A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 2, 21. ágúst 2004

Hinn 21. ágúst 2004 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 11. júní 2004, hefur X, kennari A, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 17. maí 2004 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Með bréfi Prófanefndar tónlistarskóla, dags. 30. júní 2004, sem áréttað var hinn 18. ágúst 2004, var kæran send prófdómara, P, til umsagnar. Álit prófdómarans barst nefndinni með bréfi, dags. 19. ágúst 2004.

II.

Hinn 17. maí 2004 þreytti A miðpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn  Einingar
Tónverk I Fremur óstöðugt í takti og ómótað. Styrkleikabrigði engin, en kunni annars þokkalega. 9
Tónverk II Stíft fingraspil, taktur stundum vitlaus, komst þó í gegnum verkið. 9
Tónverk III Pedalnotkun ómarkviss og styrkleikabrigði varla merkjanleg, en kunni sæmilega. 9
Æfing  Talsvert ójafnt, tækni ekki fullnægjandi. 8
Tónstigar og hljómar Fremur stirt og ekki alltaf nægilega vel spilað. 9
Val Með fiðluleikara. Kunni ágætlega en píanó heldur sterkt miðað við fiðlu. 7
Óundirbúinn nótnalestur Í það heila nokkuð gott. 8
Heildarsvipur  Ekki nægilega vel mótað. Það er ekki nóg að bara kunna lögin. 2
Einkunn  Stóðst miðpróf í píanóleik 6,1
III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla segir:

"Framkvæmd prófsins var að mínu mati ekki eins og ég hefði talið eðlilegt þar sem prófdómari var ekki tilbúinn með rétt gögn í höndum þegar hann hefur prófið og bað hann því próftaka í tvígang um að leika tónstiga sem ekki voru á prófumsókninni. Hann leiðrétti þetta, en óróleikinn sem þessu fylgdi hafði auðsjáanlega mikil áhrif á próftaka, sem lék próf sitt langt undir getu.

Þá þótti mér óviðeigandi að prófdómari lýsti sér sem ströngum þegar við gengum inn í prófsalinn."

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 19. ágúst 2004, segir:

"Þegar nemandinn gekk inn í salinn átti ég stutta samræðu við kennara hans og var það mjög á gamansömum nótum. Það að ég væri strangur var hluti af þeirri umræðu. Ég hugsaði þetta sem grín til að létta stemninguna. Hafi það valdið misskilningi biðst ég að sjálfsögðu forláts.

Hvað varðar tónstigana sem ég bað um þá hafði ég þá á blaði frá Prófanefnd fyrir framan mig og því ekki við mig að sakast. En jafnvel þó ég hefði beðið um "rétta" tónstiga í hvert sinn þá tel ég að það hefði ekki breytt neinu um frammistöðu nemandans. Nemandinn kunni greinilega verkefni sín; taugaóstyrkur virtist ekki há honum neitt meira en öðrum þennan dag. Hins vegar er kunnátta nemandans það eina jákvæða sem segja má um leik hans; túlkuninni var mjög ábótavant, hún var lítið sem ekkert mótuð auk þess sem tæknileg geta var alls ekki nægileg. Auðheyrt var að þessi ófullnægjandi frammistaða var ekki aðstæðubundin heldur átti sér dýpri rætur sem rekja má til ónógs undirbúnings. Því er ekki hægt að kenna taugaóstyrk um; það eru allir taugaóstyrkir í prófum. Ég vil benda á að ég hef áður dæmt próf fyrir Prófanefnd þar sem ég hef beðið um vitlausa skala vegna þess að þeir höfðu verið rangt skráðir eða vegna þess einfaldlega að ég mismælti mig. Ekki virtist það koma niður á leik eða söng nemendanna, sem flestir stóðu sig vel og fengu einkunn samkvæmt því."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Kæruefni málsins varðar framkvæmd á áfangaprófi (miðprófi) A í píanóleik við tónlistarskólann T og lýtur nánar tiltekið að framkvæmd prófþáttarins Tónstigar og hljómar. Telur kærandi að prófdómarinn hafi ekki haft rétt gögn í höndum við próftökuna og því í tvígang beðið nemandann að leika tónstiga sem ekki hafi verið á prófbeiðni skólans til Prófanefndar. Þetta hafi haft mikil áhrif á nemandann sem hafi leikið próf sitt langt undir getu. Engar ákveðnar kröfur eru gerðar í kærunni af þessu tilefni, en að virtu kæruefninu verður þó naumast talið að kærandi telji að efni séu til þess að nemandinn endurtaki prófið. Verður kæran því skilin svo að þess sé krafist að Prófanefnd geri athugasemdir um framkvæmd prófsins.

Í bréfi prófdómara til Prófanefndar, dags. 19. ágúst 2004, er ekki borið á móti því að tónstigar hafi að hluta verið rangt skráðir í prófgögnum, en tekið fram að umrædd gögn hafi borist sér frá Prófanefnd.

Við athugun á gögnum málsins kemur í ljós að í prófbeiðni frá tónlistarskólans T, dags. 11. mars 2004, sem barst Prófanefnd tónlistarskóla í tölvupósti, eru tónstigar og hljómar tilgreindir með svofelldum hætti:

"Sams. Króm. 3 átt. frá f og gís
Gagnst. króm. 2átt. frá as og d
Samst. dúrtónst. 4 áttundir E og Des-dúr
Samst. molltónst. 2 áttundir h og b-moll
Gagnst. dúrtónst. 2 áttundir Es og H-dúr
Gagnst. Hljómh. moll 2 áttundir e-moll og cís-moll
Br. dúr þríhlj. 2 átt. Es og H-dúr
Br. moll þríhlj. f og fís-moll
Arp.í grunnstöðu B og G-dúr, e og g-moll
Arp. í grunnstöðu og hljómhv. F-dúr og d-moll
Niðurlagshljómar a-moll og D-dúr"

Verkefni eru tilgreind með sama hætti á vinnublaði prófdómara (prófblaði) sem Prófanefnd tónlistarskóla lét honum í té og vísað er til í bréfi prófdómarans til Prófanefndar, dags. 19. ágúst 2004.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki annað séð en að upplýsingar um prófþáttinn Tónstigar og hljómar, sem prófdómarinn hafði við próftökuna, hafi verið í samræmi við prófbeiðni tónlistarskólans. Hafi þeir allt að einu ekki verið í samræmi við það sem nemandinn undirbjó hlýtur því að vera um að ræða mistök tónlistarskólans sjálfs við frágang prófbeiðni til Prófanefndar eða að verkefnum hafi síðar verið breytt án þess að tilkynna það til nefndarinnar. Að þessu virtu telur Prófanefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við framkvæmd áfangaprófs A.

Þá finnur kærandi að orðum sem prófdómarinn lét falla áður en prófið fór fram. Ekkert tilefni er þó til að ætla að þau hafi haft áhrif á framkvæmd prófsins, enda er því ekki haldið fram af hálfu kæranda. Í ljósi skýringa prófdómarans verður ekki frekar fjallað um þann þátt kærunnar.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A 17. maí 2004 stendur óhaggað án athugasemda.