A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 1, 21. ágúst 2004

Hinn 21. ágúst 2004 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 9. júní 2004, hafa X og Y, foreldrar A, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 12. mars 2004 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Með bréfi Prófanefndar tónlistarskóla, dags. 30. júní 2004, var kæran send prófdómara, P, til umsagnar. Álit prófdómarans barst nefndinni með bréfi, dags. 8. júlí 2004.

II.

Hinn 12. mars 2004 þreytti A grunnpróf í píanóleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni      Umsögn  Einingar




Tónverk I Gott flæði í flutningi, styrkleikabreytingar hefðu mátt vera betri, sömuleiðis vantaði meiri mýkt.  12




Tónverk II Fjörlegt, vantaði betri styrkleikabreytingar. 10




Tónverk III Hraðaval fullgreitt miðað við "lentamente", gott flæði, hefði mátt vera meira syngjandi. 10




Æfing  Leikið af þrótti og öryggi. Styrkleikabreytingum ábótavant. 9




Tónstigar og hljómar Nokkuð öruggt, ásláttur gæti verið jafnari, sérstaklega í vinstri hendi. Hraði hefði getað verið meiri. 10




Frumsamið verk Líflegt og spilað á sannfærandi máta. 9




Óundirbúinn nótnalestur Hrynur ágætur, öryggi ábótavant. 7




Heildarsvipur  3




Einkunn  Stóðst grunnpróf í píanóleik 7,0




III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla kemur fram að kærendur telja greinilegt ósamræmi í umsögn prófdómara og einkunnagjöf og er tekið fram að kennari nemandans, sem hafi verið viðstödd prófið, sé sammála því. Kærendur taka sem dæmi að í einum prófþætti séu fimm punktar dregnir frá vegna óskar um meiri styrkleikabreytingar sem kærendur telji vera alltof mikið.

IV.

Í bréfi sínu til Prófanefndar, dags. 8. júlí 2004, tekur P, prófdómari, fram að hann telji eðlilegt að endurskoða eftirtaldar einkunnir:

Tónverk II Hækki úr 10 í 13
Tónverk III Hækki úr 10 í 13
Æfing Hækki úr 9 í 12
Frumsamið verk Hækki úr 9 í 10

Þá tekur prófdómarinn fram að skriflega umsögn vanti um heildarsvip og telur rétt að hún orðist þannig: "Viðunandi öryggi og framkoma."

III.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Kæruefni málsins varðar meint misræmi á milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) í prófi A. Í kærunni kemur ekki fram hvort kærendur telji vera um misræmi að ræða í öllum prófþáttum eða einungis hluta þeirra, en í kærunni er tekið fram sem dæmi að fimm einingar séu dregnar af vegna "óskar um meiri styrkleikabreytingar". Ljóst þykir að dæmið á við prófþáttinn Tónverk II. Telja verður að krafa kærenda sé sú að töluleg einkunn (einingar) verði hækkuð í samræmi við umsögn prófdómara.

Í bréfi til Prófanefndar, dags. 8. júlí 2004, fellst prófdómari á að misræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar (eininga) í prófþáttunum Tónverk II, Tónverk III, Æfing og Frumsamið verk. Að virtu þessu áliti prófdómara og eftir athugun á gögnum málsins telur Prófanefnd að efni séu til að breytinga niðurstöðu prófs A, sbr. heimild í 6. gr. skipulagsskrár, að því er ofangreinda prófþætti varðar. Telur nefndin hæfilegt að breyta einingum á þann hátt sem prófdómari leggur til. Samkvæmt því hækkar einkunn nemandans úr 7,0 í 8,0. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til að hagga við niðurstöðu prófsins.

Eins og prófdómari bendir á hefur honum láðst að rita umsögn um heildarsvip á prófblað. Þetta er leiðrétt í nýju vitnisburðarblaði sem gefið er út í samræmi við niðurstöðu þessa úrskurðar.

Úrskurðarorð:

Einingagjöf í eftirtöldum prófþáttum á grunnprófi A breytist sem hér segir:

Tónverk II: Verður 13
Tónverk III: Verður 13
Æfing: Verður 12
Frumsamið verk: Verður 10
Einkunn A verður 8,0.