A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 3, 13. apríl 2005

Hinn 13. apríl 2005 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð:

I.

Með bréfi, dags. 24. janúar 2005, hefur X, skólastjóri, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti hinn 16. desember 2004 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2005, sendi Prófanefnd P kæruna til umsagnar. Álit prófdómarans barst nefndinni með bréfi, dags. 11. febrúar 2005.

II.

Hinn 16. desember 2004 þreytti A miðpróf í gítarleik við tónlistarskólnn T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara, P, var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni      Umsögn  Einingar




Tónverk I Gott flæði og hrynur. 13




Tónverk II Góður hraði og hrynur. Mættu vera meiri styrkleikabreytingar og meiri kraftur í "rasquaedo". 12




Tónverk III Örugg spilamennska, en tónninn nokkuð "flatur" og lítill. Ath. neglur.  12




Æfing Spilað af öryggi. Ath. tónmyndun og hendingamótun. 12




Tónstigar og hljómar Spilað af nokkru öryggi. Þarf að athuga handstöðu í hægri. 12




Val: Spuni Skemmtilega útfært og góð tilfinning fyrir hljómagangi. 9




Óundirbúinn nótnalestur Mjög gott. Ath. hraðabreytingar. 9




Heildarsvipur  Spilað af nokkru öryggi og góð tækni. Þarf að huga vel að tónmyndun og nöglum hægri handar. Ath. handstöðu í vinstri.  4




Einkunn  Stóðst miðpróf í gítarleik 8,3




III.

Í kæru til Prófanefndar segir:

"Kært er vegna þess að ekki þykir gæta nægilega góðs samræmis milli umsagnar og einkunnar, sérstaklega í fyrstu þremur liðum prófsins. Almennt eru athugasemdir í knappasta lagi. Einnig fjalla umsagnir mikið um tæknileg atriði ss handstöður beggja handa og gerðar athugasemdir varðandi neglur, þ.e. væntanlega naglaleysi nemandans sem er tilkomið vegna líffræðilegra þátta sem ekki verður við ráðið, en þess má einnig geta að það eru gítarleikarar sem leika án nagla og ferst það alveg prýðilega úr hendi. Tæknilegu atriðin eru með þeim hætti að kennari A er ekki alfarið sammála prófdómaranum, enda hefur þessi nemandi afar fá tæknileg vandamál í sinni spilamennsku."

IV.

Í bréfi sínu til Prófanefndar, dags. 11. febrúar 2005, tekur P, prófdómari, fram að kæruatriði séu sex:

  1. Kært sé vegna þess að ekki þyki gæta nægilega góðs samræmis milli umsagnar og einkunnar, sérstaklega í fyrstu þremur liðum prófsins.
  2. Almennt séu athugasemdir í knappasta lagi.
  3. Einnig fjalli umsagnir mikið um tæknileg atriði svo sem handstöður beggja handa.
  4. Gerðar séu athugasemdir varðandi neglur, þ.e. væntanlega naglaleysi nemandans sem sé tilkomið vegna líffræðilegra þátta sem verði ekki við ráðið.
  5. Tæknileg atriði séu með þeim hætti að kennari A sé ekki alfarið sammála prófdómaranum.
  6. Nemandinn hafi afar fá tæknileg vandamál í sinni spilamennsku.

Þá er í bréfi prófdómarans fjallað um einstaka kæruliði. Vegna fyrsta kæruliðarins gerir prófdómarinn grein fyrir umsögnum sínum um prófþættina Tónverk I, Tónverk II og Tónverk III, en tekur fram að þar sem í kærunni sé einungis vikið að þeim þáttum prófsins telji hann ekki tilefni til umfjöllunar um aðra þætti. Í bréfinu segir um þetta kæruatriði:

"Tónverk I. Ég gaf tónverkinu 13 einingar af 15 mögulegum og umsögn mín var: "Gott flæði og hrynur." Auðvitað er þetta ekki mikil umsögn en að mínu mati náði verkið ekki þeim flutningi að hægt væri að gefa hærri einkunn. Hafa ber í huga að einkunnin er há.

Tónverk II. Ég gaf tónverkinu 12 einingar af 15 mögulegum og umsögn mín var: "Góður hraði og hrynur. Mættu vera meiri styrkleikabreytingar og meiri kraftur í "rasqueado"." Þetta verk hafði nemandinn sjálfur valið og var það flutt með góðum hraða og taktvisst eins og í umsögninni segir. En "effektar" s.s. rasgueado voru ekki vel útfærðir og styrkleikabreytingar sem fram komu í verkinu voru lítt heyranlegar.

Í námskrá fyrir miðpróf segir:

"Nemandi
- geti spilað ... rasguaedo ...
- geti gert styrkleikabreytingar vel heyranlegar og andstæður augljósar"

Tónverk III. Ég gaf tónverkinu 12 einingar af 15 mögulegum og umsögn mín var: "Örugg spilamennska, en tónninn nokkuð "flatur" og lítill. Ath. neglur." Þarna spilaði nemandinn eitt af höfuðbókmenntum gítarsins sem er gefið upp í námskrá sem verkefni á framhaldsstigi. Nemandinn réð ekki við verkefnið músíklega séð, þó svo að hann hafi spilað flestar nótur réttar og hraðinn hafi verið í góðu lagi. Þarna kom berlega í ljós skortur á skilningi á viðfangsefninu um leið og naglaleysið kom í veg fyrir að hann næði að flytja verkið með glæsibrag. Ég gaf nemandanum í upphafi aðeins 11 af 15 einingum en hækkaði einkunnina upp í 12 vegna góðrar fingratækni."

Um kærulið 2 segir í bréfi prófdómarans:

"Ég get að ýmsu leyti verið sammála X um þetta atriði en prófdómarar hafa mjög takmarkað pláss til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Mér sýnist samt að ég hafi nýtt mér möguleikana til hins ýtrasta ef frá er talin fyrsta umsögnin. Athugasemdum er komið á framfæri undir liðnum Heildarsvipur - en þar gaf ég einkunnina 4 af 5 mögulegum og umsögnin var - Spilað af nokkru öryggi og góð tækni. Þarf að huga vel að tónmyndun og nöglum hægri handar. Ath. handstöðu í vinstri."

Í umsögn um kærulið 3 segir í bréfi prófdómarans:

"Í námskrá fyrir miðpróf segir: Nemandi - leiki með vel styrkri vinstri hendi. Ég bendi líka á þau markmið sem fram koma í Aðalnámskrá tónlistarskóla fyrir miðpróf og er ekki að telja þau hér upp.

Þar sem ég er kallaður til prófdæmingar í miðstigi á gítar sem sérfræðingur finnst mér eðlilegt að ég bendi á atriði sem ég held að komi nemandanum til góða. Athugasemdir mínar í sambandi við handstöður eru einungis til þess að hjálpa nemandanum að ná betri árangri í sínu námi. Árangri sem hjálpar honum til að ná betri tökum á sínum viðfangsefnum og spila og túlka betur þá músík sem hann flytur. Athugasemdirnar eru frá minni hálfu aðeins á jákvæðum nótum, til að hjálpa honum á næstu stigum síns náms en ekki til að letja hann."

Um kærulið 4 segir í bréfi prófdómarans:

"Auðvitað geri ég athugasemdir við naglaleysi nemanda sem er að taka miðpróf. Neglurnar mynda tóninn og tónninn skiptir auðvitað miklu máli bæði í hljóðfæra- og söngnámi.

Í Aðalnámskrá tónlistarskóla segir í gítarnámskrá fyrir grunnnám: Nemandi - hafi kynnst tónmyndun með nöglum hægri handar.

Ég sem prófdómari spyr hvorki nemandann né skólastjóra hans um líffræðilegan þátt sem verður ekki við ráðið. Þeir gítarleikarar sem eiga við þetta vandamál að stríða gera sínar ráðstafanir vegna tónmyndunar. F. Tarrega, einn alfremsti gítarleikari á seinni hluta 19. aldar, átti við þetta vandamál að stríða en hann leysti það líka á sinn hátt sem of langt mál væri að rekja hér."

Í umfjöllun um kærulið 5 er tekið fram í bréfi prófdómarans að hann telji ekkert óeðlilegt við það að kennari sé ekki sammála prófdómara.

Að því er varðar kærulið 6 segir í bréfi prófdómarans:

"Athugasemdir voru gerðar við hendingamótun, tónmyndun, "flatan" og lítinn tón, naglaleysi, kraftleysi í rasquaedo, handstöðu hægri- og vinstri handar, hraðabreytingar og litlar styrkleikabreytingar.

Nemandinn fékk mjög góða einkunn, eða 8,3. Allar einkunnir voru annað hvort góðar eða mjög góðar miðað við þær viðmiðanir sem flestir skólar hafa. Að öllu ofangreindu finnst mér ekki ástæða til að breyta þeirri einkunn sem umræddur nemandi fékk. Mér finnst kæran ekki málefnaleg og engin ástæða til að taka tillit til hennar.

Um leið óska ég A til hamingju með mjög góða einkunn svo og skólastjóra hans og kennara."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, getur kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds skv. 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Meginatriði kærunnar varðar meint misræmi á milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) í prófi A í þremur fyrstu prófþáttunum, þ.e. prófþáttunum Tónverk I, Tónverk II og Tónverk III, og verður að telja að krafa kæranda sé sú að töluleg einkunn (einingar) fyrir þessa prófþætti verði hækkuð í samræmi við umsögn prófdómara. Að öðru leyti er í kærunni fundið að umsögn prófdómarans, einnig varðandi aðra prófþætti en að framan greinir, en ekki er verður ráðið að krafist sé breytinga á einkunnagjöf vegna þeirra. Þá verður að virtu kæruefninu naumast talið að kærandi telji að efni séu til þess að nemandanum verði heimilað að endurtaka prófið. Verður kæran því skilin svo að þess sé krafist að Prófanefnd geri athugasemdir við umsögn prófdómarans.

Að því er varðar meint misræmi milli umsagnar og einkunnagjafar í þremur fyrstu þáttum prófsins er þess að geta að í viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf á miðprófi í hljóðfæraleik kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans.

Til þess að hljóta einkunnina 14 eða 15 þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Sannfærandi flutningur
  • Tæknilegt öryggi
  • Gott vald á inntónun, tónmyndun og mótun
  • Góð tilfinning fyrir hendingamótun og styrkleikabreytingum
  • Góð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ
  • Góð tilfinning fyrir hryn
  • Sannfærandi hraðaval

Til þess að hljóta einkunnina 12 eða 13 þarf flutningur nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Allgóður heildarsvipur
  • Allgott tæknilegt öryggi
  • Allgott vald á inntónun, tónmyndun og mótun
  • Styrkleikabreytingar og hendingamótun greinileg
  • Allgóð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ
  • Allgóð tilfinning fyrir hryn
  • Viðeigandi hraði og festa

Einkunn A í þeim prófþáttum, sem kæran tekur til, var 13 í einu tilviki og 12 í tveimur tilvikum. Taka verður undir það með kæranda að umsögn prófdómara var naumast svo ítarleg sem ætlast má til, sérstaklega í fyrsta prófþættinum (Tónverk I) þar sem eingöngu eru tiltekin tvö jákvæð atriði en ekki tilgreind atriði sem að mati prófdómara draga einkunnagjöf niður, sbr. hins vegar athugasemdir hans í bréfi til Prófanefndar, dags. 11. febrúar 2005. Rétt hefði verið að umsögn prófdómara væri skýrari að þessu leyti. Þess er þó að geta að í umsögninni koma ekki heldur fram þau atriði sem telja verður að mestu hljóti að ráða um hæstu einkunnir, þ.e. að flutningur sé sannfærandi, nemandi sýni tæknilegt öryggi og hafi gott vald á inntónun, tónmyndun og mótun. Að þessu virtu verður ekki talið að slíkt ósamræmi sé í umsögn prófdómara og einkunnagjöf um þennan prófþátt að tilefni sé til að hagga við einkunnagjöf.

Í umsögn um hina prófþættina (Tónverk II og Tónverk III) er bæði getið jákvæðra og neikvæðra atriða og lúta síðarnefnd atriði einkum að því að skorti á styrkbrigði, stíl og blæ verkanna í flutningi. Þegar umsögn prófdómarans um þessa prófþætti er metin í heild verður því talið að hún sé ekki í ósamræmi við þær einkunnir sem gefnar voru.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki haggað við einkunnagjöf fyrir greinda prófþætti.

3.

Vegna annarra aðfinnsluatriða í kæru til Prófanefndar er ástæða til að árétta að mat prófdómara sætir ekki kæru að öðru leyti en ef greinilegt ósamræmi er í umsögn hans og einkunnagjöf, svo sem rakið var í lið V-1 að framan. Þá er því ekki haldið fram í kærunni að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Samkvæmt þessu og með vísan til skýringa í bréfi prófdómara, dags. 11. febrúar 2005, þykir kæran ekki gefa tilefni til frekari umfjöllunar af hálfu Prófanefndar.

Úrskurðarorð:

Einkunnagjöf á miðprófi A stendur óhögguð.