A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 22, 9. desember 2008

Hinn 9. desember 2008 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með kæru, dags. 1. júní 2008, hafa B og C, kært niðurstöðu áfangaprófs sem dóttir þeirra, A, þreytti hinn 2. maí 2008 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 2. maí 2008 þreytti A miðpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi::

Verkefni     Umsögn Einingar
Tónverk I Góður léttleiki og flæði einkenndi flutning verks, allgott tæknilegt öryggi.  13
Tónverk II Viðunandi heildarsvipur, falleg hendingamótun. Öryggi aðeins ábótavant, pedalnotun gæti verið skýrari, tempó óstöðugt í heildina, rangar nótur í t. 10 og t. 104. 11
Tónverk III Margt fallega gert, þó var pedalnotkun ábótavant og hljómar ekki nógu vel saman milli handa, röng nóta í vinstri tvisvar sinnum í t. 20. 12
Æfing  Sannfærandi. 15
Tónstigar og hljómar Vel undirbúið en einstaka feilnótur. Efla þarf færni í brotnum hljómum og arpeggíum. 12
Val  Ágætur léttleiki og tilfinning fyrir stíl, hægri nokkuð óskýr víða, herslumun vantaði á öryggi. 7
Óundirbúinn nótnalestur Hikandi, þó yfirleitt réttar nótur og hrynur, rangar nótur í t. 3–4, t. 5 og t. 11. 6
Heildarsvipur  Margt fallega gert, sérstaklega voru Kabalevsky og Daquin sannfærandi. Hins vegar þarf að efla skýrleika og snerpu í báðum höndum, pedalnotkun, nákvæmni og blaðlestur. 3
Einkunn  7,9
III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla benda kærendur á að prófdómari leggi talsverða áherslu á nákvæmni og tækni, og tiltaki t.d. oft feilnótur og óskýra pedalnotkun. Hins vegar sakni kærendur meiri umfjöllunar um atriði eins og stíl, styrkleikabreytingar, mótun og blæ, sem þó sé gert hátt undir höfði í viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf. Þá sé óljóst af umsögnum hvort það sé metið að nemandinn hafi spilað öll lög utan að, en samkvæmt kröfum Prófanefndar sé ætlast til þess að í það minnsta eitt lag eða æfing sé leikin án nótna. Einnig telja kærendur það skjóta skökku við að prófdómari gefi 3 einingar af 5 mögulegum í heildarsvip sem sé mun lægra en meðaltal allra hinna prófþáttanna til samans.

Kærendur fara fram á að einkunn á prófi A verði endurskoðuð með tilliti til fyrrgreindra þátta.

IV.

Í greinargerð P til Prófanefndar, dags. 31. júlí 2008, kemur fram að hún telji rétt að hækka einkunn fyrir heildarsvip úr 3 í 4 til samræmis við niðurstöður prófsins að öðru leyti.

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í kæru er farið fram á það með almennum hætti að einkunnagjöf prófdómara á áfangaprófi A verði endurskoðuð með tilliti til þeirra aðfinnsluatriða sem fram koma í kærunni, en þau eru þrjú. Í fyrsta lagi finna kærendur að því að í umsögnum prófdómara sé takmörkuð umfjöllun um atriði eins og stíl, styrkleikabreytingar, mótun og blæ, en talsverð áhersla hins vegar lögð á nákvæmni og tækni, í öðru lagi telja kærendur að ekki komi fram í umsögnum prófdómara hvort eða hvernig það sé metið að öll lög hafi verið leikin utan að og í þriðja lagi gera kærendur athugasemd við meint misræmi milli einkunnar fyrir heildarsvip og einkunnagjafar að öðru leyti. Að frátalinni síðastgreindri athugasemd varðandi heildarsvip kemur ekki fram í kærunni hvaða einstök viðfangsefni á prófinu kærendur telja að hafi verið metin of hart af hálfu prófdómara.

Í greinargerð prófdómara kemur fram að rétt sé að hækka einkunn fyrir heildarsvip með tilliti til niðurstöðu um aðra prófþætti og fellst prófdómari samkvæmt því á þann þátt í kærunni sem lýtur að misræmi milli einkunnar fyrir heildarsvip og einkunna fyrir aðra prófþætti. Að öðru leyti fjallar prófdómari í greinargerð ekki um kröfu kærenda og rökstuðning fyrir henni sem verður að skilja þannig að prófdómari telji kæruna ekki gefa tilefni til breytinga á niðurstöðum prófs um aðra prófþætti en heildarsvip.

3.

Prófdómara ber að gera grein fyrir mati sínu á hverjum þætti áfangaprófs með skriflegri umsögn og tölum. Samkvæmt prófreglum skal bæði koma fram í umsögn hvað vel var gert og hvað betur hefði mátt fara. Er umsögn þannig ætlað að skýra þá einkunn sem gefin er fyrir viðkomandi prófþátt. Ljóst er að athugasemd kærenda um skort á umfjöllun m.a. um stíl, styrkleikabreytingar, mótun og blæ í umsögnum prófdómara felur í sér það álit kærenda að ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til þessara atriða í umsögnum prófdómara og einkunnagjöf.

Af þessu tilefni er ástæða til að taka fram að viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangi á áfangaprófum er mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Þjálfun prófdómara á vegum Prófanefndar tónlistarskóla beinist sérstaklega að þessum atriðum og til að auka áreiðanleika og samræmi í mati á tónlistarflutningi hefur Prófanefnd samið viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum í hljóðfæraleik og einsöng sem prófdómurum á vegum nefndarinnar er ætlað að nota við mat á frammistöðu nemenda. Þrátt fyrir eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk Prófanefndar tónlistarskóla samkvæmt skipulagsskrá ræðst einkunnagjöf hverju sinni af heildstæðu mati prófdómara á frammistöðu próftaka við flutning viðkomandi prófþáttar. Því verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til Prófanefndar, svo sem tekið er fram í 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd, nema greinilegt ósamræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar. Af sömu ástæðu verður umsögn prófdómara ekki endurmetin eða felld niður með úrskurði Prófanefndar nema fyrir liggi að hún sé byggð á röngum eða ófullnægjandi forsendum.

Vegna fyrrgreindra athugasemda kærenda um að tiltekin atriði, sem tilgreind eru í viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf, komi ekki fram í umsögn prófdómara er þess að geta að í viðmiðunarreglum Prófanefndar kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans. Í umsögnum prófdómara á prófi A er bæði gerð grein fyrir atriðum sem prófdómara þóttu vel af hendi leyst og því sem hann taldi að betur hefði mátt fara. Umsagnirnar eru því að þessu leyti í samræmi við prófreglur. Þá verður ekki séð að prófdómari hafi í neinu tilviki byggt umsögn á atriðum sem ekki eru í samræmi við þann grundvöll fyrir einkunnagjöf sem tilgreindur er í viðmiðunum Prófanefndar. Loks er rétt að taka fram að þótt prófdómari geti ekki allra atriða í umsögnum sínum, sem vikið er að í viðmiðunum Prófanefndar, er ekki þar með hægt að draga þá ályktun að ekki sé litið til þeirra í einkunnagjöf, enda fullnægi umsögn því markmiði að skýra þá einkunn sem gefin er fyrir prófþátt. Þar sem telja verður að svo hafi verið í tilviki A og með vísan til þess sem að framan segir um úrskurðarvald Prófanefndar getur kæra í máli þessu ekki leitt til breytinga á umsögn prófdómara eða einkunnagjöf af þeirri ástæðu sem hér hefur verið fjallað um.

4.

Eins og fram kemur í kæru er mælt fyrir um það í aðalnámskrá tónlistarskóla að a.m.k. eitt verk eða æfing sé flutt utanbókar. Það verkefni, sem próftaki velur að flytja utanbókar, ber að meta með sama hætti og eftir sömu viðmiðunum og aðra þætti prófs, enda skal hver prófþáttur metinn sjálfstætt á áfangaprófi, sbr. þó það sem segir hér á eftir um heildarsvip, og er því ljóst að hvorki er heimilt að meta flutning vægar sé verkefnið flutt utanbókar né harðar sé það flutt eftir nótum. Af þessu leiðir að ekki er hægt að taka tillit til þess í einkunnagjöf um einstök verkefni þótt fleiri en eitt verk sé flutt utanbókar. Alltítt er hins vegar að prófdómarar líti til þessa atriðis þegar kemur að því að meta heildarsvip prófs, enda koma þá til athugunar atriði sem varða próf í heild eða eru sammerkt fleiri en einum prófþætti. Er nánar fjallað um þetta í lið 5 hér á eftir.

Samkvæmt framansögðu getur umfjöllun í kæru um flutning verkefna utanbókar ekki leitt til breytinga á niðurstöðu prófs A eða athugasemda við framkvæmd þess.

5.

Að því er varðar prófþáttinn Heildarsvip, sem vikið er sérstaklega að í kæru, er rétt að fram komi að samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla felst í þessum prófþætti að gefin er sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins. Má út af fyrir sig taka undir það viðhorf kærenda að niðurstaða um þennan lið, sem felur í sér heildarmat á frammistöðu próftaka, hljóti að vera í verulegri samhljóman við umsögn og einkunnagjöf um aðra prófþætti. Allt að einu koma hér til athugunar atriði sem ekki verða fyllilega metin í einkunnagjöf fyrir einstök verkefni á prófi og getur einkunn vegna þessa liðar því verið hlutfallslega hærri eða lægri en fyrir aðra prófþætti. Í greinargerð prófdómara til Prófanefndar er fallist á að einkunn fyrir þennan prófþátt hafi verið of lág og að hækka beri hana úr 3 í 4.

Til þess að hljóta einkunnina 4 í prófþættinum Heildarsvip þarf frammistaða nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Góður og markviss flutningur
  • Allörugg og að mestu viðeigandi framkoma
  • Greinilega vel undirbúið próf

Þar sem ekki verður annað séð en að sú einkunn fyrir prófþáttinn Heildarsvip, sem prófdómari leggur til, geti samrýmst umsögn prófdómara um þennan prófþátt, sbr. viðmiðanir Prófanefndar þar að lútandi, og að teknu tilliti til fram kominna upplýsinga um utanbókarleik sem bera með sér að prófið hafi verið vel undirbúið, telur Prófanefnd að efni séu til að breyta niðurstöðu prófs A, sbr. heimild í 6. gr. skipulagsskrár, að því er þennan prófþátt varðar á þann hátt sem prófdómari leggur til. Samkvæmt því hækkar einkunn nemandans úr 7,9 í 8,0.

Úrskurðarorð:

Einingagjöf í prófþættinun Heildarpróf á miðprófi A breytist úr 3 í 4. Einkunn á prófinu verður 8,0.