A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 23, 9. nóvember 2015

Hinn 9. nóvember 2015 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með tölvubréfi 12. júní 2015 hafa skólastjóri tónlistarskólans T, ásamt aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra við skólann, mótmælt útgáfu Prófanefndar tónlistarskóla á vitnisburðarblaði, dags. 27. maí 2015, vegna áfangaprófs í gítarleik sem A þreytti hinn 15. apríl 2015. Vitnisburðarblaðið var gefið út á þeim grundvelli að ekki teldist vera um að ræða vitnisburð um gilt áfangapróf samkvæmt námskrá tónlistarskóla.

Að virtu efni tölvubréfs skólans frá 12. júní 2015 þykir rétt að taka erindið til meðferðar sem kæru til Prófanefndar samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla, enda verður talið að kæran hafi borist innan kærufrests samkvæmt þessu ákvæði.

Með hliðsjón af aðdraganda og efni kærunnar taldi Prófanefnd ekki tilefni til þess að leita álits prófdómara á kærunni.

II.

Hinn 15. apríl 2015 þreytti A grunnpróf í gítarleik við tónlistarskólann T. Prófverkefni (tónverk og æfing) voru þessi:

  • J.M. Zenamon: Torito.
  • J.K. Mertz: Study on the first string.
  • Aaron Sherer: Prelude.
  • Sagreras: Lesson 46.

Ekki þykir ástæða til að rekja í úrskurði þessum umsögn og einkunnagjöf prófdómara vegna einstakra prófþátta. Um heildarsvip var umsögn eftirfarandi:

"Músíkalskur nemandi og vel undirbúin þau prófverkefni sem spiluð voru. Leikur af öryggi með ágætis tónmyndun."

Einkunn fyrir heildarsvip var 4. Heildareinkunn í prófinu var 8,7.

Við skil á prófblaði til Prófanefndar gerði prófdómari, sem var P, athugasemdir við verkefnaval á gítarprófi A. Taldi prófdómarinn að bæði æfingin og öll þrjú tónverkin hefðu verið of létt miðað við kröfur námskrár. Í samræmi við verklag Prófanefndar voru athugasemdir prófdómarans bornar undir tvo aðra sérfræðinga sem báðir hafa starfað sem prófdómarar á vegum Prófanefndar. Voru ályktanir þeirra á sömu lund.

Formaður Prófanefndar tónlistarskóla tilkynnti skólanum í síma 26. maí 2015 að prófdómari hefði gert athugasemdir vegna verkefnavals á prófi A og talið að verkefnin hefðu verið of létt miðað við kröfur námskrár. Í ljósi athugasemda prófdómarans þætti ekki unnt að viðurkenna prófið sem gilt áfangapróf. Því yrði í þessu tilviki ekki gefið út áfangaprófsskírteini og vitnisburðarblað um áfangapróf, heldur almennt vitnisburðarblað um prófið. Vitnisburðarblað, dags. 27. maí 2015, sem gefið var út á þessum grundvelli, var sent skólanum þann dag. Ætla verður að í símtalinu hafi komið fram af hálfu Prófanefndar að fyrirhugað væri að tilkynna skólanum formlega um þá niðurstöðu, sem hér hefur verið lýst. Vegna anna við afgreiðslu annarra mála hafði sú tilkynning ekki verið send skólanum þegar tölvubréf hans barst þann 12. júní 2015.

III.

Í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla kemur fram það álit tónlistarskólans T að vinnulag Prófanefndar og prófdómara, þegar þyngdarstig verkefna sé ekki talið samrýmast námskrá, sé ekki í samræmi við ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla.

Í þessu sambandi er bent á að í námskránni sé kveðið á um framkvæmd hljóðfæraprófa og segi í 8. lið prófreglna að kennari skuli leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Þá segi í sama lið að próf fari því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara. Þetta ákvæði aðalnámskrár verði ekki túlkað með öðrum hætti en svo að ef próf fari fram þá hafi prófdómari staðfest að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár, enda liggi verkefnalisti prófsins fyrir áður en próf eigi að hefjast.

Prófanefnd hafi sett sér nánari verklagsreglur um framkvæmd hljóðfæraprófs sem birtar séu á vefsíðu nefndarinnar og dagsettar 19. október 2004. Þar segi um þetta sama atriði að flytji nemandi verk, sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, geri prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar. Einnig þurfi ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlusti prófdómari á verkið og meti það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar.

Prófanefnd tónlistarskóla hafi í úrskurði sínum nr. 18 frá 15. júlí 2008 sett fram þann skilning að prófdómari geti með athugasemd á prófblaði hafnað þyngdarstigi verkefna. Þessi túlkun kunni að vera í samræmi við verklagsreglur og venjur Prófanefndar um framkvæmd prófa, en gangi í berhögg við ákvæði aðalnámskrár og eigi sér ekki stoð í skipulagsskrá prófanefndar. Í skýringum með þessum sama úrskurði sé tilgreint að umrædd tilhögun hafi verið ákveðin í samráði við menntamálaráðuneytið.

Tónlistarskólinn hafi með tölvuskeyti til mennta- og menningarmálaráðuneytisins þann 28. maí sl. óskað staðfestingar ráðuneytisins á því að slíkt samráð hafi átt sér stað og jafnframt bent ráðuneytinu á það misræmi sem sé milli gildandi aðalnámskrár og verklags Prófanefndar tónlistarskóla. Ráðuneytið hafi með tölvuskeyti þann 10. júní sl. greint skólanum frá því að þar á bæ finnist ekki skjöl sem staðfest geti túlkun Prófanefndar. Í þessu sambandi þurfi að árétta að aðalnámskrá tónlistarskóla sé (líkt og aðrar aðalnámskrár) ígildi reglugerðar og þurfi að kynna breytingu á aðalnámskránni með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Á framangreindum forsendum er gerð sú krafa að skólanum verði sent gilt prófskírteini fyrir A.

Tónlistarskólinn hefur ítrekað erindi sitt, m.a. með tölvubréfi 7. október 2015. Þar er vísað til upplýsinga skólastjóra tónlistarskólans U um niðurstöðu í hliðstæðu máli. Segir að sá skóli hafi „fengið prófið afhent eftir að skólastjóri vísaði í áttundu grein prófareglna aðalnámskrár um að próf skuli ekki eiga sér stað ef prófdómari telji vankanta á dagskrá“. Er vísað til jafnræðisreglna því til stuðnings að afgreiða beri próf A með sama hætti.

IV.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Í almennum prófreglum fyrir hljóðfæra- og tónfræðapróf, sem er að finna í aðalnámskrá tónlistarskóla, segir í 1. lið:

"Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum."

Í prófreglum fyrir hljóðfærapróf í sama riti, segir í 2. og 3. lið:

"Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár." ... "Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta."

Í greinanámskrám er síðan að finna upplýsingar um hvaða markmiðum nemendur skulu hafa náð við lok námsáfanga og þyngdarstig áfangaprófa áréttað enn frekar með dæmum um prófverkefni.

Við undirbúning áfangaprófa gengur Prófanefnd tónlistarskóla út frá því að prófverkefni séu valin í samræmi við framanrituð ákvæði og þyngdarstig þeirra sé hæfilegt. Því lætur Prófanefnd almennt ekki fara yfir prófverkefni fyrir próf, nema þess sé sérstaklega óskað og þurfa þá nótur af prófverkefnum að fylgja slíkri beiðni. Slík beiðni kom ekki frá Tónlistarskólanum T í því tilviki sem hér um ræðir.

3.

Víkur þá að því ákvæði prófreglna sem vitnað er til í kæru, þ.e. 8. lið prófreglna fyrir hljóðfærapróf sem er að finna á bls. 36 í prentaðri útgáfu aðalnámskrár tónlistarskóla. Þar segir:

"Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara."

Ráða má af kæru tónlistarskólans að hann vilji skilja þennan lið prófreglnanna þannig að prófdómara beri, áður en gengið er til próftöku, ekki einasta að leggja mat á prófverkefni heldur einnig að staðfesta að verkefnin uppfylli kröfur viðkomandi greinanámskrár. Skuli prófið ekki fara fram nema prófdómari staðfesti mat sitt um þetta. Í kærunni virðist gengið út frá því að staðfestingin geti verið látin uppi með þegjandi hætti, þ.e. prófdómari geri ekki athugasemdir áður en próftakan hefjist. Er því þá látið ósvöruðu hvernig skuli við bregðast ef prófdómari verður þess áskynja í miðju prófi að ekki sé allt með felldu.

Augljóst verður að telja að ekki er framkvæmanlegt að leggja mat á prófverkefni með tilliti til þyngdarstigs samkvæmt kröfum námskrár – og síst ef ætlunin væri að mat og staðfesting prófdómara hefði bindandi áhrif – nema prófdómari fái með hæfilegum fyrirvara í hendur nákvæmar upplýsingar um inntak allra viðeigandi prófþátta, svo sem nótur af tónverkum og tækniæfingum og lýsingu á valverkefni, þannig að unnt sé að leggja mat á verkefnin áður en komið er á prófstað. Hér verður að hafa í huga að samkvæmt reglum aðalnámskrár eru ekki allir prófdómarar á grunn- og miðprófum sérfræðingar á viðkomandi hljóðfæri. Raunar má telja að jafnvel þótt um sérfræðing sé að ræða verði ekki gerð sú krafa að prófdómari þekki fyrirfram til prófverkefna og geti metið þau eingöngu á grundvelli upplýsinga um heiti verka og höfund.

Strax við undirbúning fyrstu prófa á vegum Prófanefndar tónlistarskóla varð ljóst að hvorki væri framkvæmanlegt né skynsamlegt að leggja upp með þá framkvæmd prófreglunnar í 8. lið að skólar yrðu ætíð að senda nótur og önnur gögn með prófbeiðnum þannig að unnt væri að meta verkefnin fyrirfram. Blasti við að slík framkvæmd yrði þung í vöfum og kostnaðarsöm, enda myndi hún útheimta umstang og aukna vinnu bæði fyrir skólana, Prófanefnd og prófdómara, sem mæta yrði með hærra prófgjaldi en ella. Allra hluta vegna væri því heppilegra að treysta mati skólanna sjálfra, þar til annað kæmi í ljós, og túlka prófregluna í samræmi við það, enda bera skólanir samkvæmt öðrum ákvæðum prófreglnanna ábyrgð á því að verkefnin séu fullnægjandi, eins og fram er komið.

Af þessum ástæðum hefur verið farið nokkuð vægar í sakirnar við framkvæmd Prófanefndar á umræddu ákvæði prófreglna en orðalag ákvæðisins gefur tilefni til. Var sú framkvæmd ákveðin þegar á árinu 2004 í samráði við menntamálaráðuneytið. Hefur í þessum efnum annars vegar verið byggð á þeirri túlkun á greindu ákvæði prófreglnanna að fyrirmæli um að leggja „verkefnalista“ fyrir prófdómara „fyrir upphaf prófs“ fælu ekki í sér annað og meira en það að þegar á prófstað væri komið hefði prófdómari upplýsingar um heiti prófverka og höfund, sbr. venjulega tilgreiningu í prófbeiðnum skóla. Hins vegar byggir verklag Prófanefndar á þeirri túlkun að skilja beri orðasambandið „próf fer því aðeins fram“ í síðari málslið ákvæðisins þannig að „próf“ teldist ekki vera áfangapróf í skilningi námskrár nema prófverkefni væru í samræmi við kröfur viðeigandi greinanámskrár að mati prófdómara, hvort sem nemandinn hefði leikið verkefnin eða ekki. Eins og nánar verður vikið að í 4. hér að neðan var talið að þessi túlkun gæfi kost á mildari framkvæmd reglunnar gagnvart próftökum heldur en ef beitt væri ströngustu bókstafstúlkun.

4.

Eins og rakið er í kæru taka verklagsreglur Prófanefndar á því tilviki þegar prófdómari telur að prófverkefni samrýmist ekki þyngdarstigi prófs eða falli að öðru leyti ekki að ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Verklagsregla um þetta efni byggir á þeirri túlkun fyrrgreinds 8. liðar prófreglna sem gerð er grein fyrir að framan. Um þetta segir í verklagsreglum:

"Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar."

Samkvæmt starfsvenju Prófanefndar hafa athugasemdir prófdómara um þyngd prófverkefnis farið í ákveðið ferli. Þannig hefur jafnan verið leitað álits sérfræðinga á viðkomandi hljóðfæri, annarra en þess prófdómara sem í hlut á, á því hvort framkomin athugasemd eigi rétt á sér, skýringa tónlistarskólans aflað, hafi verið talin þörf á því, og síðan fjallað um málið innan nefndarinnar. Sé talið að athugasemd prófdómara um þyngd verkefnis eigi við rök að styðjast er sú niðurstaða tilkynnt tónlistarskólanum (og þar með nemanda) með formlegum hætti í tengslum við útgáfu vitnisburðarblaðs eða annars vitnisburðar. Eins og rakið er í kafla III hér að framan hafði slík tilkynning ekki verið send skólanum þegar kæra sú barst sem hér er til umfjöllunar. Eftir móttöku kærunnar var ekki talið að slík formleg tilkynning hefði neina þýðingu, enda lá þá fyrir að skólinn vildi ekki una fyrrgreindri niðurstöðu prófdómara og hefði sett fram kæru þar að lútandi.

Rétt er að taka fram að sú ástæða býr að baki þessu verklagi að talið er að það sé viðurhlutaminna fyrir nemanda að fá að ljúka því prófi sem hann hefur undirbúið, þótt annmarkar kunni að vera á prófverkefnum, einu eða fleirum, í stað þess að vera snúið frá prófi sökum mats prófdómara á verkefnunum. Verður að árétta í þessum efnum að almennt fær hvorki Prófanefnd né prófdómari prófverkefni send fyrirfram ásamt nótum, þannig að unnt sé að leggja mat á þau áður en komið er að prófi. Þá kann að vera – og hefur oftar en einu sinni komið fyrir – að prófdómara skjátlist í mati sínu á verkefnunum, þannig að athugasemd um þyngdarstig o.fl. reynist ekki eiga við rök að styðjast. Er augljóst að þá væri komin upp algjörlega ófær staða gagnvart nemandanum. Loks gefur þessi framkvæmd Prófanefndar færi á því að afgreiða próf með lækkun einkunnar vegna ágalla á prófi í stað þess að prófi sé hafnað að öllu leyti. Nemanda er þó ætíð gefinn kostur á því að endurtaka próf.

5.

Í kæru eru gerðar athugasemdir varðandi samráð Prófanefndar tónlistarskóla og menntamálaráðuneytisins um túlkun á prófreglum og ákvörðun verklags sem rakið er að framan. Er að skilja á kærunni að annað hvort sé dregið í efa að um slíkt samráð hafi verið að ræða eða þá að niðurstaða þess hafi falið í sér óheimila breytingu á námskrá, enda ekki verið auglýst í Stjórnartíðindum. Af þessu tilefni skal tekið fram að vafalaust voru umrædd samskipti Prófanefndar og ráðuneytisins á óformlegum nótum, þ.e. fóru fram á fundum eða með símtölum. Fyrir sitt leyti getur Prófanefnd staðfest að ekkert bréf barst nefndinni frá ráðuneytinu af þessu tilefni. Umfjöllun um þetta og önnur formsatriði, svo sem birtingu í Stjórnartíðindum, hefur hins vegar enga þýðingu, enda hefur Prófanefnd ekki litið svo á að ráðuneytið hafi með einhverjum hætti breytt eða fallist á að vikið væri frá ákvæðum prófreglnanna. Hér var eingöngu um það að ræða að Prófanefnd bar undir ráðuneytið ákveðna túlkun á viðkomandi reglu, sem rakin er hér að framan, og kynnti verklag á grundvelli hennar, sem ráðuneytið féllst á eða gerði a.m.k. ekki athugasemdir við.

Um heimild Prófanefndar tónlistarskóla til að skýra og túlka ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla er þess að geta að í námskrá er beinlínis tekið fram að frekari útfærsla á samræmingu mats og prófdæmingar sé í höndum „nefndar á vegum tónlistarskóla, rekstraraðila þeirra og menntamálaráðuneytis“, svo sem segir í neðanmálsgrein á bls. 33 í prentaðri útgáfu námskrár. Þetta hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið ítrekað við ýmis tækifæri, m.a. með bréfi til nokkurra tónlistarkennara, dags. 26. maí 2010, sem einnig var sent Prófanefnd og Félagi tónlistarskólakennara. Með bréfi þessu var tiltekinni ósk um breytta framkvæmd aðalnámskrár tónlistarskóla, þ.e. að dregið yrði úr prófkröfum á einum þætti miðprófs í klarínettuleik, svarað með þeim hætti að það væri í höndum tónlistarskólanna sjálfra og Prófanefndar að finna lausn á málinu. Að mati Prófanefndar fer því ekki á milli mála að nefndinni er fyllilega heimilt að ákveða um einstök útfærsluatriði áfangaprófa. Verður að telja jákvætt og í þágu allra tónlistarskóla til lengri tíma að slíkur sveigjanleiki sé til staðar. Ber að gjalda varhug við því ef einstakir tónlistarskólar leitist vegna stundarhagsmuna sinna við að takmarka möguleika Prófanefndar til að aðlaga framkvæmd prófakerfisins að þörfum skólanna.

Bent skal á að þegar kom að útgáfu námskrár í rytmískri tónlist á árinu 2010 þótti ástæða til þess að orða umrætt ákvæði prófreglna með öðrum hætti en í almennum hluta aðalnámskrár. Í námskrá í rytmískri tónlist eru birtar helstu efnisreglur aðalnámskrár varðandi almenn atriði tónlistarnáms, m.a. prófreglur. Þar er að finna svohljóðandi ákvæði (9. liður) í prófreglum fyrir hljóðfærapróf:

"Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara ber honum að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar tónlistarskóla sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti."

Samkvæmt þessu ber ekki saman orðalagi í prófreglum annars vegar í aðalnámskrá tónlistarskóla og hins vegar í námskrá í rytmískri tónlist. Augljóst er þó að ekki er ætlast til þess að framkvæmd prófa sé mismunandi eftir tegund tónlistar. Svo hefur heldur ekki verið, eins og rakið hefur verið að framan. Fer raunar ekki á milli mála að orðalag í prófreglum í námskrá í rytmískri tónlist var ákveðið með hliðsjón af þeirri túlkun og framkvæmd sem mótuð hafði verið við framkvæmd áfangaprófa í klassískri tónlist.

6.

Það, sem hér hefur verið rakið um túlkun og framkvæmd Prófanefndar á 8. lið prófreglna fyrir hljóðfærapróf, ætti að vera öllum tónlistarskólum kunnugt, enda hefur verið hamrað á þessu atriði í nánast öllu kynningarstarfi Prófanefndar allt frá árinu 2004. Var þetta m.a. kynnt tónlistarskólum í fyrrgreindum leiðbeiningarbæklingi sem út kom á árinu 2004 og er áréttað á vef nefndarinnar (sjá: www.profanefnd.is/af-framkvaemd.htm).

Hvað snertir tónlistarskólann T sérstaklega skal bent á að ítrekað hefur á undanförnum árum komið til þess að prófdómarar hafi gert athugasemdir við verkefnaval með tilliti til þyngdarstigs. Um þetta má til dæmis vísa til tveggja bréfa Prófanefndar til skólans, dags. 8. október 2010, en annað þeirra varðaði grunnpróf í gítarleik. Úrlausn Prófanefndar í þessum tilvikum hefur á sama hátt og í öllum hliðstæðum málum verið á eins hófstilltum nótum og frekast hefur verið kostur. Það er sameiginlegt þessum bréfum að þar er gerð grein fyrir verklagi Prófanefndar þegar álitamál koma upp um þyngdarstig verkefna.

Það fer því ekki á milli mála að skólinn þekkti mæta vel til vinnulags Prófanefndar og prófdómara á vegum nefndarinnar, hvað varðar þá þætti sem hér um ræðir, þegar beðið var um gítarprófið fyrir A. Í prófbeiðni kom ekki fram neinn fyrirvari hvað þetta varðar, en slíkan fyrirvara hefði raunar orðið að skilja sem beiðni um að lagt yrði sérstakt mat á prófverkefnin fyrir fram.

7.

Vegna röksemda í tölvubréfi tónlistarskólans frá 7. október 2015, þar sem vísað er til meints fordæmis við afgreiðslu Prófanefndar tónlistarskóla á hliðstæðu máli hjá tónlistarskólanum U, skal tekið fram að niðurstaða í umræddu máli hjá U var byggð á því að þau mistök hefðu orðið að láðst hefði að greina skólanum með formlegum hætti frá því að ekki þætti unnt að viðurkenna viðkomandi próf sem áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. Var talið að þessi annmarki á málsmeðferð kynni að hafa leitt til þess að þeir aðilar, sem ættu kærurétt vegna ákvörðunar prófdómara samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla, hefðu ekki haft tækifæri til að nýta sér kæruheimild sína. Af þessum sökum taldi Prófanefnd rétt að fella niður fyrri ákvörðun og gefa út fullgilt vitnisburðarblað um áfangapróf.

Þess ber að geta að umkvörtun tónlistarskólans U vegna umræddrar afgreiðslu kom fyrst fram að löngu liðnum kærufresti samkvæmt skipulagsskrá eða að liðnum u.þ.b. þremur mánuðum eftir að vitnisburðarblað um frammistöðu nemandans var sent skólanum. Vitnisburðarblað hafði ekki verið sent skólanum fyrr en um miðjan júní eða allnokkru eftir að skólastarfi lauk. Af þeirri ástæðu var sérstaklega mikilvægt, með tilliti til heimildar til að fá ákvörðun prófdómara hnekkt, að kynna niðurstöðuna með formlegum hætti.

Framangreindir annmarkar á málsmeðferð Prófanefndar tónlistarskóla í tilviki tónlistarskólans U réðu niðurstöðu í máli þess skóla, en niðurstaðan byggði ekki á því að fallist hefði verið á sjónarmið skólans um skilning á 8. lið prófreglna námskrár, svo sem kærandi virðist telja. Meðferð máls kæranda hefur að vísu ekki verið gallalaus, en þó er ekki um slíka annmarka að ræða sem í tilviki tónlistarskólans U, og þrátt fyrir hnökra á máli kæranda er ljóst að þeir komu ekki að sök, enda neytti kærandi heimildar samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár innan frests sem þar greinir. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda á þeim grundvelli sem kemur fram í tölvubréfinu frá 7. október 2015.

8.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður með engu móti fallist á það með kæranda að Prófanefnd sé skylt að gefa út vitnisburðarblað og áfangaprófsskírteini fyrir A, miðað við að próf hennar teljist fullnægjandi áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, sökum þess að prófdómari hafi ekki fylgt prófareglum. Eins og fram er komið verður þvert á móti talið að prófdómarinn hafi fylgt út í ystu æsar reglum sem hér eiga við og skólanum voru kunnar.

Af hálfu kæranda hafa engar efnislegar athugasemdir verið gerðar við ályktun prófdómara um að viðfangsefni á prófi A hafi verið of létt miðað við kröfur námskrár í gítarleik. Athugasemdir prófdómara varða sem fyrr segir fjögur verkefni á prófi A, þ.e. tónverkin Torito eftir J.M. Zenamon, Study on the first string eftir J.K. Mertz og Prelude eftir Aaron Sherer, svo og æfinguna Lesson 46 eftir Sagreras. Öll þessi verk taldi prófdómari of létt sem verkefni á grunnprófi miðað við kröfur námskrár í gítarleik. Prófanefnd hefur athugað þessi verk og fengið álit annarra prófdómara. Er það mat nefndarinnar að verulega skorti á að þau samrýmist kröfum sem gerðar eru í aðalnámskrá tónlistarskóla til prófverkefna á grunnprófi. Eins og fram er komið er því út af fyrir sig ekki haldið fram af hálfu kæranda að verkefnin standist kröfur námskrár. Því þykir ekki tilefni til ýtarlegrar umfjöllunar um þetta atriði. Um öll tónverkin og æfinguna má almennt segja að þau geti verið hæfileg verkefni í fyrri hluta grunnnáms (eða sem 1. og hugsanlega 2. stigs skólapróf), en langt frá því fullnægjandi sem viðfangsefni á grunnprófi.

Við mat á því hvort unnt sé að viðurkenna próf A sem grunnpróf í skilningi námskrár verður bæði að líta til einstakra viðfangsefna á prófinu og efnisskrár prófsins í heild sinni. Eins og rakið er að framan verður að telja að í fjórum viðfangsefna prófsins, þar á meðal í öllum tónverkunum, víki þyngdarstig verks verulega frá viðmiðunum í námskrá. Eins og prófinu hefur verið farið samkvæmt framansögðu, þ.e. bæði fjöldi viðfangsefna sem teljast ekki fullnægjandi og að um veruleg frávik frá kröfum námskrár er að ræða í öllum þessara tilvika, þykir ekki fært að viðurkenna próf A sem gilt áfangapróf samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla.

Úrskurðarorð:

Próf A, sem fram fór 15. apríl 2015, telst ekki hafa verið áfangapróf (grunnpróf) í skilningi aðalnámskrár tónlistarskóla.