A L M E N N T   U M   Á F A N G A P R Ó F

Úrskurður um kæru vegna áfangaprófs

 

Úrskurður nr. 28, 17. febrúar 2020

Hinn 17. febrúar 2020 kvað Prófanefnd tónlistarskóla upp svohljóðandi úrskurð um kæru vegna áfangaprófs:

I.

Með kæru, dags. 21. janúar 2020, hefur söngkennari tónlistarskólans T kært niðurstöðu áfangaprófs sem A þreytti 9. desember 2019. Prófdómari var P. Kæran lýtur að frádrætti eininga sem færður var á vitnisburðarblað á þeim grundvelli að valverkefni hefði ekki verið í samræmi við kröfur námskrár. Kærandi krefst þess að fallið verði frá frádrættinum.

Í samræmi við skipulagsskrá Prófanefndar tónlistarskóla var leitað álits prófdómara á kærunni og hefur skriflegt álit prófdómara borist nefndinni.

II.

Hinn 9. desember 2019 þreytti A grunnpróf í einsöng við tónlistarskólann T. Samkvæmt niðurstöðu prófdómara og ákvörðun Prófanefndar var umsögn og einkunnagjöf eftirfarandi:

Verkefni     Umsögn  Einingar
G. Paisiello: Nel cor più non mi sento Fallega mótað, góð inntónun. Tæknilega öruggt að allra mestu leyti. 14
Atli Heimur Sveinsson: Erlustef (úr Gamanvísum) Sungið af öryggi. Flottur textaframburður. 15
R. Schumann: Erstes Grün Ótrúlega hrífandi flutningur og flott túlkun. 15
G.Ph. Telemann: Die Jugend Vantaði örlítið meiri styrkbreytingar, annars sannfærandi flutningur. 14
Söngæfingar Yfirleitt gott vald á inntónun. Jöfn tóngæði á öllu tónsviði. 14
Val: F. Mendelssohn: Abendlied Sannfærandi flutningur. Raddirnar blönduðust vel saman. 9
Óundirbúinn nótnalestur Réttur rytmi ekki alltaf réttar nótur. 7
Heildarsvipur  Greinilega mjög vel undirbúið próf. Örugg framkoma. Mjög falleg rödd! 5
Frádráttur þar sem valverkefni var ekki í samræmi við kröfur námskrár. - 9
Einkunn  Stóðst grunnpróf í einsöng 8,4
Við skil á prófblaði til PT vakti prófdómarinn athygli á því að valverkefnið á prófinu gæti naumast fallið undir neitt viðfangsefna á grunnprófi í einsöng.

Vitnisburðarblað A var sent tónlistarskólanum T með tölvupósti Prófanefndar 20. janúar 2020. Í tölvupóstinum var vakin athygli á að prófið væri afgreitt með frádrætti vegna annmarka á valþætti prófsins.

III.

Í kæru söngkennara tónlistarskólans T er lýst miklum vonbrigðum með frádrátt vegna valþáttar í prófi A frá heildareinkunn. Kveðst kærandi áður hafa látið nemendur syngja dúett sem valþátt í áfangaprófi og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það. Kæranda sé ljóst að tilgreindir séu möguleikar á útfærslu valþáttar, en ekki komi fram að annar flutningur sé bannaður.

Kærandi telji það bera vott um góðan metnað fyrir hönd nemenda skólans að leyfa þeim að syngja dúett eftir F. Mendelssohn á áfangaprófi, frekar en að fara öruggu leiðina, að láta nemendurna syngja Sofðu unga ástin mín undirleikslaust. Það hljóti að vera hlutverk kennara að lyfta verkefnavali á ákveðið plan og sýna námi og hæfileikum nemenda þannig virðingu.

Fer kærandi fram á að niðurstaða prófsins verði endurskoðuð.

IV.

Í bréfi P, prófdómara, til Prófanefndar, dags. 28. janúar 2020, segir:

„Dúettinn í söngprófunum tveimur sem ég dæmdi í desember síðastliðnum í T samræmist ekki neinum þeirra valmöguleika sem í boði eru á grunnprófi í einsöng.“

V.
Niðurstaða

1.

Samkvæmt 6. gr. skipulagsskrár fyrir Prófanefnd tónlistarskóla getur nemandi eða forráðamaður hans, kennari eða tónlistarskóli, sem telur að prófdómari hafi ranglega hafnað verkefnalista prófs, kært ákvörðun prófdómara til Prófanefndar tónlistarskóla. Þá geta þessir aðilar kært til Prófanefndar ef þeir telja að prófdómari hafi ekki gætt þeirra reglna um framkvæmd prófs sem fram koma í aðalnámskrá tónlistarskóla eða starfsreglum nefndarinnar. Einnig getur kæra tekið til þess ef greinilegt ósamræmi er í umsögn prófdómara og einkunnagjöf. Að öðru leyti sætir mat prófdómara ekki kæru.

Með úrskurði Prófanefndar tónlistarskóla skal ákveðið hvort próf skuli endurtekið, niðurstöðu prófs breytt eða það látið standa óhaggað með eða án athugasemda um framkvæmd þess. Í fyrstnefndu tilviki skal próf endurtekið í heild en án innheimtu prófgjalds samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar.

2.

Kæra til Prófanefndar tónlistarskóla varðar þá ákvörðun nefndarinnar, sem tilkynnt var tónlistarskólanum T með tölvupósti 20. janúar 2020, sbr. einnig vitnisburðarblað, dags. 16. janúar 2020, að fella niður einkunnagjöf (einingar) prófdómara fyrir valþátt á grunnprófi A í einsöng. Valverkefni nemandans var Abendlied eftir F. Mendelssohn sem nemandinn flutti sem dúett með öðrum söngnemanda sem einnig gekk til prófs þennan dag. Við útgáfu vitnisburðarblaðs var miðað við að verkefnið samrýmdist ekki reglum aðalnámskrár um valverkefni á grunnprófi.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að þessu prófverkefni hafi ranglega verið hafnað, sbr. 6. gr. skipulagsskrár Prófanefndar tónlistarskóla. Meðal annars bendir kærandi á að söngnemendur við skólann hafi áður flutt dúett sem valþátt í áfangaprófi og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það.

3.

Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla er vægi valþáttar á áfangaprófi 10 einingar af 100 einingum alls. Í greinanámskrá fyrir einsöng kemur fram að nemandi skuli velja eitt eftirtalinna viðfangsefna sem valverkefni:

  • Spinni út frá gefnu upphafi, hljómferli eða lagi, með eða án undirleiks.
  • Syngi frumsamið verk eða eigin útsetningu.
  • Syngi án undirleiks alþýðulag eða þjóðlag sem lært hefur verið eftir eyra.
  • Syngi lag í öðrum tónlistarstíl en þeim sem koma fyrir í námskránni, með eða án undirleiks.
  • Sýni með ótvíræðum hætti fram á eigið frumkvæði, frumlega og skapandi túlkun í flutningi lags að eigin vali, með eða án undirleiks.

Í einsöngsnámskránni er vísað til þess að frekari umfjöllun um valþátt grunnprófs sé að finna í almennum hluta aðalnámskrár, bls. 43. Þar er gerð grein fyrir viðfangsefnum sem flytja má sem valverkefni á grunnprófi. Eru tilgreindir fjórir flokkar viðfangsefna; a) spuni, b) frumsamið verk/eigin útsetning, c) hljómsetning stuttrar laglínu eða d) flutningur stutts alþýðulags eða þjóðlags sem nemandi hefur lært eftir eyra. Um síðasta flokkinn er tekið fram að söngnemendum sé skylt að flytja lagið án undirleiks. Það er á hinn bóginn sameiginlegt atriði þessum viðfangsefnum að nemendum er með valverkefni á grunnprófi ætlað að sýna afrakstur af skapandi starfi og sjálfstæðri tónlistariðkun og í engu tilviki er um að ræða flutning skráðra verka eftir aðra.

Einsöngur hefur í ýmsu sérstaka stöðu meðal námsgreina sem aðalnámskrá tónlistarskóla tekur til. Það leiðir af þessu að orðalag og flokkun viðfangsefna, svo og efnisákvæði, eru ekki að öllu leyti með sama hætti í greinanámskrá fyrir einsöng og í námskrám fyrir hljóðfæraleik. Meðal annars geta verkefni, sem falla undir liði d) og e) í greinanámskrá fyrir einsöng, verið útgefin á nótum. Allt að einu skulu verkefni samkvæmt þessum liðum skera sig með afgerandi hætti frá öðrum söngverkum á prófinu, ýmist hvað snertir tónlistarstíl, sbr. lið d), eða sérstakt framlag nemandans til flutnings verksins, sbr. lið e).

Það felst í orðalagi aðalnámskrár, þar sem segir að nemanda sé „gefinn kostur á að velja eitt eftirtalinna viðfangsefna“, að umrædd viðfangsefni eru talin upp með tæmandi hætti. Það er því ekki á valdi viðkomandi nemanda/skóla að velja viðfangsefni af öðrum toga en verður fellt í einhvern þeirra flokka (fimm flokka í tilviki einsöngs) sem námskrá tiltekur. Um einsöng er þess sérstaklega að geta að námskrá gefur allvíðtækan möguleika á flutningi valverkefnis á grunnprófi, sbr. lið e), en grunnatriði samkvæmt þeim lið er allt að einu að flutningur lags feli í sér frumlega og skapandi túlkun.

Flutningur verksins Abendlied eftir F. Mendelssohn verður ekki felldur undir neitt þeirra fimm viðfangsefna sem nemendur geta valið sem valverkefni á grunnprófi í einsöng. Ekki þarf að fjölyrða um liði a), b) og c) í upptalningu viðfangsefna í þessu sambandi. Að verkinu athuguðu má ljóst vera að það getur með engu móti talist vera í öðrum tónlistarstíl en þeim sem kemur fram í námskránni, sbr. lið d), og ekkert hefur komið fram, hvorki í umsögn prófdómara né í kæru, sem gefur tilefni til að ætla að skilyrði liðar e) hafi verið uppfyllt, sbr. það sem segir um þann lið hér að framan. Er hér einfaldlega um það að ræða að flutt var eitt söngverk til viðbótar öðrum verkefnum á prófinu.

4.

Í kæru er því haldið fram að nemendur á áfangaprófum við skólann hafi áður flutt dúett sem valverkefni og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við það af hálfu prófdómara. Ekki eru nefnd ákveðin dæmi í þessu sambandi og kemur því ekki fram hvort kærandi vísar til grunn-, mið- eða framhaldsprófs við skólann.

Af þessu tilefni skal bent á að annmarkar, sem prófdómari taldi vera á prófi A, lutu ekki sérstaklega að því að um flutning dúetts væri að ræða. Álitamálið snýst um það hvort valverkefni prófsins verði fundinn staður meðal þeirra flokka viðfangsefna sem aðalnámskrá tiltekur. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.

Þrátt fyrir þetta þykir rétt að fjalla um það atriði sem kærandi víkur að í kæru sinni. Í þeim efnum verður í upphafi að taka fram að það leiðir ef eðli máls að nemandi sem gengur til áfangaprófs í einsöng hlýtur að öðru jöfnu að þurfa að leggja þar til flutning sinn einn og óstuddur.

Á framhaldsprófi í einsöng getur valverkefni verið „samsöngs- eða samleiksverk þar sem [próftakinn] gegnir veigamiklu hlutverki“. Þá er bæði á framhaldsprófi og miðprófi í einsöng kveðið á um það að valverkefni geti falist í því að syngja verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni. Ekki hefur verið fundið að því að slíkt valverkefni á miðprófi sé samleiksverk, enda sé það af sambærilegri þyngt og önnur miðprófsverkefni og skilyrða námskrár gætt að öðru leyti. Enginn liður í ákvæðum námskrár um viðfangsefni í vali á grunnprófi samsvarar nefndum lið í reglum um valverkefni á miðprófi eða framhaldsprófi. Að því leyti sem kærandi kann að hafa í huga að dúett hafi verið fluttur sem valverkefni á miðprófi eða framhaldsprófi við skólann er því ljóst að þar er ólíku saman að jafna við próf A.

Við athugun Prófanefndar hefur komið í ljós eitt dæmi þess að nemandi á grunnprófi við Tónlistarskólann T hafi flutt dúett sem valverkefni. Þetta tilvik er frá árinu 2005 þar sem nemandi söng ásamt öðrum lagið Þú varst mitt blóm eftir Jón Björnsson. Vera kann að verkefnið hafi verið talið eiga undir lið d) í upptalningu viðfangsefna, þ.e. að vera lag í öðrum tónlistarstíl en þeim sem koma fyrir í námskránni. Hvað sem um það má segja er alveg ljóst, eins og fyrr greinir, að verkið Abendlied verður ekki fellt í þann flokk. Þetta einstaka dæmi verður því á engan hátt talið sambærilegt atvikum á prófi A. Að öðru leyti verður að gæta að því að hér ræðir um atvik frá upphafstíma núverandi prófakerfis. Eru þess allmörg dæmi að á því tímabili hafi verið litið fram hjá vanköntum sem upp komu við framkvæmd prófa. Í tilviki tónlistarskólans T skal í þessu sambandi bent á bréf Prófanefndar til skólans, dags. 24. maí 2005, þar sem gerð var athugasemd við valverkefni á framhaldsprófi í einsöng og lögð á það áhersla að í framtíðinni yrði þess gætt að viðfangsefni nemenda á áfangaprófum yrðu í samræmi við kröfur aðalnámskrár tónlistarskóla.

Þess er loks að geta, hvað snertir viðbáru kæranda um eldri fordæmi, að ekki verður loku fyrir það skotið að prófdómara kunni að yfirsjást að verkefnaval á áfangaprófi eða framkvæmd einhvers prófþáttar sé ekki í samræmi við fyrirmæli námskrár. Einnig er hugsanlegt að prófdómari kjósi að snúa blinda auganu að verkefnavali eins prófþáttar ef verkefnaval er fullnægjandi að öðru leyti. Misbrestir af þessu tagi, sem kunna að verða á störfum prófdómara gagnvart einstökum próftökum, geta þó ekki orðið til þess að aðrir nemendur geti krafist þess í skjóli jafnræðisreglu að prófdómarar haldi áfram meintu athafnaleysi og hagi sér svo gagnvart þeim. Því síður getur yfirsjón prófdómara orðið til þess að verk eða tilhögun við flutning verks teljist þar með hafa hlotið viðurkenningu sem fullgilt verkefni á áfangaprófum, þannig að vísa verði á bug athugasemdum sem koma fram við prófdæmingu í öðrum tilvikum.

5.

Með vísan til þess sem hér að framan er rakið þykir ekkert hafa komið fram sem getur hnekkt þeirri niðurstöðu prófdómara að valverkefni próftaka, A, hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalnámskrár tónlistarskóla. Taka verður fram að próftakanum verður í sjálfu sér ekki kennt um þetta atriði, enda verður að telja að hér beri kennari nemandans höfuðábyrgð. Það getur ekki breytt því að á engan hátt er unnt að viðurkenna að um fullnægjandi valverkefni hafi verið að ræða. Hið kærða áfangapróf verður því látið standa óhaggað án athugasemda.

Úrskurðarorð:

Áfangapróf A 9. desember 2019 stendur óhaggað án athugasemda.