræðinga á viðkomandi hljóðfæri, við útgáfu vitnisburðarblaðs. Þetta girðir á engan hátt fyrir það að taka má niðurstöðu prófdómara, sé henni ekki hnekkt af hálfu Prófanefndar við útgáfu vitnisburðarblaðs, til endurmats við kærumeðferð í samræmi við ákvæði 6. gr. skipulagsskrár. Þá hefur sú framkvæmdavenja verið mótuð að varði annmarkar aðeins tiltekna þætti á áfangaprófi, en ekki verkefnaval í heild sinni eða að verulegum hluta, megi taka próf gilt varðandi aðra prófþætti en þá sem ekki teljast vera í samræmi við aðalnámskrá. Þá skal að öðru leyti tekið fram að það getur ekki verið á verksviði prófdómara að leggja fyrir nemanda að leika önnur verk á prófi en þau sem eru á verkefnalista þess, enda ber kennari ábyrgð á vali verkefna.
3.
Eins og fram er komið gerði prófdómari þá athugasemd á prófblaði vegna áfangaprófs A að þyngdarstig tveggja verkefna hefði ekki verið í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla svo og að valverkefni nemandans, sem var hljómsetning verksins Signir sól, hefði verið sérlega einfalt. Með athugasemdum sínum telst prófdómari hafa hafnað verkefnalista prófs A, sbr. tilvitnað ákvæði í skipulagsskrá Prófanefndar, og er þar um að ræða ákvörðun prófdómara sem sætir kæru til Prófanefndar. Af hálfu Prófanefndar var tónlistarskólanum T greint með óformlegum hætti frá athugasemdum prófdómara og jafnframt að ekki væru líkur á því að prófið yrði viðurkennt sem fullgilt áfangapróf. Með kæru, dags. 4. júní 2006, hefur tónlistarskólinn mótmælt athugasemdum prófdómarans og er tekið fram að kæran sé send fyrir hönd foreldra nemandans. Í samræmi við framanritað þykir rétt að taka taka kæruna til meðferðar samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár þótt niðurstaða prófdómara hafi ekki verið tilkynnt tónlistarskólanum með formlegum hætti. Með hliðsjón af aðdraganda og efni kærunnar taldi Prófanefnd ekki tilefni til þess að leita álits prófdómara á kærunni.
Af hálfu kæranda er því ekki haldið fram, svo sem með samanburði við verk sem tilgreind eru í námskrá sem dæmi um prófverkefni á grunnprófi í píanóleik, að umrædd þrjú prófverkefni hafi verið fullnægjandi prófverkefni á grunnprófi. Er kæran eingöngu byggð á því að tvö verkanna, þ.e. verkin Tom-Tom og Signir sól, hafi "farið í gegn", svo sem það er orðað í kærunni, hvort á sínu áfangaprófinu frá skólanum, svo sem nánar er rakið í kærunni. Tekið skal fram að æfingin Snowmobiling er einnig meðal verkefna á öðru prófanna sem til er vísað. Hvað sem líður þessum samanburði, sem þykir naumast hafa þýðingu af ástæðum sem síðar verður gerð grein fyrir, verður að benda á að ekki liggur óyggjandi fyrir að um tækan samanburð sé að ræða varðandi verkið Signir sól, enda kemur fram í vitnisburðarblaði fyrir grunnprófið þar sem það verk var valverkefni að verkið hafi verið "leikið eftir eyra og hljómsett" en í tilviki A var ekki um leik eftir eyra að ræða. Verður því ekki betur séð en að í þeim grunnprófum sem til er vísað í kærunni sé aðeins um að ræða eitt verk á hvoru prófi fyrir sig sem kann að hafa verið tilefni til að gera athugasemdir við. Er því leyti ólíku saman að jafna við próf A þar sem um þrjú aðfinnsluatriði er að ræða.
Að öðru leyti þykir rökstuðningur í kærunni gefa ástæðu til að árétta að á vegum Prófanefndar fer ekki fram sérstakt eða samræmt mat á prófverkefnum á áfangaprófum, nema sérstaklega sé beðið um álit nefndarinnar fyrirfram á því hvort um fullnægjandi verkefnaval sé að ræða. Almennt er það hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni standist viðmiðanir námskrár, þó með þeim fyrirvörum sem greinir í IV-2 að framan. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að leitast sé við að gæta samræmis við mat af þessu tagi, hvort sem er milli tónlistarskóla eða innan sama skóla, enda er viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Í námskrá í píanóleik eru tilgreind dæmi um tónverk sem teljast hæfileg prófverkefni, m.a. á grunnprófi í píanóleik, og verður almennt að ganga út frá því að prófdómarar geti byggt á þeim dæmum við mat á þyngdarstigi annarra verka sem nemendur hafa undirbúið fyrir próf. Þó verður ekki skotið loku fyrir það að prófdómara kunni að yfirsjást að verk sé of létt. Einnig er hugsanlegt að prófdómari kjósi að snúa blinda auganu að of léttu verkefni ef verkefnaval er fullnægjandi að öðru leyti. Slík afgreiðsla prófdómara væri andstæð starfsreglum Prófanefndar þótt hún kynni að eiga sér nokkra hliðstæðu í niðurstöðum nefndarinnar vegna einstakra mála sem upp hafa komið, sbr. að framan. Misbrestir af þessu tagi, sem kunna að verða á störfum prófdómara gagnvart einstökum próftökum, geta þó ekki orðið til þess að aðrir nemendur geti krafist þess í skjóli jafnræðisreglu að prófdómarar haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim. Því síður getur yfirsjón prófdómara orðið til þess að viðkomandi verk teljist þar með hafa hlotið viðurkenningu sem fullgilt verkefni á áfangaprófum, þannig að vísa verði á bug athugasemdum varðandi verkið sem koma fram við prófdæmingu í öðrum tilvikum. Samkvæmt framansögðu verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að umrædd verk hafi áður verið flutt á grunnprófum án athugasemda af hálfu prófdómara.
Athugasemdir prófdómara varða sem fyrr segir þrjú verkefni á grunnprófi A, þ.e. tónverkið Tom-Tom, æfinguna Snowmobiling og hljómsetningu verksins Signir sól, sem prófdómari taldi öll of létt miðað við kröfur námskrár í píanóleik. Prófanefnd hefur athugað þessi verk og er það mat nefndarinnar að verulega skorti á að þau samrýmist kröfum sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla til prófverkefna á grunnprófi. Eins og fram er komið er því út af fyrir sig ekki haldið fram af hálfu kæranda að verkefnin standist kröfur námskrár. Því þykir ekki tilefni til ýtarlegrar umfjöllunar um þetta atriði. Um einstök verk skal þó tekið fram að telja má að verkið Tom-Tom sé hæfilegt verkefni í fyrri hluta grunnnáms en langt frá því fullnægjandi sem viðfangsefni á grunnprófi. Æfingin Snowmobiling er bæði stutt og ekki nægilega fjölbreytt og krefjandi til að fullnægja kröfum námskrár, sbr. dæmi um verkefni sem þar eru tilgreind. Að því er varðar valverkefni prófsins skal bent á að það er sameiginlegt atriði öllum viðfangsefnum, sem nemendur geta valið sem valverkefni á grunnprófi, að nemendum er ætlað að sýna afrakstur af skapandi starfi og sjálfstæðri tónlistariðkun og í engu tilviki er um að ræða flutning skráðra verka eftir aðra. Miðað við það sem fyrir liggur um valverkefni A verður vart séð að um hafi verið að ræða sjálfstæða hljómsetningu eða útsetningu nemandans.
Við mat á því hvort unnt sé að viðurkenna próf A sem grunnpróf í skilningi námskrár verður bæði að líta til einstakra viðfangsefna á prófinu og efnisskrár prófsins í heild sinni. Eins og rakið er að framan verður að telja að í þremur viðfangsefna prófsins víki þyngdarstig verks eða eðli þess verulega frá viðmiðunum í námskrá, en ekki hafa verið gerðar athugasemdir við tvö tónverkanna sem flutt voru á prófinu. Eins og prófinu hefur verið farið samkvæmt framansögðu, þ.e. bæði fjöldi viðfangsefna sem teljast ekki fullnægjandi og að um veruleg frávik frá kröfum námskrár er að ræða í a.m.k. tveimur þeirra tilvika, þykir ekki fært að viðurkenna próf A sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.
Úrskurðarorð:
Próf A, sem fram fór 20. maí 2008, telst ekki hafa verið áfangapróf (grunnpróf) í skilningi aðalnámskrár tónlistarskóla.