A L M E N N T U M Á F A N G A P R Ó F
Úrskurður nr. 29, 16. ágúst 2022
Hinn 16. ágúst 2022 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:
I.
Með tölvupóstum 16. maí og 14. júní 2022 hefur aðstoðarskólastjóri tónlistarskólans T gert athugasemdir við einkunnagjöf á áfangaprófi sem A þreytti 6. apríl 2022. Prófdómari var P. Af hálfu Prófanefndar tónlistarskóla (hér eftir PT) var upphaflega ekki litið á erindi skólans sem formlega kæru. Eftir viðræður við aðstoðarskólastjóra var ákveðið að taka erindið til meðferðar sem kæru.
Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni.
II.
Hinn 6. apríl 2022 þreytti A framhaldspróf í píanóleik við T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:
Verkefni | Umsögn | Einingar | |
|
|
|
|
J.S. Bach: Frönsk svíta nr. 5 | Jafnvægi í hryn og gott samræmi á milli radda. Yfirleitt lifandi og kraftmikil túlkun sem einkenndist af sannfærandi flæði. Gavotte-kaflinn hefði þó þurft að vera fágaðri og Bourrée hefði mátt vera léttari. Heildarsvipurinn var ögn grófur; móta hefði mátt áslátt betur. | 13 | |
|
|
|
|
F. Schubert: Impromtu nr. 2 í Es-dúr | Trúverðugur hraði, tónahlaup jöfn en eilítið of mikill pedall sem kom niður á skýrleika. Góð tilfinning fyrir hryn og stíl, eiginleikum og blæ. Allgott tæknilegt öryggi. | 13 | |
|
|
|
|
C. Debussy: Arabesque nr. 1 | Gott vald á tónmyndun. Túlkunin var draumkennd og innhverf, fyllilega í stíl tónskáldsins. Ljóðrænan í tónlistinni var vel útfærð. Prýðilegt flæði var í leiknum. Persónuleg tjáning var greinileg. | 15 | |
|
|
|
|
F. Chopin: Etýða í c-moll op. 25 nr. 12 | Meginlínur voru vel dregnar fram, en tilfinnanlegur skortur var á skýrleika í öllum tónahlaupunum sem kom niður á glæsileikanum. Skortur var á flæði og öryggi. | 8 | |
|
|
|
|
Tónstigar og hljómar | Góður hraði en hendur ekki alltaf samtaka. Eitthvað um feilnótur. | 11 | |
|
|
|
|
Val: D. Kabalevsky: Píanókonsert nr. 3 op. 50, 1. kafli | Góð tilfinning fyrir músíkalskri heild, hendingamótun, styrkleikabreytingum, hryn og festu. Lifandi túlkun. | 9 | |
|
|
|
|
Óundirbúinn nótnalestur | Oftast réttar nótur og hrynur. | 8 | |
|
|
|
|
Heildarsvipur | Góður og markviss flutningur heilt yfir. | 4 | |
|
|
|
|
Einkunn | Stóðst framhaldspróf í píanóleik | 8,1 | |
|
|
|
|
III.
Með kæru T er fari fram á að niðurstaða prófs A verði endurskoðuð. Í kærunni er vísað til þess að prófdómari hafi gefið 8 stig fyrir Etýðuna eftir Chopin en þegar skrifleg umsögn prófdómara sé borin saman við viðmið Prófanefndar varðandi einkunnagjöf, virðist textinn falla mun heldur undir töluna 9/10/11 (og þá jafnvel nær 10 eða 11). Einnig sé gerð athugasemd við þá einkunn sem gefin hafi verið fyrir tónstiga og hljóma (11) en umsögn prófdómara virðist passa betur við viðmiðin fyrir næsta flokk fyrir ofan, 12/13.
IV.
P, prófdómari, hefur lýst því munnlega yfir við PT að hann telji kæruna ekki gefa ástæðu til að breyta einkunnagjöf á prófi A.
V.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.
Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.
2.
Af hálfu kæranda er talið að ósamræmi sé milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) fyrir tvo prófþætti, annars vegar eitt verkanna sem flutt var í prófinu og hins vegar í prófþættinum Tónstigar og hljómar. Sjónarmið kæranda er að próftakinn hafi verðskuldað hærri einkunn fyrir þessa prófþætti þegar litið sé til viðmiðana PT.
Kæra í máli þessu gefur tilefni til að árétta, sem hefur komið fram í fyrri úrskurðum PT, að viðleitni til að tryggja samræmi og hlutleysi við mat á árangri á áfangaprófum er mikilvægur þáttur í aðalnámskrá tónlistarskóla og grundvallarástæðan fyrir starfrækslu sameiginlegs prófakerfis tónlistarskólanna. Þjálfun prófdómara á vegum PT beinist sérstaklega að þessum atriðum. Til að auka áreiðanleika og samræmi í mati á tónlistarflutningi hefur PT samið viðmiðanir fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum í hljóðfæraleik og einsöng sem prófdómurum á vegum nefndarinnar er ætlað að nota við mat á frammistöðu nemenda. Þrátt fyrir eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk PT samkvæmt skipulagsskrá ræðst einkunnagjöf hverju sinni af heildstæðu mati prófdómara á frammistöðu próftaka við flutning viðkomandi prófþáttar. Því verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til PT, svo sem tekið er fram í 6. gr. skipulagsskrár fyrir PT, nema greinilegt ósamræmi sé milli umsagnar og einkunnagjafar.
Við umfjöllun um hugsanlegt misræmi milli umsagnar og einkunnar verður að gæta að því að í viðmiðunum PT fyrir einkunnagjöf á áfangaprófum kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans. Með þessari athugasemd í viðmiðunarreglunum er tekið tillit til þess að sjaldnast fellur flutningur nemanda alfarið að orðalagi viðmiðana í einum flokki.
3.
Í viðmiðunum PT kemur fram að til þess að hljóta einkunn 9, 10 eða 11 fyrir flutning tónverks eða æfingar á framhaldsprófi þurfi flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:
Einkunn 6, 7 eða 8 skal gefin sé flutningur próftaka í samræmi við eftirfarandi atriði:
Einkunn A fyrir flutning Etýðu eftir Chopin var 8 sem er hæsta einkunn í síðarnefndum viðmiðunarflokki PT. Í umsögn prófdómara er bæði tiltekið það sem hann taldi jákvætt við flutning verksins svo og tvö neikvæð atriði. Neikvæðu þættirnir eru báðir þess eðlis að þeir hljóta að draga einkunnagjöf umtalsvert niður.
Athugasemd prófdómara um skort á skýrleika í tónahlaupum vísar augljóslega til þess að nákvæmni hafi ekki verið nægileg í flutningnum, sbr. orðalag í viðmiðunarflokki fyrir einkunn 9/10/11. Telja verður að það leiði þegar af þessum annmarka á flutningnum að einkunn í hærri hluta nefnds viðmiðunarflokks geti ekki komið til greina. Það mat prófdómara að skort hafi á flæði og öryggi fellur fullum fetum að einkunnagjöf í viðmiðunarflokki 6/7/8. Umsögn um vel fram dregnar meginlínur verksins horfir til þess að hæsta einkunn sé gefin í þessum viðmiðunarflokki þrátt fyrir annmarka á flutningi.
Samkvæmt framansögðu þykir álitamálið eingöngu vera það hvort nemandinn verðskuldi níu einingar í stað átta eininga fyrir þennan prófþátt. Með hærri einkunninni væri í raun litið framhjá því sem fram er komið um skort á flæði og öryggi í flutningnum. Að þessu virtu verður ekki talið að slíkt ósamræmi sé í umsögn prófdómara og einkunnagjöf um þennan prófþátt að tilefni sé til að hagga við einkunnagjöf.
4.
Samkvæmt viðmiðunum PT er einkunn 12 eða 13 gefin vegna prófþáttarins Tónstigar og hljómar sé flutningur próftaka í samræmi við eftirfarandi atriði:
Gefa skal einkunn 9, 10 eða 11 í þeim tilvikum að flutningur sé í samræmi við þessi atriði:
Í umsögn prófdómara kemur fram að tónstigar og hljómar hafi verið fluttir með góðum hraða en hendur ekki alltaf verið samtaka. Telja verður að þessi athugasemd vísi til þess að flæði í flutningi nemandans hafi verið gott eða a.m.k. allgott en að flutningurinn hafi verið ójafn á köflum. Ljóst er af umsögninni að hér var ekki um gegnumgangandi annmarka að ræða. Hvað sem því líður verður að telja eðlilegt að frávik í þessum efnum hafi veruleg áhrif á einkunnagjöf til lækkunar frá því sem ella hefði orðið, enda er grundvallaratriði við flutning tónstiga og hljóma á píanó að hendur séu samtaka.
Þá getur prófdómari þess sérstaklega að „eitthvað“ sé um feilnótur. Það að nemanda verði á slík mistök í flutningi er meðal liða í báðum viðmiðunarflokkunum sem hér eru til skoðunar. Í viðmiðunarflokki 12/13 er tiltekið að feilnótur megi vera „einstaka“ en í viðmiðunarflokki 9/10/11 að þær séu „allnokkrar“. Umsögn prófdómara verður að skilja þannig að umfang þessara mistaka í tilviki A hafi verið meira en svo að um „einstaka“ atvik væri að ræða.
Eins og hér hefur verið rakið getur prófdómari í umsögn sinni bæði um jákvæð og neikvæð atriði við flutning prófþáttarins Tónstiga og hljóma og lúta síðarnefnd atriði að skorti á nákvæmni í flutningnum. Þegar umsögn prófdómarans um þennan prófþátt er metin í heild verður því ekki séð að hún sé í greinilegu ósamræmi við þá einkunn sem gefin var. Það leiðir af þessu að ekki telst vera grundvöllur til að hækka einkunn fyrir prófþáttinn frá því sem prófdómari tilgreindi.
Úrskurðarorð:
Einkunnagjöf á framhaldsprófi A stendur óhögguð.