A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 5, 5. nóvember 2005

Hinn 5. nóvember 2005 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með bréfi, dags. 8. september 2005, hafa X og Y, foreldrar A, kært niðurstöðu áfangaprófs sem A, þreytti hinn 30. apríl 2005 við tónlistarskólann T. Prófdómari var P.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 30. apríl 2005 þreytti A grunnpróf í fiðluleik við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara og ákvörðun Prófanefndar var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni      Umsögn  Einingar




Tónverk I Allgóður heildarsvipur. Allgóð tilfinning fyrir hryn. Ath. með tónmyndun. 12




Tónverk II Allgóð tilfinning fyrir stíl, eiginleikum og blæ. Vel spilað. 13




Tónverk III Komst í gegn með erfiðismunum.  7




Æfing  Vel spilað, hreint og nokkuð öruggt. 13




Tónstigar og hljómar Varkárt, allnokkrar feilnótur en virtist þó undirbúið. 11




Val Echo - leikið eftir nótum Viðunandi heildarsvipur, vantar þó allt bergmál, þ.e. mun á f og p.  6




Óundirbúinn nótnalestur Verkefni ekki leikið. 0




Heildarsvipur  Mjög óörugg. Kunni vel það sem hún náði að spila en týndi sér svo inn á milli. 2




Frádráttur þar sem valþáttur samræmdist ekki ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. - 6




Einkunn  Nemandinn stóðst ekki próf 5,8




Vitnisburðarblað A var sent tónlistarskólanum T með bréfi Prófanefndar tónlistarskóla, dags. 23. ágúst 2005. Í bréfinu var tekið fram að Prófanefnd hefði undanfarið haft til umfjöllunar athugasemdir prófdómara vegna grunnprófs A, þess efnis að valverkefni A, sem hefði samkvæmt prófbeiðni átt að vera verk sem lært hefði verið eftir eyra, hefði verið leikið eftir nótum í prófinu. Síðan sagði í bréfi þessu:

"Með tölvupósti 17. júní 2005 leitaði Prófanefnd eftir því við skólastjóra að fá nótur af valverkefni A. Í júlímánuði leitaði móðir A upplýsinga frá Prófanefnd um niðurstöður prófsins og fékk þá þær upplýsingar að nefndin hefði óskað eftir nótum af umræddu valverkefni. Í kjölfar þessa sendi móðir A umbeðnar nótur. Eftir athugun þessara gagna og að virtri skýrslu prófdómara telur Prófanefnd ljóst að valverkefni A hafi ekki samræmst ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla um viðfangsefni á grunnprófi, enda er ekki gert ráð fyrir því í aðalnámskrá að valverkefni sé leikið eftir nótum.

Í samræmi við verklagsreglur Prófanefndar gaf prófdómari umsögn og einkunn fyrir valverkefnið án tillits til þess að það væri leikið eftir nótum. Það leiðir hins vegar af niðurstöðu nefndarinnar um greindan annmarka að óhjákvæmilegt er að fella einkunnagjöf prófdómara niður með sérstökum frádráttarlið á vitnisburðarblaði. Hefur Prófanefnd í dag gefið út vitnisburðarblað í samræmi við þetta, en að öðru leyti samkvæmt niðurstöðu prófdómara."

III.

Kæra til Prófanefndar tónlistarskóla er í fyrsta lagi byggð á því að Prófanefnd hafi ranglega fellt niður einingar vegna valþáttar prófsins á þeim grundvelli að valverkefnið Echo hafi verið spilað eftir nótum. Kennari A hafi kennt henni lagið með því að spila það fyrir hana og hafi hún átt að herma eftir. Móðir hennar hafi setið kennslustundina. Nótur hafi þar hvergi komið nærri. Hins vegar hafi A síðan fengið nóturnar og nýtt þær eitthvað til að slípa saman við undirleikinn. Hún hafi þurft að vita hvar hún ætti að koma inn eftir þagnir í laginu, en henni hafi fundist undirleikurinn truflandi, svona eins og sérstakt lag. Nóturnar hafi hún fengið ljósritaðar hjá kennara og þær þá verið með allri þeirri fingrasetningu og kroti sem sjá megi á því eintaki sem sent hafi verið Prófanefnd. A kannist ekki við að hafa spilað vallagið eftir nótum á prófinu sjálfu - eina lagið sem hún hafi notað nótur við hafi verið Bourée (tónverk III), en þær nótur hafi prófdómarinn látið hana fá, aðrar nótur hafi verið hjá prófdómara.

Þeirri spurningu er varpað fram af hálfu kærenda hvernig standi á því, hafi valverkefni A verið eitthvað öðruvísi en til var ætlast, að Prófanefnd hafi samþykkt próftökuna og að prófdómari hafi ekki stöðvað flutninginn. A hefði hæglega getað spilað önnur lög og þar á meðal lög eftir móður sína sem sannanlega engar nótur séu til við. A hafi lært utanað öll þau lög sem hún hafi æft.

Í öðru lagi er í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla byggt á því að prófdómari hafi ekki gætt reglna við framkvæmd prófsins og eru í þessu sambandi gerðar athugasemdir varðandi tvo prófþætti.

A hafi farið út af laginu í einum kafla í laginu Bourée (tónverk III) og átt erfitt með að komast inn aftur. Það hafi endað með því að prófdómarinn hafi látið hana fá nóturnar. Eftir fjölmargar tilraunir hafi hún komist yfir þennan hjalla og í gegn um lagið. Merkilegt sé að A hafi ekki verið látin hvíla lagið og spila í gegn um það sem eftir var af prófinu og ljúka síðan með þessu lagi. Þá hefði hún frekar komist klakklaust í gegnum lagið og restin af prófinu gengið betur. Varpa kærendur fram þeirri spurningu hvort reglur Prófanefndar banni að geyma prófþátt þar til síðar í prófi.

Þá er að því er varðar framkvæmd prófsins vikið að óundirbúnum nótnalestri. Í umsögn prófdómara komi fram að verkefni hafi ekki verið leikið. A hafi reynt við verkefnið. Hún hafi ekki vitað að óundirbúinn nótnalestur yrði hluti af prófinu og ekki vitað hvernig best væri að bera sig að. Hún hafi byrjað á verkefninu, en síðan gefist upp. Einhvern veginn hafi hún ímyndað sér að hún þyrfti ekki að spila þetta. Spyrja megi hvort ekkert sé gefið fyrir viðleitni.

Í þriðja lagi kemur fram í kæru til Prófanefndar að kærendur telji að ósamræmi sé í umsögn og einkunnagjöf prófdómara um heildarsvip. Samkvæmt viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf merki 2 einingar: "Óöryggi og skortur á sannfærandi flutningi, óviðunandi framkoma, undirbúningi prófs virðist ábótavant." Einkunnir eins og 12, 13 og 13 bendi ekki til mikils óöryggis eða skorts á sannfærandi flutningi og prófdómari taki ekki fram að framkoma hafi verið óviðunandi, enda kæmi það á óvart ef svo hefði verið, sbr. vitnisburðarblað úr grunnskóla sem fylgir kærunni. Þá taki prófdómari ekki fram að undirbúningi prófs hafi verið ábótavant. A hafi stefnt að þessu prófi allan veturinn. Hún hafi ekki verið búin undir óundirbúinn nótnalestur, en annað hafi verið vel undirbúið. Þótt hún hafi farið út af laginu í Bourée (prófliður III) væri undarleg niðurstaða að undirbúningi væri ábótavant, nema þá helst í því að fara útaf. Miðað við þetta próf hafi A passað inn í punktana sem standi fyrir 3 einingar. Varla hafi henni hrakað svo mjög frá síðasta prófi, sbr. meðfylgjandi vitnisburðarblað frá tónlistarskólanum. A sé nemandi sem hefði átt að geta fengið mun hærri einkunn ef aðstæður hennar hefðu verið betri. Ef einkunnir á prófinu séu skoðaðar án tillits til umsagnar hefði verið óhugsandi að gefa aðeins þessi 2 stig.

Í niðurlagi kærunnar eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð Prófanefndar tónlistarskóla. Fundið er að því að tekið hafi fjóra mánuði til að dæma próf sem metið sé með hlustun. Slíkt sé ekki ásættanlegt. Þá hafi formaður Prófanefndar beðið móður A um nótur af vallagi og sagt að það myndi flýta fyrir afgreiðslu prófsins. Það hafi samt tekið einn og hálfan mánuð og gögnin virðist hafa verið notuð til að fella A. Ekkert hafi verið spurt um hvernig hún hafi lært lagið.

Kærendur taka fram að hæpið sé að fella nemanda með 0,2 þegar litið sé til þess að um huglægt mat sé að ræða, enda verði ekki betur séð en að 0,2 sé innan skekkjumarka á slíku prófi. Telji kærendur, foreldrar A, að hún hafi náð þessu prófi þrátt fyrir það álag sem hvílt hafi á henni, sbr. tölvubréf til Prófanefndar 22. ágúst 2005. Hún hafi gert það sem fyrir hana hafi verið lagt og ekki fallið á því, en samt verið felld með því að taka einkunnina af henni og gefa 0 í staðinn.

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 22. september 2005, segir:

"Verkefnið Echo var spilað. Það var greinilegt að nemandinn hafði undirbúið lagið með hliðsjón af nótum, hún var óörugg þegar hún spilaði það vegna mikils taugaóstyrks og endaði kennarinn á því að setja nótur fyrir framan nemandann sem sýndi að í þessum lið var engin sköpun.

Þegar nemandinn hóf flutning á verkinu Bourée þá stoppaði hún vegna mikils taugaóstyrks (hágrét og var í miklu uppnámi) og átti erfitt með að koma sér aftur inn í lagið, hún byrjaði aftur og aftur en átti greinilega erfitt með einbeitingu vegna mikils taugaóstyrks eins og áður segir. Henni var ráðlagt að hvíla lagið og fékk að spila það síðar í prófinu.

Óundirbúinn nótnalestur, þessi liður var ekki leikinn, nótur voru settar fyrir framan nemanda og hann var ítrekað hvattur til að takast á við verkefnið en hann treysti sér ekki til þess.

Heildarsvipur: "Mjög óörugg", nemandinn var greinilega ekki undirbúinn undir próf af þessu tagi, hann vissi ekki hvernig hann átti að bera sig að, mjög taugaóstyrkur, hágrét nær allan tímann, prófdómari og líka kennari gengu á eftir honum ítrekað til að fá hann til að halda áfram. Prófið fór langt út fyrir gefin tímamörk.

Kennari nemandans var allan tímann viðstaddur og reyndi mikið að róa nemanda sinn án árangurs, hann kom með ábendingar til hans, gekk til hans, talaði til hans bæði á faglegum og föðurlegum nótum.

Með hliðsjón af ofanrituðu og viðmiðunum Prófanefndar tel ég að einkunnagjöf hafi verið í samræmi við frammistöðu nemanda."

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Telja verður að meginþáttur í kæru til Prófanefndar tónlistarskóla varði þá ákvörðun nefndarinnar, sem tilkynnt var tónlistarskólanum T með bréfi, dags. 23. ágúst 2005, sbr. einnig vitnisburðarblað, dags. sama dag, að fella niður einkunnagjöf (einingar) prófdómara fyrir valþátt á grunnprófi A í fiðluleik. Byggja kærendur á því að þessu prófverkefni hafi ranglega verið hafnað, sbr. 6. gr. skipulagsskrár Prófanefndar tónlistarskóla. Þá telja kærendur að annmarkar hafi verið á framkvæmd prófsins í prófþættinum Tónverk III, þar sem próftaka hafi ekki verið leyft að geyma þennan lið þar til síðast í prófinu, og finna að því að ekki hafi verið gefið fyrir viðleitni í óundirbúnum nótnalestri. Loks tekur kæra til þess að einkunnagjöf (einingar) í heildarsvip sé ekki í samræmi við umsögn prófdómara. Þá eru í kærunni gerðar athugasemdir við málsmeðferð Prófanefndar.

3.

Rétt þykir að víkja fyrst að athugasemdum kærenda varðandi málsmeðferð Prófanefndar, en þær lúta annars vegar að ekki hefði verið rétt að samþykkja valverkefni próftakans ef það hafi ekki verið í samræmi við það sem til sé ætlast og hins vegar finna kærendur að því að vitnisburðarblað hafi ekki verið gefið út fyrr en að liðnum fjórum mánuðum frá því að próf fór fram.

Af þessu tilefni er rétt að taka fram að í almennum prófreglum fyrir hljóðfæra- og tónfræðapróf, sem er að finna í aðalnámskrá tónlistarskóla, segir í 1. lið:

"Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum."

Í prófreglum fyrir hljóðfærapróf í sama riti, segir í 2. og 3. lið:

"Kennari skal gæta þess að þyngd prófverkefna sé í samræmi við kröfur námskrár." ... "Fylgja skal fyrirmælum námskrár um fjölda, inntak og umfang prófþátta."

Þá er svohljóðandi ákvæði í 8. lið prófreglnanna:

"Kennari skal leggja verkefnalista prófsins fyrir prófdómara fyrir upphaf prófs. Próf fer því aðeins fram að verkefni uppfylli kröfur viðeigandi námskrár samkvæmt mati og staðfestingu prófdómara."

Þetta ákvæði hefur ekki verið skilið þannig að tónlistarskólum sé skylt að senda Prófanefnd nákvæmar upplýsingar um inntak allra prófþátta, svo sem nótur af tónverkum og tækniæfingum og lýsingu á valverkefni. Prófanefnd hefur hins vegar boðið tónlistarskólum þá þjónustu að leggja mat á það hvort viðfangsefni samræmist kröfum aðalnámskrár, en slíkar beiðnir ásamt gögnum þurfa að berast með tileknum fyrirvara. Af hálfu tónlistarskólans T var ekki farið fram á mat Prófanefndar á verkefnavali A áður en próf fór fram.

Þá hefur við framkvæmd Prófanefndar á 8. lið prófreglna verið farið nokkuð vægar í sakirnar en orðalag ákvæðisins gefur tilefni til. Í verklagsreglum Prófanefndar er fjallað um það tilvik þegar prófdómari telur að prófverkefni samrýmist ekki þyngdarstigi prófs eða falli að öðru leyti ekki að ákvæðum aðalnámskrár tónlistarskóla. Um slík atvik segir:

"Í því tilviki að nemandi flytur verk sem að mati prófdómarans samræmist ekki þyngdarstigi prófsins, gerir prófdómari sérstaka skriflega athugasemd þess efnis til Prófanefndar tónlistarskóla. Einnig þarf ljósrit af viðkomandi verki að fylgja athugasemd prófdómara. Eigi að síður hlustar prófdómari á verkið og metur það í samræmi við viðmiðanir Prófanefndar."

Samkvæmt verklagsreglum Prófanefndar er því ekki eingöngu hlutverk viðkomandi prófdómara að leggja mat á það hvort prófverkefni sé í samræmi við reglur aðalnámskrár tónlistarskóla, heldur er gengið út frá því að Prófanefnd geti hnekkt áliti prófdómara um slík atriði, eftir atvikum á grundvelli ráðgjafar sérfræðinga á viðkomandi hljóðfæri, við útgáfu vitnisburðarblaðs. Þetta girðir hins vegar ekki fyrir það að taka má niðurstöðu prófdómara til endurmats við kærumeðferð í samræmi við ákvæði 6. gr. skipulagsskrár. Þá hefur sú framkvæmdavenja verið mótuð að varði annmarkar aðeins tiltekna þætti á áfangaprófi, en ekki verkefnaval í heild sinni eða að verulegum hluta, megi taka próf gilt varðandi aðra prófþætti en þá sem ekki teljast vera í samræmi við aðalnámskrá, svo sem gert var í tilviki A. Þá skal að öðru leyti vegna athugasemda kærenda tekið fram að það getur ekki verið á verksviði prófdómara að leggja fyrir nemanda að leika önnur verk á prófi en þau sem eru á verkefnalista þess, enda ber kennari ábyrgð á vali verkefna.

Eins og fram kemur í bréfi Prófanefndar, dags. 23. ágúst 2005, gerði prófdómari þá athugasemd á prófblaði vegna áfangaprófs A að flutningur valverkefnis hefði ekki verið í samræmi við aðalnámskrá tónlistarskóla. Nánar tiltekið var athugasemd prófdómara svohljóðandi: "Val: Þetta var ekki leikið eftir eyra, engin sköpun, spilað eftir nótum." Vegna mistaka hélt prófdómari ekki eftir nótum af valverkefni A, sem þó lá fyrir að höfðu verið tiltækar á prófstað, og fékk Prófanefnd þær því ekki í hendur ásamt prófblaði prófdómara. Af þessum sökum leitaði formaður Prófanefndar eftir því við skólastjóra tónlistarskólans T með tölvupósti 17. júní 2005 að hann léti nefndinni nóturnar í té, enda þótti nauðsynlegt að ganga úr skugga um það hvers eðlis umrætt verk væri og þótti m.a. ekki útilokað, þrátt fyrir upplýsingar í prófbeiðni skólans, að um frumsamið verk væri að ræða. Nóturnar höfðu ekki borist Prófanefnd þegar móðir próftaka hafi samband við Prófanefnd með tölvupósti 4. júlí 2005, svo sem móður próftaka var gerð grein fyrir með tölvupósti formanns Prófanefndar 5. júlí 2005 og henni jafnframt bent á að það myndi flýta fyrir afgreiðslu málsins ef hún gæti sent umræddar nótur af valverkefni. Taka verður undir það með kærendum að afgreiðsla málsins hafi tekið of langan tíma eftir að nóturnar bárust nefndinni og er það eitt til skýringar á því, en ekki afsökunar, að sumarleyfistími stóð yfir. Ekki er hins vegar um það að ræða að þessi gögn hafi verið "notuð af nefndinni til að fella A", eins og segir í kæru, enda lá út af fyrir sig ekki annað fyrir, þótt nóturnar hefðu ekki borist, en að gefa út vitnisburðarblað á grundvelli athugasemdar prófdómara, svo sem gert var að lyktum. Þá verður með sama hætti að fallast á að rétt hefði verið að fylgja málum eftir af meiri þunga gagnvart tónlistarskólanum T þegar í ljós kom að nóturnar voru ekki meðal gagna prófdómara. Prófanefnd vill hér með biðja A og foreldra hennar afsökunar á þeim langa tíma sem afgreiðsla vitnisburðarblaðs tók.

4.

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla er vægi valþáttar á áfangaprófi 10 einingar af 100 einingum alls. Skal nemandi velja eitt eftirtalinna viðfangsefna sem valverkefni:

  • Spinni einradda út frá gefnu upphafi, hljómferli eða lagi, með eða án undirleiks.
  • Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu.
  • Hljómsetji stutta laglínu óundirbúið. Þetta á við um nemendur sem geta leikið hljóma á hljóðfæri sín.
  • Leiki stutt alþýðulag eða þjóðlag sem lært hefur verið eftir eyra.

Það er sameiginlegt atriði þessum viðfangsefnum að nemendum er ætlað að sýna afrakstur af skapandi starfi og sjálfstæðri tónlistariðkun og í engu tilviki er um að ræða flutning skráðra verka eftir aðra. Um leik eftir eyra segir í aðalnámskrá tónlistarskóla:

"Fátt þroskar tóneyra meira en að leika eftir eyra. Mikilvægt er að nemendur fái örvun og leiðbeiningu í að leika lög á þennan hátt, t.d. þekkt lög eftir minni eða lög lærð af hljóðritunum. Þessi þáttur námsins miðar meðal annars að því að nemendur verði hæfari til sjálfstæðrar tónlistariðkunar og að þeir geti leikið undirbúningslítið við ýmsar aðstæður."

Samkvæmt beiðni tónlistarskólans T til Prófanefndar tónlistarskóla um prófdæmingu á áfangaprófi A, sem barst nefndinni 6. apríl 2005, skyldi valverkefni felast í flutningi verks sem leikið yrði eftir eyra, sbr. lið d) að framan. Ekki var tiltekið hvaða lag yrði flutt og ekki kom fram að um samleiksverk væri að ræða.

Ekki fer á milli mála að valverkefni A var bæði umfangsmeira og erfiðara en gert er ráð fyrir í valþættinum "lært eftir eyra" í aðalnámskrá, þar sem viðfangsefni skal vera "stutt alþýðulag eða þjóðlag". Það getur þó ekki haft nein úrslitaáhrif á niðurstöðu málsins, enda er ekki óheimilt að nemandi takist á við þyngri viðfangsefni en skylt er. Skal áréttað að það er á ábyrgð viðkomandi kennara hvaða verkefni hann leggur fyrir nemanda sinn í þessum prófþætti sem öðrum.

Sem fyrr segir laut athugasemd prófdómara varðandi valþátt prófs A að því að lagið hefði "ekki [verið] leikið eftir eyra, engin sköpun, spilað eftir nótum". Þær athugasemdir prófdómara að valverkið hefði ekki verið leikið eftir eyra og að engin sköpun hafi komið fram í verkinu fela í sér það mat prófdómara að verkið hafi ekki verið lært eftir eyra. Í vitnisburðarblaði, dags. 23. ágúst 2005, og í bréfi Prófanefndar sama dag til tónlistarskólans T er um þetta notað orðalagið að valverkefnið hefði verið "leikið eftir nótum" sem er í samræmi við orðalag í athugasemd prófdómara til Prófanefndar. Prófdómari áréttar í greinargerð sinni til Prófanefndar, dags. 22. september 2005, að próftaki hafi stuðst við nótur við flutning verksins í prófinu. Frásögn próftakans, sem vitnað er til í kæru, er á annan veg. Hvað sem þessu líður er óumdeilt að nóturnar voru til staðar við próftökuna, hvort sem próftaki eða kennari hans kom með þær, sem telja verður að bendi eindregið til þess að þær hafi verið notaðar við undirbúning þessa prófverkefnis. Það sem kemur fram í kæru til Prófanefndar um hvernig A hafi lært lagið þykir ekki geta breytt þessu. Raunar kemur jafnframt fram í kærunni að hún hafi stuðst við nótur af laginu við undirbúning sinn. Árétta verður að það að verk sé lært eftir eyra felur í sér að nemandi styðjist ekki við nótur að neinu leyti þegar hann tileinkar sér verkið.

Samkvæmt framansögðu þykir ekkert hafa komið fram sem þykir geta hnekkt þeirri niðurstöðu prófdómara að valverkefni próftaka, A, hafi verið undirbúið a.m.k. með hliðsjón af nótum og því ekki verið í samræmi við ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla. Taka verður undir það með kærendum að próftakanum verður í sjálfu sér ekki kennt um þetta atriði, enda verður að telja að hér beri kennari nemandans höfuðábyrgð og er raunar helst að sjá að kennaranum hafi ekki verið ljóst til hvers væri ætlast í þessum próflið og því undirbúið nemanda sinn á rangan hátt. Það getur ekki breytt því að á engan hátt er unnt að viðurkenna að um fullnægjandi valverkefni hafi verið að ræða.

5.

Í kæru til Prófanefndar byggja kærendur á því að prófdómari hafi ekki gætt reglna um framkvæmd prófs þar sem próftaka hafi ekki verið leyft að hvíla prófþáttinn Tónverk IIII, sem var verkið Bourée eftir J.S. Bach, þar til í lok prófsins, en hún hafi átt í erfiðleikum með lagið, svo sem nánar er rakið. Tekið skal fram að samkvæmt prófreglum í aðalnámskrá tónlistarskóla ræður nemandi röð prófverkefna. Í umsögn prófdómara kemur fram að próftaka hafi verið ráðlagt að hvíla lagið þegar í ljós kom að hún gat ekki einbeitt sér að því og hún fengið að spila það síðar í prófinu. Ekki kemur þó fram hvort verk þetta hafi verið leikið síðast í prófinu eða ekki, en ekki verður séð að það geti hafa haft áhrif á frammistöðu, svo sem atvikum var háttað. Að þessu virtu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að um neina þá annmarka hafi verið að ræða á framkvæmd prófsins að því er varðar röð prófverkefna sem gefi tilefni til athugasemda af hálfu Prófanefndar.

6.

Samkvæmt umsögn prófdómara um prófþáttinn Óundirbúinn nótnalestur var verkefnið ekki leikið. Í umsögn prófdómara til Prófanefndar er gerð nánari grein fyrir atvikum við prófið að því er þennan prófþátt varðar og kemur þar m.a. fram að próftaki hafi ekki treyst sér til að takast á við það verkefni sem fyrir var lagt. Í kæru til Prófanefndar er greint frá því að próftaki hafi ekki vitað að óundirbúinn nótnalestur yrði hluti af prófinu. Hún hafi byrjað á verkefninu en gefist upp.

Eins og fram kemur í 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla verður mati prófdómara á frammistöðu nemanda á áfangaprófi ekki hnekkt með kæru til Prófanefndar nema talið verði að annmarkar hafi verið á framkvæmd prófs. Samkvæmt viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf á grunnprófi í hljóðfæraleik skal gefa 0 einingar fyrir prófþátt sé verkefni ekki leikið. Ekkert þykir komið fram um að annmarkar hafi verið á framkvæmd prófþáttarins Óundirbúinn nótnalestur sem geti leitt til þess að hnekkja beri mati prófdómara varðandi þennan prófþátt.

7.

Af hálfu kærenda er talið að ósamræmi sé milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar (eininga) varðandi prófþáttinn Heildarsvipur. Í þessu sambandi vísa kærendur til einkunnagjafar prófdómara fyrir aðra prófþætti og telja að þegar niðurstaða prófsins sé virt í heild hafi frammistaða próftaka frekar fallið að viðmiðunum Prófanefndar til að hljóta einkunnina 3. Þá benda kærendur á að í umsögn prófdómara um heildarsvip komi ekki fram að frammistaða próftaka hafi verið óviðunandi eða að undirbúningi prófs hafi verið ábótavant.

Vegna athugasemda kærenda um að tiltekin atriði, sem tilgreind eru í viðmiðunum Prófanefndar fyrir einkunnagjöf, komi ekki fram í umsögn prófdómara er þess að geta að í viðmiðunarreglum Prófanefndar kemur fram að til að ná einkunn í tilteknum viðmiðunarflokki þurfi flest atriði sem þar koma fram, þó ekki nauðsynlega öll, að eiga við um frammistöðu nemandans. Til þess að hljóta einkunnina 2 í prófþættinum Heildarsvip þarf frammistaða nemanda að vera í samræmi við eftirfarandi atriði:

  • Óöruggt og skortur á sannfærandi flutningi
  • Óviðunandi framkoma
  • Undirbúningi prófsins virðist áfátt

Verður ekki annað séð en að samræmi hafi verið milli umsagnar prófdómara og einkunnagjafar um þennan prófþátt, enda byggja kærendur naumast á því að svo hafi verið, heldur telja þeir að einkunnagjöf fyrir Heildarsvip sé ekki í samræmi við niðurstöðu um aðra prófþætti. Er því í raun um að ræða kröfu um endurskoðun á mati prófdómara um einkunnagjöf vegna þessa prófþáttar, en úrlausn um slíka kröfu er ekki á valdsviði Prófanefndar svo sem það er markað í 6. gr. skipulagsreglna fyrir nefndina.

Rétt er þó að taka fram að eins og fram kemur í aðalnámskrá tónlistarskóla felst í prófþættinum Heildarsvipur að gefin er sérstök einkunn fyrir framkomu, listræna túlkun, öryggi og yfirbragð prófsins. Má út af fyrir sig taka undir það viðhorf kærenda að niðurstaða um þennan lið, sem felur í sér heildarmat á frammistöðu próftaka, hljóti að vera í verulegri samhljóman við umsögn og einkunnagjöf um aðra prófþætti. Allt að einu koma hér til athugunar atriði sem ekki verða fyllilega metin í einkunnagjöf fyrir einstök verkefni á prófi og getur einkunn vegna þessa liðar því verið hlutfallslega hærri eða lægri en fyrir aðra prófþætti. Í tilviki A er ljóst að verulegt óöryggi háði henni við próftökuna, svo sem áður hefur komið fram, og að það hafi ráðið úrslitum um einkunnagjöf varðandi Heildarsvip.

Vegna athugasemda kærenda um að naumast geti hafa verið ástæða til að gera athugasemdir við framkomu próftakans skal tekið fram að með hugtakinu "framkoma" í þessu sambandi er ekki vísað til almennra kurteisisatriða eða hegðunar, sem þó kann að sjálfsögðu að hafa áhrif á vitnisburð, heldur til listrænnar framkomu eftir því sem gera má kröfu til miðað við aldur nemanda og eðli verkefna, sbr. enska orðið performances sem notað er í enskri útgáfu viðmiðunarreglna Prófanefndar.

8.

Þótt það sé í sjálfu sér ekki hlutverk Prófanefndar sem úrskurðaraðila að fjalla um það sem betur hefði mátt fara í undirbúningi þess prófs sem hér um ræðir, verður ekki hjá því komist, m.a. vegna umfjöllunar í niðurlagi kæru, að árétta að viðkomandi tónlistarkennari ber faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda sinna og á því hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf. Ljóst er að verulega hefur skort á það í tilviki A að kennari hennar hafi búið hana undir próftökuna og er raunar með öllu óafsakanlegt ef rétt er að hún hafi verið látin þreyta grunnpróf án þess að kennarinn hafi undirbúið hana fyrir óundirbúinn nótnalestur. Óhjákvæmilegt er að það hafi áhrif á öryggi nemanda við próftöku, ekki síst þegar um er að ræða samviskusamt barn sem vill standa sig vel, þegar þannig er að verki staðið að próftaki veit ekki í megindráttum við hverju sé að búast í prófi.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A 30. apríl 2005 stendur óhaggað án athugasemda.