A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 26, 13. júní 2019

Hinn 13. júní 2019 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með kæru, dags. 6. júní 2019, hefur skólastjóri tónlistarskólans T mótmælt útgáfu Prófanefndar tónlistarskóla (hér eftir PT) á vitnisburðarblaði vegna prófs í píanóleik sem A þreytti 15. maí 2019. Vitnisburðarblaðið var gefið út á þeim grundvelli að ekki teldist vera um að ræða vitnisburð um gilt áfangapróf (miðpróf) samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. Kærandi krefst þess að prófið verði viðurkennt sem fullgilt miðpróf.

Prófdómari var P. Með hliðsjón af efni kærunnar taldi PT ekki tilefni til þess að leita álits prófdómara á henni.

II.

Hinn 15. maí 2019 þreytti A miðpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn  Einingar
Tónverk I
J.S. Bach: Gigue úr partítu í B-dúr
Að mestu örugglega spilað en tempó í hægara kantinum. Vantaði að draga betur fram hægri hendina. Vinstri hendin var of sterk og vantaði öll blæbrigði. 11
Tónverk II
L.v. Beethoven: Für Elise
Að mestu leyti réttar nótur en hrynur ekki alveg réttur á stöku stað. Púlsinn var óstöðugur og vantaði meiri mótun, bæði í hendingum og styrk. Tempo í rólegri kantinum. 11
Tónverk III
F. Chopin: Vals í a-moll
Laglína oftast fallega spiluð en púlsinn mjög órólegur. Sleppti nokkrum trillum og virkaði ekki alveg tilbúið. Vantaði alla mótun. 8
Æfing
F. Burgmüller: Arabesque, op. 100, nr. 2
Mjög rösklega og örugglega spilað. Svolítið óskýrt í vinstri hendinni og púlsinn aðeins órólegur. 12
Tónstigar og hljómar Góður hraði og nokkuð jafnir tónstigar. Brotnir hljómar og arpeggíur svolítið ójafnar. Niðurlagshljómar ekki skv. námskrá. 12
Valverkefni
Tchaikovsky: Old French Song, op. 39, nr. 16
Fallega spilað en blæbrigði hefðu mátt vera aðeins meiri. 9
Óundirbúinn nótnalestur Flestar nótur í hægri réttar, mikið um rangar nótur í vinstri. Hrynur að mestu réttur. Púlsinn mjög hægur og mjög hikandi. 4
Heildarsvipur  Nemandinn var mjög taugaóstyrkur og hafði eflaust áhrif á flutning. Verkin voru öll spiluð utanbókar sem sýnir ákveðna kunnáttu. 3
Einkunn  7,0
Við skil á prófblaði til PT gerði prófdómarinn athugasemdir við verkefnaval á prófi A. Kvaðst prófdómarinn vera „mjög efins um miðprófið og efast um að það standi“. Nánar sagði í athugasemdunum:

„Ég gaf henni 7 miðað við frammistöðuna en ég tel æfinguna og jafnvel valið alls ekki standast kröfur um miðpróf. Það eru lögin sem hún spilaði best. Ég veit ekki hvort það er rétt en hún virkaði eins og hún væri aðeins á eftir í þroska, sem skiptir í sjálfu sér ekki máli en skýrir kannski skort á túlkun.“

Formaður PT óskaði 25. maí 2019 eftir áliti tveggja píanókennara, sem báðir hafa reynslu af prófdæmingu, á því hvort verkefnin á prófinu gætu talist fullnægjandi miðprófsverkefni. Var verkefnalisti prófsins sendur þeim í heild sinni og óskað álits um eftirfarandi: „Eru eftirfarandi prófverkefni að þínu mati í lagi á miðprófi í píanóleik?“

Umsagnir sérfræðinganna, sem bárust samdægurs, voru samhljóða um að þrjú fyrstu verkin (Bach, Beethoven og Chopin) væru eðlileg miðprófsverkefni að því gefnu að þau væru leikin í heild sinni. Verkin Arabesque, op. 100, nr. 2 eftir Burgmüller og Old French Song eftir Tchaikovsky væru alls ekki hæf miðprófsverkefni. Þessi verk væru talin hæfileg verkefni á grunnprófi.

Með bréfi til tónlistarskólans, dags. 27. maí 2019, greindi PT skólanum frá athugasemdum prófdómara og áliti sérfræðinga svo og því að í ljósi niðurstöðu þeirra yrði próf A ekki viðurkennt sem miðpróf í píanóleik, en þess í stað væri gefið út almennt vitnisburðarblað um frammistöðu hennar í prófinu.

III.

Í kæru tónlistarskólans T er gerð sú krafa að próf A verði samþykkt sem miðpróf í píanóleik. Í kærunni er gerð grein fyrir málavöxtum og kemur þar m.a. fram að prófbeiðni vegna prófs A hafi upphaflega verið send PT 15. apríl 2019 „ásamt tillögu um lagalista fyrir prófið“, svo sem segir í kærunni, en alls hafi 22 prófbeiðnir verið sendar þennan dag. Í prófbeiðni skólans hafi verið tekið fram að nokkrir af píanónemendunum væru með einhverfu/taugasjúkdóm og að tiltekinn prófdómari hefði reynslu af slíkum nemendum. Þess er getið í kærunni að nemandinn A sé í hópi umræddra nemenda, þ.e. með athyglisbrest og röskun á einhverfurófi, og eigi nemandinn rétt á að njóta stuðningsúrræða við próftöku vegna þessa. Þá kemur fram í kærunni að engar athugasemdir hafi borist frá PT við lagavalið á þeim ríflega fjórum vikum sem liðið hafi fram að prófdegi. Engar athugasemdir hafi heldur komið fram í prófinu sjálfu og hafi prófdómarinn óskað A til hamingju að próftöku lokinni. Tveimur vikum eftir próftökuna hafi verið tilkynnt um ákvörðun PT með bréfi.

Til stuðnings kröfu kæranda er í fyrsta lagi vísað til þess að samkvæmt 8. tölulið prófreglna aðalnámskrár tónlistarskóla sé það hlutverk kennara að leggja til lagalista til undirbúnings áfangaprófi. Tillaga tónlistarskólans hafi verið gerð með góðum fyrirvara og í góðri trú um að verkin fullnægðu kröfum til verka í miðprófi. Samkvæmt sama tölulið prófreglna aðalnámskrár fari prófraun því aðeins fram að verkefni í prófinu uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara. Í samræmi við þetta hafi PT verið óheimilt að hafna lagavali í prófrauninni eftir að próftakan fór fram. Að þessu leyti séu eigin prófreglur PT, sem séu birtar á heimasíðu nefndarinnar, andstæðar skýru og ótvíræðu ákvæði 8. töluliðar prófreglna aðalnámskrár tónlistarskóla og að því leyti ógildar. Sama eigi við um úrskurð PT sem kveðinn hafi verið upp 15. júlí 2008. Prófreglur PT séu lægra settar sem réttarheimild en aðalnámskrá tónlistarskóla og skuli því víkja ef ósamræmi sé þar á milli. Árétta beri að PT hafi haft rúmlega fjórar vikur til leggja mat á hvort uppfyllt væru skilyrði til próftöku samkvæmt 8. tölul. prófreglnanna. PT og prófdómarinn hafi virt þessa þessa mikilvægu reglu aðalnámskrár tónlistarskóla að vettugi.

Í öðru lagi er vísað til þess að samkvæmt bréfi formanns PT frá 27. maí 2019 hafi verið fengin sérfræðiálit (í fleirtölu) þess efnis að verulega skorti á að tilgreind tvö tónverk væru í samræmi við kröfur í greinanámskrár í píanóleik. Hér sé nokkuð ofmælt af hálfu formannsins því kunnugt sé að formaðurinn hafi einungis leitað álits um þetta atriði hjá einum nefndarmanni auk þess sem formaðurinn hafi ekki borið prófið í heild sinni undir þann nefndarmann. Sé það til þess fallið að gefa ekki rétta mynd af prófinu í heild. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi aflað sér hjá tilgreindum fyrrverandi nefndarmanni í PT hafi nefndin áður stuðst við þá reglu að þung verk gætu vegið upp létt verk í efnisskrá miðprófa. Samkvæmt því hefði átt að koma A til góða að hafa m.a. spilað verkið Gigue eftir Bach á prófinu sem sé að þyngd umfram kröfur á miðprófi.

Í þriðja lagi er í kærunni fjallað um umrædd tvö verkefni. Hvað snertir verkið Arabesque, op. 100, nr. 2 eftir Burgmüller kemur fram að það hafi áður verið viðurkennt sem prófverkefni á miðprófi og sé það andstætt jafnræðisreglu að viðurkenna það ekki í prófi A. Rökstuðningur í kærunni um þetta atriði er svohljóðandi:

„Að því er varðar þá umsögn formanns prófanefndar að Arabesque op. 100 nr. 2 eftir Burgmüller uppfylli ekki kröfur um val verka á miðprófi þá er sú umsögn í andstöðu við fyrri framkvæmd prófanefndarinnar, því sama verk var notað á miðprófi hjá [H], sem fram fór 17. maí 2017 og miðprófi hjá [R], sem fram fór 27. apríl 2007. Í fyrra tilvikinu var prófdómari P, sem var einnig prófdómari hjá A. Sú ákvörðun prófanefndarinnar að meina A að nota sama verk á miðprófi og þessum tveimur nemendum felur í sér ótvírætt og gróft brot nefndarinnar á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar gagnvart henni. Þá opinberar þessi mismunun prófanefndarinnar gagnvart A ófagleg og handahófskennd vinnubrögð nefndarinnar. Í ljósi fyrri framkvæmdar er því þessi hluti niðurstöðu prófanefndar tónlistarskóla rangur og ber því að ógilda niðurstöðuna í heild sinni.“

Um verkið Old French Song eftir Tchaikovsky, sem var verkefni að eigin vali á prófinu, segir:

„Annað af þeim verkum sem prófanefnd tónlistarskóla gerði athugasemd við, var lagið Old French Song eftir Tchaikovsky. Í þeirri útsetningu verksins sem A valdi, sem verk að eigin vali, reynir á notkun petala við túlkun verksins, sem er umfram hina almennu útgáfu verksins. Prófdómari virðist hins vegar ekki hafa gert sér að fullu grein fyrir þessum þætti, enda var engin umsögn um petalanotkun á prófblaðinu. Viðurkennt er að þegar um er að ræða valhluta miðprófs hafi nemendur frjálsari hendur en ella við val á verkum, enda sýna fyrri dæmi að prófanefnd tónlistarskóla hefur t.d. fallist á jólalög og bítlalög í einfaldri útsetningu sem verk að eigin vali nemanda, sbr. m.a. umsagnir þess efnis í framangreindum miðprófum. Að mati skólans getur flutningur verksins Old French Song m.a. falið í sér tæknilega krefjandi túlkun með notkun á petala svo að verkið verði þyngra en ella. Í ljósi þess að prófanefnd hefur ítrekað áður samþykkt verkið Arabesque op. 100 nr. 2 eftir Burgmüller á miðprófi og að vinnuregla prófanefndar er sú að viðurkenna ekki prófraun ef tvö eða fleiri verkefni eru of létt, verður ekki annað séð en að ef valverkið Old French Song þykir í léttari kantinum falli það engu að síður innan þess ramma sem prófanefndin hefur áður sett fyrir valverkefni í miðprófi. Þá má einnig hafa í huga eins og áður er rakið að verkið Gigue e. Bach á prófinu er umfram kröfur á miðprófi, sem sýnir breidd í getu hjá A. Þá liggur einnig fyrir umsögn frá [K] skólastjóra og fyrrverandi nefndarmanni í prófanefnd tónlistarskóla um að þung verk geti vegið upp létt verk í efnisskrá miðprófa eins og fyrr segir.“

Í framhaldi af þessari umfjöllun er dregið saman í kærunni að kærandi telji hina kærðu ákvörðun vera haldna slíkum ágöllum að ógilda beri hana. Ákvörðunin brjóti gegn mikilvægum réttindum nemandans. Fyrir liggi staðfest fordæmi um að PT hafi áður samþykkt Arabesque til prófraunar í miðprófi. Með því að hafna laginu eftir á í próftöku hjá A hafi PT brotið jafnræðisreglu og mismunað henni samanborið við aðra nemendur í sambærilegri stöðu. Einnig hafi verið leitt í ljós að hin kærða ákvörðun hafi verið andstæð 8. tölul. prófreglna aðalnámskrá tónlistarskóla fyrir hljóðfærapróf og því ógildanleg samkvæmt stjórnsýslureglum. PT beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun og viðurkenna prófraunina sem gilda próftöku til miðprófs í hljóðfæraleik.

IV.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til PT. Þá geta þessir aðilar kært til PT ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði PT skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í almennum prófreglum fyrir hljóðfæra- og tónfræðapróf, sem er að finna í aðalnámskrá tónlistarskóla, segir í 1. lið:

„Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum.“

Í prófreglum fyrir hljóðfærapróf í sama riti, segir í 2. og 3. lið:

„Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár.“ ... „Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta.“

Í greinanámskrám er síðan að finna upplýsingar um hvaða markmiðum nemendur skulu hafa náð við lok námsáfanga og þyngdarstig áfangaprófa áréttað enn frekar með dæmum um prófverkefni.

Við undirbúning áfangaprófa gengur PT út frá því að prófverkefni séu valin í samræmi við framanrituð ákvæði og að þyngdarstig þeirra sé hæfilegt. Því lætur PT almennt ekki fara yfir prófverkefni fyrir próf, nema þess sé sérstaklega óskað og þurfa þá nótur af prófverkefnum að fylgja slíkri beiðni. Slík beiðni kom ekki frá tónlistarskólanum T í því tilviki sem hér um ræðir.

Til þess er ætlast að prófbeiðnir séu sendar PT með ákveðnum fyrirvara. Það er vegna þess að ætla verður tíma til þess að skipuleggja störf prófdómara með þeim hætti að hagkvæmni sé gætt. Í kæru sýnist litið svo á að þessi tími sé til þess ætlaður að kanna prófverkefni og leggja mat á þau. Það er ekki rétt, svo sem fyrr segir. Því hefur enga þýðingu, sem gert er að atriði í kærunni, að prófbeiðni hafi verið send PT fjórum vikum fyrir prófdag. Einnig er verulega ónákvæmt, sem segir í kærunni, að tilgreining verkefna á prófbeiðni feli í sér „tillögu að lagalista“ fyrir próf. Verkefnaval hverju sinni er ákvörðun kennara og á ábyrgð hans.

3.

Víkur þá að því ákvæði prófreglna sem vitnað er til í kæru, þ.e. 8. lið prófreglna fyrir hljóðfærapróf. Þar segir:

„Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara.“

Eftir því sem fram kemur í kæru tónlistarskólans vill skólinn skilja þennan lið prófreglnanna bókstaflega þannig að prófdómara beri, áður en gengið er til próftöku, ekki einasta að leggja mat á prófverkefni heldur einnig að staðfesta að verkefnin uppfylli kröfur viðkomandi greinanámskrár. Skuli prófið ekki fara fram nema prófdómari staðfesti mat sitt um þetta. Í kærunni virðist gengið út frá því að staðfestingin geti verið látin uppi með þegjandi hætti, þ.e. að prófdómari geri ekki athugasemdir áður en próftakan hefjist. Er því þá látið ósvöruðu hvernig skuli við bregðast ef prófdómari verður þess áskynja í miðju prófi að ekki sé allt með felldu.

Ljóst má vera að ekki er framkvæmanlegt að leggja mat á prófverkefni með tilliti til þyngdarstigs samkvæmt kröfum námskrár – og síst ef ætlunin væri að mat og staðfesting prófdómara hefði bindandi áhrif – nema prófdómari fái með hæfilegum fyrirvara í hendur nákvæmar upplýsingar um inntak allra viðeigandi prófþátta, svo sem nótur af tónverkum og tækniæfingum og lýsingu á valverkefni, þannig að unnt sé að leggja mat á verkefnin áður en komið er á prófstað. Hér verður að hafa í huga að samkvæmt reglum aðalnámskrár eru ekki allir prófdómarar á grunn- og miðprófum sérfræðingar á viðkomandi hljóðfæri. Raunar má telja að jafnvel þótt um sérfræðing sé að ræða verði ekki gerð sú krafa að prófdómari þekki fyrirfram til prófverkefna og geti metið þau eingöngu á grundvelli upplýsinga um heiti verka og höfund.

Strax við undirbúning fyrstu prófa á vegum PT vorið 2004 varð ljóst að hvorki væri framkvæmanlegt né skynsamlegt að leggja upp með þá framkvæmd prófreglunnar í 8. lið að skólar yrðu ætíð að senda nótur og önnur gögn með prófbeiðnum þannig að unnt væri að meta verkefnin fyrirfram. Blasti við að slík framkvæmd yrði þung í vöfum og kostnaðarsöm, enda myndi hún útheimta umstang og aukna vinnu bæði fyrir skólana, PT og prófdómara, sem mæta yrði með hærra prófgjaldi en ella. Allra hluta vegna væri því heppilegra að treysta mati skólanna sjálfra, þar til annað kæmi í ljós, og túlka prófregluna í samræmi við það, enda bera skólanir samkvæmt öðrum ákvæðum prófreglnanna ábyrgð á því að verkefnin séu fullnægjandi, eins og fram er komið.

Meðal annars af þessum ástæðum hefur verið farið nokkuð vægar í sakirnar við framkvæmd PT á umræddu ákvæði prófreglna en orðalag ákvæðisins gefur tilefni til. Var sú framkvæmd ákveðin þegar á árinu 2004 í samráði við menntamálaráðuneytið. Hefur í þessum efnum annars vegar verið byggt á þeirri túlkun á greindu ákvæði prófreglnanna að fyrirmæli um að leggja „verkefnalista“ fyrir prófdómara „fyrir upphaf prófs“ fælu ekki í sér annað og meira en það að þegar á prófstað væri komið hefði prófdómari upplýsingar um heiti prófverka og höfund, sbr. venjulega tilgreiningu í prófbeiðnum skóla. Hins vegar byggir verklag PT á þeirri túlkun að skilja beri orðasambandið „próf fer því aðeins fram“ í síðari málslið ákvæðisins þannig að „próf“ teldist ekki vera áfangapróf í skilningi námskrár nema prófverkefni væru í samræmi við kröfur viðeigandi greinanámskrár að mati prófdómara, hvort sem nemandinn hefði leikið verkefnin eða ekki. Eins og nánar verður vikið að í 4. hér að neðan var einnig talið að þessi túlkun gæfi kost á mildari framkvæmd reglunnar gagnvart próftökum heldur en ef beitt væri ströngustu bókstafstúlkun.

4.

Eins og rakið er í kæru taka verklagsreglur PT á því tilviki þegar prófdómari telur að prófverkefni samrýmist ekki þyngdarstigi prófs eða falli að öðru leyti ekki að ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Verklagsregla um þetta efni byggir á þeirri túlkun fyrrgreinds 8. liðar prófreglna sem gerð er grein fyrir að framan. Um þetta segir í verklagsreglum:

„Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar.“

Samkvæmt verklagsreglum PT er því ekki eingöngu hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni sé í samræmi við reglur aðalnámskrár tónlistarskóla, heldur er gengið út frá því að PT geti hnekkt áliti prófdómara um slík atriði, eftir atvikum á grundvelli ráðgjafar sérfræðinga á viðkomandi hljóðfæri, við útgáfu vitnisburðarblaðs. Sé talið að athugasemd prófdómara eigi við rök að styðjast er sú niðurstaða tilkynnt tónlistarskólanum með formlegum hætti í tengslum við útgáfu vitnisburðarblaðs eða annars vitnisburðar. Þetta girðir á engan hátt fyrir það að taka má niðurstöðu prófdómara til endurmats við kærumeðferð í samræmi við ákvæði 6. gr. skipulagsskrár PT.

Auk annarra ástæðna býr það að baki framangreindu verklagi að talið er að það sé viðurhlutaminna fyrir nemanda að fá að ljúka því prófi sem hann hefur undirbúið, þótt annmarkar kunni að vera á prófverkefnum, einu eða fleirum, í stað þess að vera snúið frá prófi sökum mats prófdómara á verkefnunum. Eins og fyrr segir fær hvorki PT né prófdómari nótur af prófverkefnum sendar fyrirfram, þannig að unnt sé að leggja mat á þau áður en komið er að prófi. Reynslan sýnir að prófdómara kann að skjátlast í mati sínu á verkefnunum, þannig að athugasemd um þyngdarstig o.fl. reynist ekki eiga við rök að styðjast. Er augljóst að upp væri komin algjörlega ófær staða gagnvart nemandanum ef honum hefði ranglega verið snúið frá prófi.

Loks gefur þessi framkvæmd færi á því að beita vægari úrræðum vegna ágalla á prófi en því að hafna því í heild sem gildu áfangaprófi. Af hálfu PT hefur ekki verið litið svo á að hvers konar annmarkar á efnisskrá prófs valdi því að telja verði það ófullnægjandi sem áfangapróf. Hefur þetta verið metið hverju sinni og þá m.a. höfð hliðsjón af verkefnavali á prófinu í heild. Hins vegar kann að koma til þess að einkunn fyrir tiltekinn prófþátt er felld niður eða ákveðinn sérstakur frádráttur frá heildareinkunn. Sama gildir þegar annmarkar á prófi lúta ekki beint að verkefnavali, heldur t.d. því að ekkert verk er flutt utanbókar eða að valverkefni samræmist ekki ákvæðum námskrár. Við sérstakar aðstæður kann að þykja nægilegt að benda viðkomandi tónlistarskóla á að gera úrbætur í verkefnavali á áfangaprófum. Kom iðulega til þess á fyrstu starfsárum PT þegar ljóst þótti að um byrjunarörðugleika væri að ræða. Við val á úrræðum hefur þótt skipta máli hvort um grunnpróf er að ræða eða próf úr hærra stigi tónlistarnámsins.

Skilja má umfjöllun í kæru þannig að dregið sé í efa að PT sé heimilt að skýra og túlka ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla. Um þetta er það að segja að í almennum hluta aðalnámskrár er beinlínis tekið fram að frekari útfærsla á samræmingu mats og prófdæmingar sé í höndum „nefndar á vegum tónlistarskóla, rekstraraðila þeirra og menntamálaráðuneytis“, svo sem segir í neðanmálsgrein á bls. 33 í prentaðri útgáfu námskrárinnar. Að mati PT fer því ekki á milli mála að nefndinni er fyllilega heimilt að ákveða um einstök útfærsluatriði áfangaprófa. Verður að telja jákvætt og í þágu allra tónlistarskóla til lengri tíma að slíkur sveigjanleiki sé til staðar.

Bent skal á að þegar kom að útgáfu námskrár í rytmískri tónlist á árinu 2010 þótti ástæða til þess að orða það ákvæði prófreglna, sem ræðir um hér að framan, með öðrum hætti en í almennum hluta aðalnámskrár. Í námskrá í rytmískri tónlist eru birtar helstu efnisreglur aðalnámskrár varðandi almenn atriði tónlistarnáms, m.a. prófreglur. Þar er að finna svohljóðandi ákvæði (9. liður) í prófreglum fyrir hljóðfærapróf:

„Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara ber honum að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar tónlistarskóla sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti.“

Samkvæmt þessu ber ekki saman orðalagi í prófreglum annars vegar í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla og hins vegar í námskrá í rytmískri tónlist. Augljóst er þó að ekki er ætlast til þess að framkvæmd prófa sé mismunandi eftir tegund tónlistar. Svo hefur heldur ekki verið. Fer ekki á milli mála að orðalag í prófreglum í námskrá í rytmískri tónlist var ákveðið með hliðsjón af þeirri túlkun og framkvæmd sem mótuð hafði verið við framkvæmd áfangaprófa í klassískri tónlist.

5.

Það leiðir af því sem hér hefur verið rakið að ekki er fallist á það með kæranda að ósamræmi sé milli prófreglna aðalnámskrár og umræddrar verklagsreglu PT um framkvæmd áfangaprófa. Réttara er að líta svo á að verklagsreglan feli í sér ákveðna túlkun á prófreglunni. Framkvæmd PT á prófreglunni horfir til hagsmuna nemandans sem í hlut á, enda er hún síður íþyngjandi fyrir hann en leiðir af strangri túlkun reglunnar, auk þess sem verklagið er til þess fallið að niðurstaða um þyngdarstig verði sem réttust og gefur möguleika á að beita bæði fleiri og mildari úrræðum en því einu að stöðva framkvæmd prófs.

Vegna umfjöllunar í kæru að öðru leyti um verklag PT skal tekið fram að ekki verður fallist á það með kæranda að enginn möguleiki sé á því að hagga við gildi prófs sem áfangaprófs eftir að nemandi hefur lokið flutningi prófverkefna, enda verður sá skilningur ekki leiddur af orðalagi prófreglna námskrár og kemur ekki fram í verklagsreglum PT. Áralöng framkvæmd er fyrir öðru, svo sem fyrr segir. Það er fyrst eftir að niðurstaða um próf hefur verið tilkynnt skóla/nemanda með útgáfu vitnisburðarblaðs að hún er bindandi og verður ekki breytt nema með kærumeðferð samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár PT.

Eins og fyrr segir hefur umrætt verklag PT legið fyrir frá því áður en áfangapróf á vegum prófdómara nefndarinnar fóru fyrst fram vorið 2004. Þessi framkvæmd hefur einnig verið rækilega kynnt tónlistarskólum á undanförnum árum, bæði á fundum fulltrúaráðs, með orðsendingum til tónlistarskóla og á vef PT. Um hana er jafnframt fjallað í úrskurði PT nr. 18 frá 15. júlí 2008, sem birtur er á vef nefndarinnar, en atvik í því máli voru með hliðstæðum hætti og í tilviki A.

Hvað snertir tónlistarskólann T sérstaklega má vísa til bréfs PT til skólans, dags. 20. maí 2007, þar sem fram kom að prófdómarar hefðu gert athugasemdir við verkefnaval á prófum í skólanum. Í bréfinu er gerð grein fyrir verklagi PT þegar álitamál koma upp um þyngdarstig verkefna. Úrlausnir PT vegna umræddra athugasemda voru á sama hátt og í öllum hliðstæðum málum á eins hófstilltum nótum og frekast var talinn kostur. Það fer því ekki á milli mála að skólinn þekkti mæta vel til vinnulags PT og prófdómara á vegum nefndarinnar, hvað varðar þá þætti sem hér um ræðir, þegar beðið var um píanóprófið fyrir A. Í prófbeiðni kom ekki fram neinn fyrirvari hvað þetta varðar, en slíkan fyrirvara hefði raunar orðið að skilja sem beiðni um að lagt yrði sérstakt mat á prófverkefnin fyrirfram.

6.

Eins og fram er komið gerði prófdómari þá athugasemd vegna prófs A að þyngdarstig tveggja verkefna, þ.e. Arabesque eftir Burgmüller og Old French Song eftir Tchaikovsky, hefði ekki verið í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla. Að athuguðu máli og eftir að hafa leitað umsagnar sérfræðinga í píanóleik gaf PT ekki út vitnisburðarblað um miðpróf í tilviki A heldur almennt vitnisburðarblað um prófið. Í þessum efnum var fylgt verklagi PT svo sem rakið hefur verið. Með athugasemdum sínum telst prófdómari því hafa hafnað verkefnalista prófs A, sbr. tilvitnað ákvæði í skipulagsskrá PT, og er þar um að ræða ákvörðun prófdómara sem sætir kæru til PT.

Að frátöldum þeim þáttum í kæru sem þegar hefur verið tekin afstaða til hér að framan má draga röksemdir kæranda, sem skólinn færir fram til stuðnings kröfu sinni, saman í tvennt. Hvað snertir verkið Arabesque eftir Burgmüller ber kærandi því við að það hafi verið flutt á miðprófi nemandans H, sem fram fór 17. maí 2017, svo og á miðprófi nemandans R, sem fram fór 27. apríl 2007, án þess að gerðar hafi verið athugasemdir af hálfu PT. Samkvæmt þessu hafi PT samþykkt þetta verk sem fullgilt viðfangsefni á miðprófi og standi jafnræðisregla til þess að hið sama verði látið gilda í tilviki A. Varðandi verkið Old French Song eftir Tchaikovsky vísar kærandi til þess að um valverkefni sé að ræða sem gefi nemanda frjálsari hendur en ella við val á verkefni. Sökum pedalnotkunar við flutning verksins megi að mati kæranda einnig telja það verkið tæknilega krefjandi að það fullnægi miðprófskröfum. Þá telur kærandi að í ljósi þess að viðurkenna beri verkið Arabesque sem fullnægjandi miðprófsverkefni, sbr. rökstuðning þar að lútandi, standi aðeins eftir eitt verk (Old French Song) sem hugsanlega gefi tilefni til athugasemda. Það sé starfsregla PT að láta gildi áfangaprófs standa óhaggað í slíkum tilvikum. Hér verði einnig að líta til annarra verkefna á prófinu og tiltekur kærandi í því sambandi verkið Gigue eftir Bach. Beri því að viðurkenna próf A.

Verður nú vikið að einstökum atriðum í þessum rökstuðningi kæranda. Rétt þykir að taka fyrst afstöðu til sjónarmiða kæranda varðandi verkið Old French Song.

7.

Verkið Old French Song var flutt sem valverkefni á prófi A. Eins og fram kemur í aðalnámskrá tónlistarskóla getur valverkefni á miðprófi falist í flutningi eins eftirtalinna viðfangsefna:

  • Nemandi leiki tónverk að eigin vali. Tónverkið skal vera af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. Þessi valþáttur er þannig sambærilegur einstökum liðum í prófþætti 1 og gefur möguleika á að nemandi sýni enn aukna stílræna breidd í tónlistarflutningi.
  • Nemandi spinni út frá gefnu upphafi, einföldu hljómferli eða lagi. Nemandi getur valið hvort hann spinnur með eða án undirleiks og er miðað við að hann hafi haft tækifæri til að undirbúa þennan prófþátt.
  • Nemandi flytji frumsamið verk eða eigin útsetningu. Þess er ekki krafist að nemandinn hafi skráð verkið. Heimilt er að leika frumsamið samleiksverk, að því tilskildu að höfundur gegni þar lykilhlutverki.
  • Nemandi hljómsetji stutta laglínu. Þetta á við um þá nemendur sem geta leikið hljóma á hljóðfæri sín.

Samkvæmt tilgreiningu á prófbeiðni skyldi verkið Old French Song flutt sem „verk að eigin vali“, sbr. a-lið hér að framan. Af því leiðir að leggja verður að öllu leyti sömu mælikvarða á þetta verk og önnur tónverk á prófinu hvað snertir þyngdarstig og eðli þess sem verkefnis á miðprófi. Umfjöllun kæranda um bítlalög og jólalög, sem flutt hafi verið á miðprófum, getur ekki haggað þessu, en þar lítur kærandi framhjá því að þar ræðir um eigin útsetningu nemandans eða hljómsetningu, sbr. c- og d-liði hér að framan, sem ætlað er að leiða fram færni hans í skapandi tónlistarflutningi. Er því ólíku saman að jafna.

PT hefur athugað verkið Old French Song og rætt á fundi sínum. Er það mat nefndarinnar að verulega skorti á að það samrýmist kröfum sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla til prófverkefna á miðprófi í píanóleik. Að því er varðar tilvísun kæranda til þess að í þeirri útsetningu sem nemandinn hafi flutt hafi reynt sérstaklega á notkun pedals við túlkun verksins, sem sé umfram hina almennu útgáfu þess, skal tekið fram að samkvæmt námskrá í píanóleik er ætlast til þess að nemandi geti við lok miðnáms notað pedal á skýran og markvissan hátt. Notkun pedals við flutning verksins gefur því ekki tilefni til að álykta að þyngdarstig þess hafi verið slíkt að jafngildi miðprófsverkum.

8.

Víkur þá að verkinu Arabesque eftir Burgmüller. Í umsögnum sérfræðinga, sem PT aflaði vegna kærunnar, kemur fram að hér ræði um verk sem teljist eðlilegt verkefni á grunnprófi í píanóleik. Við athugun PT af þessu tilefni kom í ljós að þetta verk hefur alloft verið viðfangsefni á grunnprófum í píanóleik. Meðal annars kom fram við þessa athugun að verkið hefur a.m.k. níu sinnum á undanförnum árum verið verkefni á grunnprófum frá tónlistarskólanum T, kæranda í máli þessu. Ekki þarf að orðlengja að langur vegur er frá því að verk sem telst hæfilegt á grunnprófi í píanóleik geti talist á því þyngdarstigi sem krafist er samkvæmt námskrá um verkefni á miðprófi.

Samkvæmt framansögðu getur tónlistarskólanum T ekki hafa dulist að umrætt verkefni á fyrirhuguðu prófi A var ekki gilt miðprófsverkefni. Því er ekki heldur haldið fram af hálfu kæranda í kæru, svo sem með samanburði við verk sem tilgreind eru í námskrá sem dæmi um prófverkefni á miðprófi í píanóleik, að þetta verk sé fullnægjandi prófverkefni á miðprófi. Hvað þetta verk snertir er kæran eingöngu byggð á því að verkið hafi verið flutt á tveimur öðrum miðprófum hjá skólanum, svo sem nánar er rakið. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við þau próf. Það sé því „í andstöðu við fyrri framkvæmd prófanefndarinnar“, svo sem það er orðað í kærunni, að gerðar séu athugasemdir við umrætt verk sem miðprófsverkefni, og krefst kærandi þess á grundvelli jafnræðisreglu að hið sama verði látið gilda um próf A.

Samkvæmt framansögðu gefur kærandi sér þá forsendu í rökfærslu sinni að með því að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við verkið Arabesque sem miðprófsverkefni á áfangaprófum hjá skólanum á fyrri árum hafi PT samþykkt það sem fullnægjandi verk á miðprófi. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er ljóst að þessi forsenda kæranda fær ekki staðist, enda hefur PT ekki tekið neina afstöðu til umrædds verks með úrskurði eða á annan formlegan hátt.

Kæruefni í máli þessu og sú málsástæða sem á er byggt, þ.e. að jafnræðisregla standi til þess að verða við kröfu, er með sama hætti og í úrskurði PT nr. 18 frá 15. júlí 2008 sem vikið er að hér að framan, en þar var fjallað um verkefni á grunnprófi í píanóleik. Í þeim úrskurði segir um skírskotun til jafnræðisreglu:

„Að öðru leyti þykir rökstuðningur í kærunni gefa ástæðu til að árétta að á vegum Prófanefndar fer ekki fram sérstakt eða samræmt mat á prófverkefnum á áfangaprófum, nema sérstaklega sé beðið um álit nefndarinnar fyrirfram á því hvort um fullnægjandi verkefnaval sé að ræða. Almennt er það hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni standist viðmiðanir námskrár, þó með þeim fyrirvörum sem greinir í IV-2 að framan. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að leitast sé við að gæta samræmis við mat af þessu tagi, hvort sem er milli tónlistarskóla eða innan sama skóla, enda er viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Í námskrá í píanóleik eru tilgreind dæmi um tónverk sem teljast hæfileg prófverkefni, m.a. á grunnprófi í píanóleik, og verður almennt að ganga út frá því að prófdómarar geti byggt á þeim dæmum við mat á þyngdarstigi annarra verka sem nemendur hafa undirbúið fyrir próf. Þó verður ekki skotið loku fyrir það að prófdómara kunni að yfirsjást að verk sé of létt. Einnig er hugsanlegt að prófdómari kjósi að snúa blinda auganu að of léttu verkefni ef verkefnaval er fullnægjandi að öðru leyti. Slík afgreiðsla prófdómara væri andstæð starfsreglum Prófanefndar þótt hún kynni að eiga sér nokkra hliðstæðu í niðurstöðum nefndarinnar vegna einstakra mála sem upp hafa komið, sbr. að framan. Misbrestir af þessu tagi, sem kunna að verða á störfum prófdómara gagnvart einstökum próftökum, geta þó ekki orðið til þess að aðrir nemendur geti krafist þess í skjóli jafnræðisreglu að prófdómarar haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim. Því síður getur yfirsjón prófdómara orðið til þess að viðkomandi verk teljist þar með hafa hlotið viðurkenningu sem fullgilt verkefni á áfangaprófum, þannig að vísa verði á bug athugasemdum varðandi verkið sem koma fram við prófdæmingu í öðrum tilvikum. ...“

PT áréttar framangreinda afstöðu nefndarinnar. Ekki fær staðist að of létt tónverk eða æfing, miðað við kröfur viðkomandi námsstigs, teljist vinna sér þegnrétt sem fullnægjandi prófverkefni af því námsstigi af þeirri ástæðu einni að það hefur verið leikið í eitt eða fleiri skipti á áfangaprófi án athugasemda prófdómara. Ef sú væri raunin myndi það á lengri eða skemmri tíma leiða til gengisfellingar á þyngdarstigi áfangaprófa úr viðkomandi hluta tónlistarnáms. Samkvæmt framansögðu verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að umrætt verk hafi áður verið flutt á miðprófum án athugasemda.

PT hefur athugað tiltæk gögn í tengslum við þau próf sem kærandi tilgreinir sem meint fordæmi þess að verkið Arabesque hafi talist gilt miðprófsverkefni, en það eru próf í skólanum frá árunum 2007 og 2017. Í báðum þessum prófum var verkið flutt sem æfing eins og í prófi A. Ekki verður séð að neinar athugasemdir hafi borist frá prófdómara á prófinu frá 2007 varðandi þetta verkefnaval. Hins vegar kemur í ljós að við skil á prófúrlausninni frá árinu 2017 lét prófdómari uppi það álit sitt að verkið gæti ekki talist viðhlítandi miðprófsverkefni, „en þessi æfing er mjög oft notuð á grunnprófi“, svo sem sagði í orðsendingu hans. Prófdómarinn gerði ekki athugasemdir við önnur verkefni á prófinu og kom að öðru leyti ekkert fram um að tilefni væri til þess. Allt að einu var athugasemdin þess eðlis að hún hefði átt að verða tilefni viðbragða af hálfu PT. Það gerðist hins vegar ekki. Hér verður ekki rakið til rótar hvað fór úrskeiðis í þessum efnum, enda skiptir það einungis máli í innra starfi nefndarinnar. Þá hefur ekki þýðingu að láta neitt uppi um það hvaða úrræði kynnu að hafa verið eðlileg af þessu tilefni. Þó má staðhæfa að þau hefðu ekki átt að verða vægari en að gera tónlistarskólanum viðvart um þessa annmarka á prófinu þannig að hann gæti brugðist við til framtíðar.

9.

Hér að framan hefur því verið slegið föstu að þau tvö tónverk, sem prófdómari á prófi A gerði athugasemdir við, geti ekki talist fullnægjandi verkefni á miðprófi í píanóleik. Önnur tónverk sem flutt voru á prófinu teljast fullnægja kröfum námskrár. Verkið Gigue úr partítu í B-dúr eftir Bach, sem kærandi víkur sérstaklega að í kæru, er algengt verk á miðprófi í píanóleik. Er ekki tekið undir það með kæranda að þetta verk geti talist erfiðara en almennt gerist um miðprófsverkefni.

Við meðferð málsins hefur komið í ljós að við útgáfu vitnisburðarblaðs vegna miðprófs nemanda kæranda vorið 2017 láðist PT að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna ábendingar prófdómara um að verkið Arabesque, sem var eitt verkið á prófinu, teldist ekki fullnægja kröfum til flutnings á miðprófi í píanóleik. Hefði a.m.k. verið rétt að vekja athygli skólans á þessum annmarka. Er óhjákvæmilegt að þessi mistök PT hafi áhrif á niðurstöðu í úrskurði þessum, enda verður að reikna með því að skólinn hefði tekið tillit til ábendingar nefndarinnar við ákvörðun prófverkefna A. Að þessu virtu þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina að því leyti að próf A verði viðurkennt sem gilt miðpróf.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu og hvað sem líður atriðum sem varða verkið Arabesque verður ekki litið fram hjá því að eftir stendur að valverkefni prófsins var ekki í samræmi við ákvæði námskrár. Ekki er fallist á sjónarmið kæranda um að þyngdarstig annarra verkefna á prófinu vegi upp þennan annmarka. Að mati PT er annmarki á þessum prófþætti því ekki léttvægur. Verður hann að teljast sambærilegur ýmsum agnúum sem hafa orðið tilefni til lækkunar heildareinkunnar á prófi með frádrætti eininga frá því sem prófdómari hefur gefið vegna einstakra prófþátta. Eru hér höfð í huga m.a. þau tilvik þegar ekkert tónverk/æfing er flutt utanbókar, val á grunnprófi felst í leik verks eftir eyra en það reynist leikið eftir nótum eða ef verk er leikið eftir eyra sem valverkefni á miðprófi. Í þessum tilvikum hefur að jafnaði verið felld niður einkunn fyrir prófþátt eða ákvarðaður frádráttur sem nemur allt að þeim fjölda eininga sem prófdómari hefur gefið í prófþættinum. Í þessu máli er um að ræða miðpróf. Almennt verður að gera ríkari kröfur til þess að verkefnaval og annar framgangur miðprófs sé eftir reglum en þegar grunnpróf á í hlut. Að öllu þessu athuguðu þykir hæfilegt að draga níu einingar frá heildareinkunn prófdómara. Hlýtur A því 6,1 í heildareinkunn á miðprófi sínu.

Úrskurðarorð:

Próf A, sem fór fram 15. maí 2019, er viðurkennt sem áfangapróf (miðpróf) í skilningi aðalnámskrár tónlistarskóla. Vegna annmarka á valþætti prófsins ákvarðast frádráttur níu eininga frá heildareinkunn. Einkunn á prófinu verður 6,1.