A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 21, 9. desember 2008

Hinn 9. desember 2008 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með kæru, dags. 26. maí 2008, hefur skólastjóri tónlistarskólans T ásamt kennara við skólann kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 18. apríl 2008. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 18. apríl 2008 þreytti A grunnpróf í þverflautuleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn Einingar




Tónverk I Allgóð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ, flæði að mestu gott.  12




Tónverk II Viðeigandi hraði en full varkárt, merkjanlegar styrkleikabreytingar. 11




Tónverk III Styrkleikabreytingar og hendingamótun merkjanleg, allgóð tilfinning fyrir hryn. 12




Æfing  Góð skil á bundnu og staccato, allgóður heildarsvipur, stundum þó eilítið hikandi. 11




Tónstigar og hljómar Varkárt og allnokkrar feilnótur. 10




Val  Vel flutt og áhugavert lag með góðri framvindu. 9




Óundirbúinn nótnalestur Sannfærandi flutningur, réttar nótur og hrynur. 9




Heildarsvipur  Allöruggur flutningur, falleg framkoma. 4




Einkunn  7,8




III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla er vísað til þess að í aðalnámskrá tónlistarskóla, tréblásturshljóðfæri, standi "...nemandi geti leikið dúr og moll tónstiga frá grunntóni upp á efsta mögulegan hljómtón grunnþríhljóms viðkomandi tóntegundar innan tónsviðsins og aftur niður á grunntón" og "þríhljóma frá grunntóni beint upp á efsta hljómtón innan tónsviðsins og niður á grunntón aftur". Varðandi tónsvið stendur: "nemandi leiki tónstiga og hljóma á tónsviðinu c' til f '''... "

Tveir nemendur hafi tekið grunnpróf í þverflautuleik 18. apríl og hafi A þreytt prófið fyrst. Prófdómari hafi beðið um nokkra tónstiga, því næst þríhljóma og hafi fyrsti þríhljómurinn verið d-moll. Nemandinn hafi leikið þríhljóminn á eftirfarandi hátt; d'-f'-a'-d''-f ''-a''-d'''-f '''-d'''-a''... og svo framvegis niður á d'. Prófdómari hafi gert athugasemd við leik nemandans og sagt að hann þyrfti einungis að leika upp á a''. Nefna beri að prófdómari hafi á allan hátt verið kurteis og vingjarnlegur. Því næst hafi prófdómari beðið um þríhljóm í G-dúr og nemandinn spilað einungis g'-h'-d''-g''-d''-h'-g', þá hafi prófdómari gert aðra athugasemd og sagt að nú ætti nemandinn að leika upp á d''' og sagt jafnframt að munur væri á dúr og moll. Á þessum tímapunkti hafi vel verið hægt að merkja mikið óöryggi hjá nemandanum sem verið hafi bein afleiðing af útásetningum prófdómarans, nemandinn hafi efast um eigin kunnáttu og kunnáttu kennara síns. Að mati kærenda hafi nemandanum ekki gengið sem skyldi í þessum prófþætti vegna athugasemda prófdómarans.

Þegar seinni próftaki lék d-moll þríhljóminn hafi prófdómari enga athugasemd gert við framkvæmd tónstigans, en nemandinn hafi spilað frá d' til f ''' og aftur niður á d'. Seinni nemandanum hafi gengið betur í prófinu.

IV.

Í greinargerð P til Prófanefndar, dags. 2. júlí 2008, segir:

"Samkvæmt kærubréfinu er ljóst að mér skjátlaðist í prófþættinum "Tónstigar og hljómar". Ég taldi nemandann gera betur en til þurfti samkvæmt námsskrá og viðhafði ummæli til að koma því á framfæri. Ummælin höfðu því þann tilgang að vera alúðleg og hvetjandi.

Eins og fram kemur í kærubréfinu, lék nemandinn þríhljómana rétt samkvæmt námsskrá. Eina skýringin sem ég get gefið á röngu mati mínu eru mannleg mistök og biðst ég velvirðingar á því. Einkum þykir mér leitt að ummæli, sem þó áttu að verka uppörvandi, skyldu valda óöryggi hjá nemandanum."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Eins og fram kemur í kæru er mælt fyrir um það í aðalnámskrá tónlistarskóla, námskrá fyrir þverflautu, að "...nemandi geti leikið dúr og moll tónstiga frá grunntóni upp á efsta mögulegan hljómtón grunnþríhljóms viðkomandi tóntegundar innan tónsviðsins og aftur niður á grunntón" og að leika skuli "þríhljóma frá grunntóni beint upp á efsta hljómtón innan tónsviðsins og niður á grunntón aftur". Fyrirmæli varðandi tónsvið er að "nemandi leiki tónstiga og hljóma á tónsviðinu c' til f '''... "

Óumdeilt er að prófdómara urðu á þau mistök í áfangaprófi A að láta falla athugasemdir varðandi flutning nemandans á þríhljómum sem ekki áttu við rök að styðjast, svo sem lýst er í kæru og prófdómari hefur fallist á. Af hálfu kærenda er því haldið fram að athugasemdir prófdómarans hafi valdið óöryggi hjá próftakanum og haft neikvæð áhrif á frammistöðu hans í þessum prófþætti. Ekki kemur fram í kæru hvaða kröfur kærendur gera um viðbrögð af hálfu Prófanefndar af þessu tilefni, en þó þykir mega ganga út frá því að kærendur telji að hækka beri einkunn fyrir umræddan prófþátt. Því er ekki haldið fram af hálfu kærenda að þetta atvik hafi haft áhrif á flutning nemandans í öðrum þáttum prófsins.

Samkvæmt umsögn prófdómara var flutningur nemandans á tónstigum og hljómur varkár og allnokkuð um feilnótur. Umsögnin á að sjálfsögðu ekki aðeins við um flutning á þríhljómum, sem um er fjallað í kæru, heldur gildir hún um allan prófþáttinn, þar á meðal flutning tónstiga sem samkvæmt lýsingu í kæru voru leiknir áður en þær athugasemdir féllu varðandi þríhljóma sem hér um ræðir. Að þessu athuguðu þykir hæpið að athugasemdir prófdómara geti hafa haft veruleg áhrif á niðurstöður varðandi þennan prófþátt í heild. Þó verður ekki dregið í efa að þetta atvik kunni að hafa haft áhrif á frammistöðu nemandans í hluta prófþáttarins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og eins og atvikum er hér sérstaklega háttað þykir Prófanefnd rétt að hækka einkunn vegna prófþáttarins úr 10 í 12. Samkvæmt því verður einkunn nemandans á prófinu 8,0. Ekki þykja hins vegar efni til að fella niður umsögn vegna þessa prófþáttar.

Úrskurðarorð:

Einingagjöf í prófþættinum Tónstigar og hljómar á hinu kærða grunnprófi breytist úr 10 í 12. Einkunn á prófinu verður 8,0.