A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 6, 19. nóvember 2005

Hinn 19. nóvember 2005 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 10. júní 2005, hefur X, skólastjóri, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 27. apríl 2005 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Með bréfi Prófanefndar tónlistarskóla, dags. 14. ágúst 2005, var kæran send prófdómara, P, til umsagnar. Álit prófdómarans barst nefndinni með bréfi, dags. 17. ágúst 2005.

II.

Hinn 27. apríl 2005 þreytti A grunnpróf í saxófónleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn Einingar




Tónverk I Góð tónmyndun og hendingamótun. Inntónun á stundum ábótavant.  12




Tónverk II Allgóður heildarsvipur. Forslögin óvenjuleg. Tónmyndun á köflum gróf. 12




Tónverk III Sannfærandi flutningur. Góður rytmi, en hefði mátt heyra meiri styrkleikabreytingar. 13




Æfing  Gott flæði og karakter. Tengibogar ónákvæmir. 12




Tónstigar og hljómar Bregst fljótt við fyrirmælum. Einstaka feilnótur. 13




Val Sannfærandi og skapandi flutningur. 9




Óundirbúinn nótnalestur Oftast réttar nótur og hrynur. 8




Heildarsvipur  Vel undirbúið próf. Meiri tónstyrkur væri eftirsóknarverður. 4




Einkunn  Stóðst grunnpróf í saxófónleik 8,3




III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla er í upphafi vikið að því að A hafi tekið próf sitt á barítón-saxófón, en það hljóðfæri sé að mörgu leyti öðruvísi en aðrir saxófónar, hann sé grófari í tón, hafi dýpsta tónsviðið og krefjist mikils loftflæðis. Þá tekur kærandi fram að hann hafi verið viðstaddur próf próftakans svo og próf tveggja klarinettnemenda sama dag. Síðan segir í kærunni:

"Öll þessi þrjú próf voru að mínu mati stór-glæsileg og að flestu leyti sambærilega vel leikin. Ég hef langa og víðtæka reynslu sem prófdómari og nokkur námskeið þar að baki, en að vísu í gamla stigakerfinu. Próf er þó alltaf próf og ég tel mig geta lagt mat á þau sem ég heyri, þótt um nýtt fyrirkomulag sé að ræða, enda viðmiðanir fyrir einkunnagjöf mjög skilmerkilega settar fram af prófanefndinni og því gott að átta sig á helstu áhersluatriðum. En klarinettnemendurnir fengu 8,9 og 9,5 en A fékk 8,3. Það á ég erfitt með að skilja, því ef eitthvað var, þá lék A betur en klarinettnemandinn sem fékk 8,9. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort þarna geti verið um að ræða vanþekkingu prófdómarans á barítónsaxófóninum og sérkennum hans og þeim annmörkum sem þetta hljóðfæri hefur, sérstaklega fyrir nemendur á fyrstu árunum."

Í framhaldi af þessu er í kærunni fjallað um umsögn prófdómara og einkunnagjöf í sex prófliðum.

Um prófliðinn Tónverk I er í kærunni vikið að þeirri umsögn prófdómara að inntónun hafi á stundum verið ábótavant. Eðlilegt sé að inntónun sé stundum ábótavant við lok grunnnáms í baritónsaxófónleik. Í aðalnámskrá segi um markmið grunnnáms að nemandi skuli hafa náð allgóðum tökum á inntónum. Ekki sé gerð krafa um fullkomin tök á inntónun. Það sé eðlilegt, þetta sé bara grunnpróf, og auk þess sé baritónsaxófónninn viðkvæmur í inntónun. Sé gróft að draga niður um þrjú stig vegna þess að "inntónun [sé] stundum ábótavant" þegar spilamennska sé að öðru leyti flott. Samkvæmt viðmiðunum á grunnprófi sé góð tónmyndun og hendingamótun í efsta skala.

Varðandi þá umsögn prófdómara í umfjöllun um prófliðinn Tónverk II að forslög hafi verið óvenjuleg vekur kærandi athygli á því að forslög hafi ekki verið röng. Hér sé um túlkunaratriði að ræða sem kennari og nemandi hafi sammælst um. Kærandi geri ráð fyrir að prófdómari hafi ekki dregið frá stig vegna óvenjulegra forslaga. Hann dragi því þrjú slög frá vegna þess að tónmyndun sé gróf. Varpar kærandi fram þeirri spurningu hvernig tónmyndun geti verið annað en gróf á köflum. Prófið sé tekið á baritónsaxófón sem sé gróft hljóðfæri og einungis um grunnpróf að ræða. Próftaki hafi spilað mjög vel og telji kærandi því gagnrýnisvert að draga þrjú stig frá vegna "grófrar" tónmyndunar.

Að því er varðar prófliðinn Æfingar er í kærunni gerð athugasemd við að þrjú stig hafi verið dregin frá sökum þess að ónákvæmni hafi gætt í tengibogum. Megi spyrja hvort vegi þyngra, gott flæði og karakter, þ.e. flott túlkun og spilamennska, eða það að einn og einn tengibogi hafi verið aðeins of stuttur eða langur.

Kærandi kveðst vera sérdeilis undrandi á einkunnagjöf um prófliðinn Tónstigar og hljómar, enda hafi hann sjaldan heyrt annan eins glæsileik á tónstigum og hljómum og hjá próftaka á þessu prófi. Hún hafi spilað tónstigana og hljómana strax og um hafi verið beðið, það hafi verið sérlega glæsilegur hraði á þeim, þeir verið fallega mótaðir, sem sjaldan heyrist hjá nemendum á þessu námsstigi, öndun hafi verið vel skipulögð og hún hafi spilað og haft á valdi sínu dýpra tónsvið en flestir á þessu stigi (djúpa A). Hún hafi þurft að hugsa sig aðeins um í einhverjum moll-tóntegundum áður en hún lagði af stað í þá tónstiga, en það hafi alls ekki verið óeðlilegur umhugsunartími og þar hafi slysast inn ein og ein feilnóta. Próftaki hafi þó ekki stoppað, heldur haldið sínu striki; hraða og frábæru flæði og öryggi. Varpar kærandi fram þeirri spurningu hvernig grunnprófsnemendur þurfi að spila til að fá 14.

Valverkefni próftaka hafi verið stórglæsilegt, enda vitni umsögn prófdómarans um það. Spyr kærandi hvað það sé sem komi í veg fyrir notkun alls einkunnaskalans (10 einingar).

Kærandi kveðst vera afar undrandi á seinnihluta umsagnar um Heildarsvip, enda hafi próftaki ekki spilað máttleysislega. Hún hafi þróttmikinn tón og hafi spilað þannig á prófinu. Auðvitað sé mikill tónstyrkur eftirsóknarverður, en miðað við að hér sé um að ræða nemanda við lok grunnnáms þá hafi próftaki flottan og mikinn tón.

Í niðurlagi kærunnar áréttar kærandi að hann sé ósáttur við það ósamræmi sem sé í einkunnagjöf á milli greindra þriggja nemenda, en þeir hafi allir spilað sín próf í svipuðum gæðaflokki þótt einn hefði verið öruggastur. Sé farið fram á að umsagnir prófdómara og einkunnagjöf á prófi A verði endurskoðuð með hliðsjón af athugasemdum í kærunni.

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 17. ágúst 2005, segir m.a.:

"Í bréfi til Prófanefndar óskar X skólastjóri eftir því að umsagnir og einkunnagjöf í ofangreindu prófi verði endurskoðaðar. Ástæðan virðist fyrst og fremst vera að hann telur ósamræmi á milli einkunnagjafar í þessu prófi annars vegar og einkunnagjafar í tveimur grunnprófum á klarinett sem þreytt voru sama dag. Þegar ég ber umsagnir og einkunnagjöf í þessu saxófónprófi saman við þær leiðbeiningar og þau viðmið sem kennd hafa verið á námskeiðum fyrir prófdómara þá sé ég ekki að þar sé innbyrðis ósamræmi til staðar sem gefur tilefni til endurskoðunar. ...

Að X sé ósammála mér þegar kemur að frammistöðu og heildareinkunn nemanda á mismunandi hljóðfæri er vissulega miður en getur á engan hátt verið ástæða til að endurskoða einkunnagjöf skv. skipulagsskrá prófanefndar."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í kærunni eru gerðar athugasemdir við umsögn prófdómara og einkunnagjöf (einingar) í sex prófþáttum af átta í prófi A. Telja verður að kæran varði fyrst og fremst meint misræmi á milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar í greindum prófþáttum og að krafa kæranda sé sú að töluleg einkunn (einingar) fyrir þessa prófþætti verði hækkuð í samræmi við umsögn prófdómara. Í þessu sambandi kemur fram af hálfu kæranda að hann telur athugasemdir prófdómara um atriði, sem betur hefðu mátt fara í flutningi próftaka, ekki gefa tilefni til þess að fara ekki hærra í einkunnagjöf, svo sem nánar er rökstutt.

Að nokkru leyti er í kærunni fundið að mati prófdómarans með samanburði við einkunnagjöf hans á prófum tveggja klarínettunemenda sama dag. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að leitast sé við að gæta samræmis milli einkunnagjafar einstakra nemenda, hvort sem er milli tónlistarskóla eða innan sama skóla, enda er viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Þjálfun prófdómara á vegum Prófanefndar tónlistarskóla beinist sérstaklega að þessum atriðum og til að auka áreiðanleika og samræmi í mati á tónlistarflutningi hefur Prófanefnd samið viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum í hljóðfæraleik og einsöng sem prófdómurum á vegum nefndarinnar er ætlað að nota við mat á frammistöðu nemenda.

Þrátt fyrir eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk Prófanefndar tónlistarskóla samkvæmt skipulagsskrá ræðst einkunnagjöf hverju sinni af heildstæðu mati prófdómara á frammistöðu próftaka við flutning viðkomandi prófþáttar. Því verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til Prófanefndar, svo sem tekið er fram í 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd, nema misræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar. Því verður að taka athugasemdir kæranda, sem lúta að meintu misræmi milli nemenda, til athugunar og umfjöllunar á öðrum vettvangi eftir því sem tilefni þykir til, m.a. í fræðslustarfi nefndarinnar fyrir prófdómara, en í því sambandi verður að hafa í huga að allur samanburður af því tagi sem fram kemur í kæru er erfiðleikum háður, ekki síst þar sem um tvenns konar hljóðfæri er að ræða. Vegna umfjöllunar kæranda um þekkingu prófdómarans er ástæða til að taka fram að ekki verður vefengt að P, prófdómari, hafi fullnægt kröfum aðalnámskrár tónlistarskóla til að dæma á viðkomandi prófi. Þá er rétt að fram komi að Prófanefnd er kunnugt um það að hann hafi reynslu af saxófónleik og kennslu á saxófón.

Samkvæmt framansögðu verður í úrskurði þessum eingöngu tekin afstaða til kröfugerðar kæranda á þeim grundvelli hvort misræmi hafi verið milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar í prófi A í greindum prófþáttum. Að því er varðar meint misræmi milli umsagnar og einkunna er þess að geta að í viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans.

3.

Til þess að hljóta einkunnina 14 eða 15 í flutningi tónverka og æfinga þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Sannfærandi flutningur
  • Tæknilegt öryggi
  • Gott vald á inntónun, tónmyndun og mótun
  • Góð tilfinning fyrir hendingamótun og styrkleikabreytingum
  • Góð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ
  • Góð tilfinning fyrir hryn
  • Sannfærandi hraðaval

Til þess að hljóta einkunnina 12 eða 13 þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Allgóður heildarsvipur
  • Allgott tæknilegt öryggi
  • Allgott vald á inntónun, tónmyndun og mótun
  • Styrkleikabreytingar og hendingamótun greinileg
  • Allgóð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ
  • Allgóð tilfinning fyrir hryn
  • Viðeigandi hraði og festa

Einkunn A í prófþáttunum Tónverk I, Tónverk II og Æfing var í öllum tilvikum 12. Í skriflegri umsögn prófdómara vegna allra prófþáttanna er getið bæði jákvæðra atriða og atriða sem að mati prófdómara draga einkunnagjöf niður. Eins og fram kemur hjá kæranda er umsögn prófdómara um góða tónmyndun og hendingamótun í Tónverki I í samræmi við viðmiðanir fyrir efstu einkunnir (14 eða 15) en þar sem prófdómari hefur talið ástæðu til aðfinnslu vegna inntónunar er eðlilegt að töluleg einkunn hafi verið lægri en það. Sama er að segja varðandi umsögn prófdómara um flutning æfingar. Umsögn um "gott flæði og karakter" er án annarra atriða í samræmi við viðmiðanir í efsta einkunnaflokki, en þar sem prófdómari taldi jafnframt efni til athugasemdar um tengiboga er ekki óeðlilegt að einkunn sé lægri en það. Þá er til þess að líta varðandi prófþættina Tónverk I og Æfing að aðfinnsluatriði prófdómara eru þess eðlis að þau svara ein sér til lægri einkunnar en gefin var. Að þessu athuguðu verður ekki fundið að því að neðri einkunn í næst efsta einkunnaflokki hafi verið gefin.

Umsögnin "allgóður heildarsvipur" um prófþáttinn Tónverk II er í samræmi við viðmiðunarreglur fyrir næst efsta flokk einkunna (12 eða 13), en þar til viðbótar gerði prófdómari athugasemd um tónmyndun svo sem fram er komið. Er því ekki óeðlilegt að neðri einkunn í þeim flokki hafi verið gefin.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki talið að tilefni sé til að hagga við einkunnagjöf varðandi fyrrgreinda prófþætti.

4.

Til þess að hljóta einkunnina 14 eða 15 í leik tónstiga og hljóma þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Öruggt og áreynslulaust
  • Gott flæði
  • Gott vald á inntónun, tónmyndun og mótun
  • Bregst fljótt við fyrirmælum

Til þess að hljóta einkunnina 12 eða 13 þarf leikur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Vel undirbúið
  • Allgott flæði
  • Einstaka feilnótur
  • Þarfnast of langs umhugsunartíma í einstaka tilvikum

Í umsögn prófdómara um leik Tónstiga og hljóma koma fram atriði sem bæði falla í efsta einkunnaflokk (14 eða 15) og næst efsta flokk (12 eða 13). Gera verður þá athugasemd við umsögnina að hún er í knappara lagi og hefði verið æskilegt að fram kæmi með skýrari hætti hvað hefur ráðið því að einkunn var gefin í næst efsta flokki. Með tilliti til þess að gefin var efri einkunn í þeim flokki verður þó ekki talið að um greinilegt ósamræmi sé að ræða í umsögn prófdómara og einkunnagjöf um þennan prófþátt. Vegna þess sem fram kemur í kæru að próftaki hafi leikið tónstiga á víðara tónsviði en gert er ráð fyrir í námskrá skal tekið fram að það að nemandi takist á við erfiðara verkefni en skylt er hækkar út af fyrir sig ekki einkunn nemanda frá því sem ella hefði verið.

5.

Til þess að hljóta einkunnina 9 eða 10 fyrir valverkefni þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Sannfærandi og skapandi flutningur
  • Tæknilegt öryggi
  • Greinileg tilfinning fyrir eðlilegri framvindu, formi og jafnvægi
  • Góð tilfinning fyrir tóntegund og hljómferli
  • Skapandi og áhugaverð laglína eða hrynur
  • Frumleiki og óvænt að einhverju marki
  • Greinileg tilfinning fyrir samspili radda, hendinga og hljóðfæraleikara

Í umsögn prófdómara um valverkefni kom fram að flutningur próftaka væri skapandi og sannfærandi. Miðað við orðan umsagnarinnar kemur ekki svo skýrt fram sem skyldi hvað hefur ráðið því að gefin var lægri einkunnin í efsta flokki og í áliti prófdómara í bréfi til Prófanefndar, dags. 17. ágúst 2005, er ekki að finna sérstakar skýringar á þessu. Þar sem einkunn fellur innan viðmiðunarflokks verður þó ekki talið að um greinilegt ósamræmi sé að ræða í umsögn prófdómara og einkunnagjöf um þennan prófþátt, enda verður almennt að ganga út frá því að mat prófdómara, sem byggt er á heildstæðu mati á flutningi viðkomandi prófþáttar, ráði því hvor einkunnin er gefin innan viðmiðunarflokks, þ.e. 9 eða 10 í þessu tilviki. Að þessu athuguðu og þar sem prófdómari hefur ekki talið ábendingar í kæru gefa tilefni til þess að endurmeta niðurstöðu sína verður ekki talið að tilefni sé til að hagga við einkunnagjöf varðandi þennan prófþátt.

6.

Af hálfu kærenda er því út af fyrir sig ekki haldið fram að ósamræmi sé milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) varðandi prófþáttinn Heildarsvipur, heldur er fundið að athugasemd prófdómarans um tónstyrk. Telja verður að hér sé um að ræða kæruatriði sem ekki fellur undir úrskurðarvald Prófanefndar eins og það er markað í skipulagsskrá fyrir nefndina. Að svo vöxnu og þar sem ekki verður annað séð en að samræmi hafi verið milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar um þennan prófþátt gefur þetta kæruatriði ekki tilefni til frekari umfjöllunar í úrskurði þessum.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A 27. apríl 2005 stendur óhaggað án athugasemda.