A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 25, 13. júní 2019

Hinn 13. júní 2019 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með kæru, dags. 7. júní 2019, hefur skólastjóri tónlistarskólans T mótmælt útgáfu Prófanefndar tónlistarskóla (hér eftir PT) á vitnisburðarblaði vegna prófs í klarínettuleik sem A þreytti 20. maí 2019. Vitnisburðarblaðið var gefið út á þeim grundvelli að ekki teldist vera um að ræða vitnisburð um gilt áfangapróf (grunnpróf) samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. Kærandi krefst þess að prófið verði viðurkennt sem fullgilt grunnpróf.

Prófdómari var P. Með hliðsjón af efni kærunnar taldi PT ekki tilefni til þess að leita álits prófdómara á henni.

II.

Hinn 20. maí 2019 þreytti A grunnpróf í klarínettuleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn  Einingar
Tónverk I
D. McKeon: Swing Easy
Allgóð spilamennska en nokkuð skorti á góða sveiflu í stíl lagsins.  13
Tónverk II
H. Purcell: Rondeau
Fallegur og blæbrigðaríkur klarínettuleikur. Góð hendingamótun og syngjandi tónn. 15
Tónverk III
D. Weiss: What a Wonderful World
Mjög vel spilað af góðri tilfinningu fyrir stíl lagsins. Langir tónar voru stundum of stuttir. 14
Æfing
H. Lazarus: Etýða nr. 33 
Stöðugur og að mestu öruggur flutningur. 13
Tónstigar og hljómar Leikið með nokkuð jöfnum tóni yfir allt tónsviðið. Ekki var alltaf farið eftir fyrirmælum greinanámskrár um tónsvið og sum atriðinna voru full rólega leikin. Einstaka mistök. 10
Valverkefni
Fly me to the moon
– leikið eftir eyra
Allgóð spilamennska. Fremur óstöðugt og rytmískir eiginleikar lagsins hefðu mátt koma betur fram. 7
Óundirbúinn nótnalestur Fremur hikandi og talsvert um ranga tóna og hryn. 5
Heildarsvipur  Að mestu leyti góður og markviss flutningur. A hefur náð góðum tökum á klarínettuleik og getur greinilega túlkað tónlist á sannfærandi hátt. 4
Einkunn  8,1
Við skil á niðurstöðum prófdómara til PT fylgdu athugasemdir hans við verkefnaval á prófinu. Þar kom fram að hann teldi flest prófverkefnanna hafa verið of létt miðað við kröfur námskrár. Meðfylgjandi voru nótur af umræddum verkefnum. Nánar tiltekið voru athugasemdir prófdómara svohljóðandi:

„Ég tel að æfingin í klarínettugrunnprófi A sé of létt. Hún spannar mjög lítið tónsvið og er fremur einhæf. Þarna eru heldur ekki neinar styrkleikamerkingar. Ég vil líka gera athugasemd við öll verkin þrjú í þessu sama prófi. Það er ekki eitt styrkleikamerki í þessum verkum. Engin artikúlasjón er skrifuð inn, engin tákn um áherslur, stakkató o.s.frv. Eitt þeirra er með hraðafyrirmæli, tvö án nokkurra hraðafyrirmæla. Þetta er engan veginn boðlegt námsefni! Þar fyrir utan eru þau öll létt og rétt að sérfræðingar meti hvort þau séu of auðveld fyrir grunnpróf. Tónsvið þeirra allra er mjög lítið, Swing easy – áttund, Rondeau – tíund, What a W.W. – níund.“

Formaður PT óskaði í framhaldi af þessu eftir áliti starfandi klarínettuleikara, sem einnig hefur reynslu af prófdæmingu, á því hvort tónverkin þrjú og æfingin á prófinu gætu talist fullnægjandi grunnprófsverkefni.

Í skriflegri umsögn sérfræðingsins, sem barst PT 22. maí 2019, segir:

„Ekki lengi að fella dóm yfir þessu. Þetta er alls ekki viðunandi - gjörsamlega útúr kortinu! T.d. ekki ein styrkleikabreyting í öllu prófinu, hæsta nótan er tvístrikað f og etýðan hefur langt frá því einhver líkindi með viðmiðunaretýðunni (sem er ein og hálf blaðsíða af sextándapartsnótum). Hugsanlega gætu Rondóið og Wonderful World sloppið, en þá í öðru samhengi með einhverju töluvert meira krefjandi. Og þá þyrfti líka að bæta inní það einhverjum styrkleikamerkjum.“

Einnig var leitað óformlegs álits annars klarínettuleikara á verkefnunum. Hann tók undir fyrrgreint álit.

Með símtali 26. maí 2019 greindi formaður PT skólastjóra tónlistarskólans frá athugasemdum prófdómara og áliti sérfræðings svo og því að í ljósi niðurstöðu þeirra yrði ekki gefið út vitnisburðarblað um grunnpróf í tilviki A, þ.e. að prófið yrði ekki viðurkennt sem grunnpróf. Að ósk skólastjórans sendi PT honum með tölvupósti 29. maí 2019 athugasemdir prófdómara og álit fyrrnefnds sérfræðings. Vitnisburðarblað vegna prófsins var sent skólanum sama dag.

III.

Í kæru tónlistarskólans T er vísað til þess að fyrir liggi vitnisburðarblöð um grunnpróf tveggja nemenda skólans í klarínettuleik með nákvæmlega sömu efnisskrá og á prófi A. Próf þessi hafi farið fram í maí 2016 og í maí 2018. Bæði prófin hafi verið tekin gild. Á grundvelli jafnræðisreglu hljóti því próf A einnig að vera gilt.

Einnig er í kærunni vikið að þeirri starfsreglu PT að prófdómari skuli hlusta á próf á venjulegan hátt – þótt hann telji verkefnin ekki fullnægja kröfum námskrár – en greina frá athugasemdum sínum við skil á prófblaði til PT. Kærandi bendir á að í prófreglum, sem bæði sé að finna í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla og á vef PT, komi hins vegar fram að kennari skuli leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs og að próf fari því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara. Ákvæði aðalnámskrár um prófreglur fyrir hljóðfærapróf hljóti að vega þyngra en starfsreglur PT. Því hefði prófdómarinn átt að stöðva prófið áður en nemandinn hóf það.

Þá er í kæru tónlistarskólans vísað til þeirrar prófreglu að kennari skuli gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár. Í því sambandi er áréttað að kennari A hafi áður sent nemendur í grunnpróf með sömu efnisskrá án nokkurra athugasemda. Megi því ljóst vera að kennarinn hafi verið í góðri trú um efnisskrána.

Kærandi tekur fram að prófdómari virðist helst setja fyrir sig þær nótur að prófverkefnunum sem kennari lagði fyrir. Sú gagnrýni beinist fyrst og fremst að kennara A þar sem engin artikúlasjón eða hraðafyrirmæli voru á þeim nótum sem prófdómari fékk afhentar. A virðist þó samkvæmt umsögn prófdómara hafa sýnt dýnamíska spilamennsku, svo sem umsögn prófdómara um Tónverk II, Tónverk III og Heildarsvip beri með sér. Síðan segir í kærunni:

„Af þessum umælum að dæma má ljóst vera að A hefur sannarlega sýnt dýnamik í spilamennsku sinni á prófi enda sýnir einkunnagjöf og umsögn það ótvírætt. Ég sat sjálf prófið og get vitnað þar um. Því tel ég að prófdómari leggi of mikla áherslu á ófullkomnar nótur. Nóturnar hljóta að vera aðgreindar frá því hvernig próftaki spilar. Því tel ég að A eigi ekki að líða fyrir það sem prófdómara finnst um hlut kennara varðandi þetta klarinettupróf og að öll rök bendi til að prófið eigi að vera dæmt gilt. Viðkomandi prófdómari dæmdi nokkur próf hér við skólann, auk klarínettuprófsins dæmdi hann einnig píanógrunnpróf og sönggrunnpróf en hann er sérfræðingur eða fagdómari blásturshljóðfæra. Sú nálgun að prófdómari þurfi ekki að vera sérfræðingur á sitt hljóðfæri í grunnprófi hefur m.a. byggst á því að prófdómari eigi eingöngu að dæma það sem hann heyrir en það sé t.d. ekki í hlutverki prófdómara að dæma atriði eins og munnstöðu, fingrasetningu eða handstöðu. Gagnrýni á þær nótur sem prófdómarinn fékk í hendur ætti enn síður að vera hluti af niðurstöðum prófdæmingu.“

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til PT. Þá geta þessir aðilar kært til PT ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði PT skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í almennum prófreglum fyrir hljóðfæra- og tónfræðapróf, sem er að finna í aðalnámskrá tónlistarskóla, segir í 1. lið:

„Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum.“

Í prófreglum fyrir hljóðfærapróf í sama riti, segir í 2. og 3. lið:

„Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár.“ ... „Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta.“

Í greinanámskrám er síðan að finna upplýsingar um hvaða markmiðum nemendur skulu hafa náð við lok námsáfanga og þyngdarstig áfangaprófa áréttað enn frekar með dæmum um prófverkefni.

Við undirbúning áfangaprófa gengur PT út frá því að prófverkefni séu valin í samræmi við framanrituð ákvæði og að þyngdarstig þeirra sé hæfilegt. Því lætur PT almennt ekki fara yfir prófverkefni fyrir próf, nema þess sé sérstaklega óskað og þurfa þá nótur af prófverkefnum að fylgja slíkri beiðni. Slík beiðni kom ekki frá tónlistarskólans T í því tilviki sem hér um ræðir.

3.

Víkur þá að því ákvæði prófreglna sem vitnað er til í kæru, þ.e. 8. lið prófreglna fyrir hljóðfærapróf. Þar segir:

„Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara.“

Eftir því sem fram kemur í kæru tónlistarskólans vill skólinn skilja þennan lið prófreglnanna bókstaflega þannig að prófdómara beri, áður en gengið er til próftöku, ekki einasta að leggja mat á prófverkefni heldur einnig að staðfesta að verkefnin uppfylli kröfur viðkomandi greinanámskrár. Skuli prófið ekki fara fram nema prófdómari staðfesti mat sitt um þetta. Í kærunni virðist gengið út frá því að staðfestingin geti verið látin uppi með þegjandi hætti, þ.e. að prófdómari geri ekki athugasemdir áður en próftakan hefjist. Er því þá látið ósvöruðu hvernig skuli við bregðast ef prófdómari verður þess áskynja í miðju prófi að ekki sé allt með felldu.

Ljóst má vera að ekki er framkvæmanlegt að leggja mat á prófverkefni með tilliti til þyngdarstigs samkvæmt kröfum námskrár – og síst ef ætlunin væri að mat og staðfesting prófdómara hefði bindandi áhrif – nema prófdómari fái með hæfilegum fyrirvara í hendur nákvæmar upplýsingar um inntak allra viðeigandi prófþátta, svo sem nótur af tónverkum og tækniæfingum og lýsingu á valverkefni, þannig að unnt sé að leggja mat á verkefnin áður en komið er á prófstað. Hér verður að hafa í huga að samkvæmt reglum aðalnámskrár eru ekki allir prófdómarar á grunn- og miðprófum sérfræðingar á viðkomandi hljóðfæri. Raunar má telja að jafnvel þótt um sérfræðing sé að ræða verði ekki gerð sú krafa að prófdómari þekki fyrirfram til prófverkefna og geti metið þau eingöngu á grundvelli upplýsinga um heiti verka og höfund.

Strax við undirbúning fyrstu prófa á vegum PT vorið 2004 varð ljóst að hvorki væri framkvæmanlegt né skynsamlegt að leggja upp með þá framkvæmd prófreglunnar í 8. lið að skólar yrðu ætíð að senda nótur og önnur gögn með prófbeiðnum þannig að unnt væri að meta verkefnin fyrirfram. Blasti við að slík framkvæmd yrði þung í vöfum og kostnaðarsöm, enda myndi hún útheimta umstang og aukna vinnu bæði fyrir skólana, PT og prófdómara, sem mæta yrði með hærra prófgjaldi en ella. Allra hluta vegna væri því heppilegra að treysta mati skólanna sjálfra, þar til annað kæmi í ljós, og túlka prófregluna í samræmi við það, enda bera skólanir samkvæmt öðrum ákvæðum prófreglnanna ábyrgð á því að verkefnin séu fullnægjandi, eins og fram er komið.

Meðal annars af þessum ástæðum hefur verið farið nokkuð vægar í sakirnar við framkvæmd PT á umræddu ákvæði prófreglna en orðalag ákvæðisins gefur tilefni til. Var sú framkvæmd ákveðin þegar á árinu 2004 í samráði við menntamálaráðuneytið. Hefur í þessum efnum annars vegar verið byggt á þeirri túlkun á greindu ákvæði prófreglnanna að fyrirmæli um að leggja „verkefnalista“ fyrir prófdómara „fyrir upphaf prófs“ fælu ekki í sér annað og meira en það að þegar á prófstað væri komið hefði prófdómari upplýsingar um heiti prófverka og höfund, sbr. venjulega tilgreiningu í prófbeiðnum skóla. Hins vegar byggir verklag PT á þeirri túlkun að skilja beri orðasambandið „próf fer því aðeins fram“ í síðari málslið ákvæðisins þannig að „próf“ teldist ekki vera áfangapróf í skilningi námskrár nema prófverkefni væru í samræmi við kröfur viðeigandi greinanámskrár að mati prófdómara, hvort sem nemandinn hefði leikið verkefnin eða ekki. Eins og nánar verður vikið að í 4. hér að neðan var einnig talið að þessi túlkun gæfi kost á mildari framkvæmd reglunnar gagnvart próftökum heldur en ef beitt væri ströngustu bókstafstúlkun.

4.

Eins og fram kemur í kæru taka verklagsreglur PT á því tilviki þegar prófdómari telur að prófverkefni samrýmist ekki þyngdarstigi prófs eða falli að öðru leyti ekki að ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Verklagsregla um þetta efni byggir á þeirri túlkun fyrrgreinds 8. liðar prófreglna sem gerð er grein fyrir að framan. Um þetta segir í verklagsreglum:

„Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar.“

Samkvæmt verklagsreglum PT er því ekki eingöngu hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni sé í samræmi við reglur aðalnámskrár tónlistarskóla, heldur er gengið út frá því að PT geti hnekkt áliti prófdómara um slík atriði, eftir atvikum á grundvelli ráðgjafar sérfræðinga á viðkomandi hljóðfæri, við útgáfu vitnisburðarblaðs. Sé talið að athugasemd prófdómara eigi við rök að styðjast er sú niðurstaða tilkynnt tónlistarskólanum með formlegum hætti í tengslum við útgáfu vitnisburðarblaðs eða annars vitnisburðar. Þetta girðir á engan hátt fyrir það að taka má niðurstöðu prófdómara til endurmats við kærumeðferð í samræmi við ákvæði 6. gr. skipulagsskrár PT.

Auk annarra ástæðna býr það að baki framangreindu verklagi að talið er að það sé viðurhlutaminna fyrir nemanda að fá að ljúka því prófi sem hann hefur undirbúið, þótt annmarkar kunni að vera á prófverkefnum, einu eða fleirum, í stað þess að vera snúið frá prófi sökum mats prófdómara á verkefnunum. Eins og fyrr segir fær hvorki PT né prófdómari nótur af prófverkefnum sendar fyrirfram, þannig að unnt sé að leggja mat á þau áður en komið er að prófi. Reynslan sýnir að prófdómara kann að skjátlast í mati sínu á verkefnunum, þannig að athugasemd um þyngdarstig o.fl. reynist ekki eiga við rök að styðjast. Er augljóst að upp væri komin algjörlega ófær staða gagnvart nemandanum ef honum hefði ranglega verið snúið frá prófi.

Loks gefur þessi framkvæmd færi á því að beita vægari úrræðum vegna ágalla á prófi en því að hafna því í heild sem gildu áfangaprófi. Af hálfu PT hefur ekki verið litið svo á að hvers konar annmarkar á efnisskrá prófs valdi því að telja verði það ófullnægjandi sem áfangapróf. Hefur þetta verið metið hverju sinni og þá m.a. höfð hliðsjón af verkefnavali á prófinu í heild. Hins vegar kann að koma til þess að einkunn fyrir tiltekinn prófþátt er felld niður eða ákveðinn sérstakur frádráttur frá heildareinkunn. Sama gildir þegar annmarkar á prófi lúta ekki beint að verkefnavali, heldur t.d. því að ekkert verk er flutt utanbókar eða að valverkefni samræmist ekki ákvæðum námskrár. Við sérstakar aðstæður kann að þykja nægilegt að benda viðkomandi tónlistarskóla á að gera úrbætur í verkefnavali á áfangaprófum. Kom iðulega til þess á fyrstu starfsárum PT þegar ljóst þótti að um byrjunarörðugleika væri að ræða. Við val á úrræðum hefur þótt skipta máli hvort um grunnpróf er að ræða eða próf úr hærra stigi tónlistarnámsins.

Skilja má umfjöllun í kæru þannig að dregið sé í efa að PT sé heimilt að skýra og túlka ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla. Um þetta er það að segja að í almennum hluta aðalnámskrár er beinlínis tekið fram að frekari útfærsla á samræmingu mats og prófdæmingar sé í höndum „nefndar á vegum tónlistarskóla, rekstraraðila þeirra og menntamálaráðuneytis“, svo sem segir í neðanmálsgrein á bls. 33 í prentaðri útgáfu námskrárinnar. Að mati PT fer því ekki á milli mála að nefndinni er fyllilega heimilt að ákveða um einstök útfærsluatriði áfangaprófa. Verður að telja jákvætt og í þágu allra tónlistarskóla til lengri tíma að slíkur sveigjanleiki sé til staðar.

Bent skal á að þegar kom að útgáfu námskrár í rytmískri tónlist á árinu 2010 þótti ástæða til þess að orða það ákvæði prófreglna, sem ræðir um hér að framan, með öðrum hætti en í almennum hluta aðalnámskrár. Í námskrá í rytmískri tónlist eru birtar helstu efnisreglur aðalnámskrár varðandi almenn atriði tónlistarnáms, m.a. prófreglur. Þar er að finna svohljóðandi ákvæði (9. liður) í prófreglum fyrir hljóðfærapróf:

„Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara ber honum að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar tónlistarskóla sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti.“

Samkvæmt þessu ber ekki saman orðalagi í prófreglum annars vegar í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla og hins vegar í námskrá í rytmískri tónlist. Augljóst er þó að ekki er ætlast til þess að framkvæmd prófa sé mismunandi eftir tegund tónlistar. Svo hefur heldur ekki verið. Fer ekki á milli mála að orðalag í prófreglum í námskrá í rytmískri tónlist var ákveðið með hliðsjón af þeirri túlkun og framkvæmd sem mótuð hafði verið við framkvæmd áfangaprófa í klassískri tónlist.

5.

Það leiðir af því sem hér hefur verið rakið að ekki er fallist á það með kæranda að ósamræmi sé milli prófreglna aðalnámskrár og umræddrar verklagsreglu PT um framkvæmd áfangaprófa. Réttara er að líta svo á að verklagsreglan feli í sér ákveðna túlkun á prófreglunni. Framkvæmd PT á prófreglunni horfir til hagsmuna nemandans sem í hlut á, enda er hún síður íþyngjandi fyrir hann en leiðir af strangri túlkun reglunnar, auk þess sem verklagið er til þess fallið að niðurstaða um þyngdarstig verði sem réttust og gefur möguleika á að beita bæði fleiri og mildari úrræðum en því einu að stöðva framkvæmd prófs.

Vegna umfjöllunar í kæru að öðru leyti um verklag PT skal tekið fram að ekki verður fallist á það með kæranda að enginn möguleiki sé á því að hagga við gildi prófs sem áfangaprófs eftir að nemandi hefur lokið flutningi prófverkefna, enda verður sá skilningur ekki leiddur af orðalagi prófreglna námskrár og kemur ekki fram í verklagsreglum PT. Áralöng framkvæmd er fyrir öðru, svo sem fyrr segir. Það er fyrst eftir að niðurstaða um próf hefur verið tilkynnt skóla/nemanda með útgáfu vitnisburðarblaðs að hún er bindandi og verður ekki breytt nema með kærumeðferð samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár PT.

Eins og fyrr segir hefur umrætt verklag PT legið fyrir frá því áður en áfangapróf á vegum prófdómara nefndarinnar fóru fyrst fram vorið 2004. Þessi framkvæmd hefur einnig verið rækilega kynnt tónlistarskólum á undanförnum árum, bæði á fundum fulltrúaráðs, með orðsendingum til tónlistarskóla og á vef PT. Um hana er jafnframt fjallað í úrskurði PT nr. 18 frá 15. júlí 2008, sem birtur er á vef nefndarinnar, en atvik í því máli voru með hliðstæðum hætti og í tilviki A. Verður því að ganga út frá því að kærandi hafi mæta vel þekkt til vinnulags PT og prófdómara á vegum nefndarinnar, hvað varðar þá þætti sem hér um ræðir, þegar beðið var um klarínettuprófið fyrir A. Í prófbeiðni kom ekki fram neinn fyrirvari hvað þetta varðar, en slíkan fyrirvara hefði raunar orðið að skilja sem beiðni um að lagt yrði sérstakt mat á prófverkefnin fyrirfram.

6.

Eins og fram er komið gerði prófdómari þá athugasemd vegna prófs A að þyngdarstig fjögurra verkefna, þ.e. allra tónverkanna þriggja svo og æfingarinnar, hefði ekki verið í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla. Að athuguðu máli og eftir að hafa leitað umsagnar sérfræðings í klarínettuleik gaf PT ekki út vitnisburðarblað um grunnpróf í tilviki A heldur sérstakt vitnisburðarblað um prófið. Í þessum efnum var fylgt verklagi PT svo sem rakið hefur verið. Með athugasemdum sínum telst prófdómari því hafa hafnað verkefnalista prófs A, sbr. tilvitnað ákvæði í skipulagsskrá PT, og er þar um að ræða ákvörðun prófdómara sem sætir kæru til PT.

Af hálfu kæranda er því ekki haldið fram, svo sem með samanburði við verk sem tilgreind eru í námskrá sem dæmi um prófverkefni á grunnprófi í klarínettuleik, að umrædd fjögur prófverkefni hafi verið fullnægjandi prófverkefni á grunnprófi. Er kæran fyrst og fremst byggð á því að um sé að ræða sömu efnisskrá á þessu prófi og verið hafi á tveimur öðrum grunnprófum hjá skólanum. Þau próf hafi „verið gild“, svo sem það er orðað í kærunni, og krefst kærandi þess á grundvelli jafnræðisreglu að hið sama verði látið gilda um próf A.

Kæruefni í máli þessu og sú málsástæða sem á er byggt, þ.e. að jafnræðisregla standi til þess að verða við kröfu, er með sama hætti og í úrskurði PT nr. 18 frá 15. júlí 2008 sem vikið er að hér að framan, en þar var fjallað um verkefni á grunnprófi í píanóleik. Í þeim úrskurði segir um skírskotun til jafnræðisreglu:

„Að öðru leyti þykir rökstuðningur í kærunni gefa ástæðu til að árétta að á vegum Prófanefndar fer ekki fram sérstakt eða samræmt mat á prófverkefnum á áfangaprófum, nema sérstaklega sé beðið um álit nefndarinnar fyrirfram á því hvort um fullnægjandi verkefnaval sé að ræða. Almennt er það hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni standist viðmiðanir námskrár, þó með þeim fyrirvörum sem greinir í IV-2 að framan. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að leitast sé við að gæta samræmis við mat af þessu tagi, hvort sem er milli tónlistarskóla eða innan sama skóla, enda er viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Í námskrá í píanóleik eru tilgreind dæmi um tónverk sem teljast hæfileg prófverkefni, m.a. á grunnprófi í píanóleik, og verður almennt að ganga út frá því að prófdómarar geti byggt á þeim dæmum við mat á þyngdarstigi annarra verka sem nemendur hafa undirbúið fyrir próf. Þó verður ekki skotið loku fyrir það að prófdómara kunni að yfirsjást að verk sé of létt. Einnig er hugsanlegt að prófdómari kjósi að snúa blinda auganu að of léttu verkefni ef verkefnaval er fullnægjandi að öðru leyti. Slík afgreiðsla prófdómara væri andstæð starfsreglum Prófanefndar þótt hún kynni að eiga sér nokkra hliðstæðu í niðurstöðum nefndarinnar vegna einstakra mála sem upp hafa komið, sbr. að framan. Misbrestir af þessu tagi, sem kunna að verða á störfum prófdómara gagnvart einstökum próftökum, geta þó ekki orðið til þess að aðrir nemendur geti krafist þess í skjóli jafnræðisreglu að prófdómarar haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim. Því síður getur yfirsjón prófdómara orðið til þess að viðkomandi verk teljist þar með hafa hlotið viðurkenningu sem fullgilt verkefni á áfangaprófum, þannig að vísa verði á bug athugasemdum varðandi verkið sem koma fram við prófdæmingu í öðrum tilvikum. ...“

PT áréttar framangreinda afstöðu nefndarinnar. Ekki fær staðist að of létt tónverk eða æfing, miðað við kröfur viðkomandi námsstigs, teljist vinna sér þegnrétt sem fullnægjandi prófverkefni af því námsstigi af þeirri ástæðu einni að það hefur verið leikið í eitt eða fleiri skipti á áfangaprófi án athugasemda prófdómara. Ef sú væri raunin myndi það á lengri eða skemmri tíma leiða til gengisfellingar á þyngdarstigi áfangaprófa úr viðkomandi hluta tónlistarnáms.

Samkvæmt framansögðu verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að umrædd fjögur verk hafi áður verið flutt á grunnprófum í klarínettuleik án athugasemda.

7.

Athugasemdir prófdómara varða sem fyrr segir fjögur verkefni á grunnprófi A, þ.e. tónverkin Swing Easy eftir D. McKeon, Rondeau eftir H. Purcell og What a Wonderful World eftir D. Weiss svo og æfinguna Etýða nr. 33 eftir H. Lazarus. Þessi verkefni taldi prófdómari öll of létt miðað við kröfur námskrár í klarínettuleik og var sérfræðingur í klarínettuleik á sömu skoðun. PT hefur jafnframt athugað þessi verk og rætt þau á fundi sínum. Er það mat nefndarinnar að verulega skorti á að þau samrýmist kröfum sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla til prófverkefna á grunnprófi í klarínettuleik. Eins og fram er komið er því út af fyrir sig ekki haldið fram af hálfu kæranda að verkefnin standist kröfur námskrár. Því þykir ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Í kærunni er bent á að A hafi sýnt dýnamísk tilþrif í leik sínum svo sem komi fram í umsögnum prófdómara. Um þetta er það að segja að það leiðir af verklagsreglum PT, sbr. umfjöllun að framan, að prófdómari metur og gefur fyrir flutning einstakra verka í samræmi við viðmiðanir þar um óháð því hvort hann telur verkin hæfileg að þyngd miðað við kröfur námskrár. Gæði flutnings samkvæmt mati prófdómara sker því á engan hátt úr um það hvort verkin fullnægi kröfum viðkomandi námskrár. Umfjöllun í kærunni um framangreint atriði þykir því ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Við mat á því hvort unnt sé að viðurkenna próf A sem áfangapróf (grunnpróf) í skilningi námskrár verður bæði að líta til einstakra viðfangsefna á prófinu og efnisskrár prófsins í heild sinni. Eins og rakið er að framan verður að telja að í öllum tónverkunum og æfingunni sem flutt var í prófinu víki þyngdarstig verks verulega frá viðmiðunum í námskrá. Eins og prófinu hefur verið farið samkvæmt framansögðu, þ.e. bæði fjöldi viðfangsefna sem teljast ekki fullnægjandi og að um veruleg frávik frá kröfum námskrár er að ræða í öllum þessum tilvikum, þykir ekki fært að viðurkenna próf A sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. Ber að endurtaka prófið með fullnægjandi verkefnum til þess að svo geti orðið.

Úrskurðarorð:

Próf A, sem fram fór 20. maí 2019, telst ekki hafa verið áfangapróf (grunnpróf) í skilningi aðalnámskrár tónlistarskóla.