Til minnis um áfangapróf

Hér á eftir er yfirlit um helstu atriði sem hafa þarf í huga við undirbúning áfangaprófa, annars vegar í klassískri tónlist og hins vegar í rytmískri tónlist. Einnig hafa verið tekin saman nokkur helstu atriði sem skólastjórnendur og/eða umsjónarmenn prófa þurfa að hafa í huga áður en prófbeiðni er send til Prófanefndar.

   Klassísk próf
  • Kennari metur hvenær nemandi er tilbúinn til að þreyta áfangapróf.
  • Nemandi þarf að hafa lokið grunnprófi að fullu áður en miðpróf er þreytt og miðprófi, þar á meðal samræmdu miðprófi í tónfræðagreinum, áður en framhaldspróf er tekið.
  • Kennari þarf að gæta þess við undirbúning prófsins að þyngd, fjöldi, inntak og umfang viðfangsefna sé í samræmi við kröfur námskrár.
    1. Í greinanámskrám eru dæmi um hæfileg viðfangsefni á áfangaprófum. Velja skal verkefni með hliðsjón af viðeigandi greinanámskrá.
    2. Gæta skal þess að verkefnaval sé fjölbreytt og að nemendur leiki verk frá mismunandi tímabilum.
  • Hljóðfæranemendur þurfa að leika að minnsta kosti eitt tónverk eða æfingu utanbókar en söngnemendur þurfa að flytja alla efnisskrá prófsins utanbókar. Athugið að ekki er fullnægjandi að einungis valverkefnið sé flutt utanbókar.
  • Á hljóðfæraprófum á að flytja alla prófþætti á hlutaðeigandi hljóðfæri, þar á meðal valþátt prófsins. Því er t.d. ekki heimilt á grunnprófi í fiðluleik að flytja frumsamið verk á píanó.
  • Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara fer prófið engu að síður fram en prófdómara ber þá að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti.

Upptalningin hér að ofan er ekki tæmandi. Við undirbúning áfangaprófs er nauðsynlegt að kynna sér upplýsingar hér á vefnum um undirbúning áfangaprófs og framkvæmd áfangaprófs. Einnig er sérstaklega bent á yfirlit yfir prófþætti á áfangaprófum í einstökum greinum klassískrar tónlistar.

   Rytmísk próf
  • Kennari metur hvenær nemandi er tilbúinn til að þreyta áfangapróf.
  • Nemandi þarf að hafa lokið grunnprófi að fullu áður en miðpróf er þreytt og miðprófi að fullu áður en framhaldspróf er tekið.
  • Kennari þarf að gæta þess við undirbúning prófsins að þyngd, fjöldi, inntak og umfang viðfangsefna sé í samræmi við kröfur námskrár.
    1. Í greinanámskrám eru dæmi um hæfileg viðfangsefni á áfangaprófum. Velja skal verkefni með hliðsjón af viðeigandi greinanámskrá.
    2. Gæta þarf sérstaklega að spunakröfum.
  • Reglur um utanbókarflutning á áfangaprófum í rytmískri tónlist eru mismunandi eftir hljóðfærum. Sjá nánar yfirlit yfir prófþætti í einstökum greinum rytmískrar tónlistar.
  • Á hljóðfæraprófum á að flytja alla prófþætti á hlutaðeigandi hljóðfæri, þar á meðal valþátt prófsins. Því er t.d. ekki heimilt á grunnprófi í rafgítarleik að flytja frumsamið verk á píanó.
  • Uppfylli verkefnaval prófsins ekki ákvæði viðeigandi námskrár að mati prófdómara fer prófið engu að síður fram en prófdómara ber þá að skila skriflegri athugasemd til Prófanefndar sem getur ákveðið að ógilda próf að hluta eða öllu leyti.

Upptalningin hér að ofan er ekki tæmandi. Við undirbúning áfangaprófs er nauðsynlegt að kynna sér upplýsingar hér á vefnum um undirbúning áfangaprófs og framkvæmd áfangaprófs. Einnig er sérstaklega bent á yfirlit yfir prófþætti á áfangaprófum í einstökum greinum rytmískrar tónlistar.

Til athugunar fyrir skólastjórnendur

Skólastjórnendur eða þeir starfsmenn skóla hafa umsjón með áfangaprófum þurfa að athuga eftirfarandi atriði áður en prófbeiðni er send til Prófanefndar:

  • Hvort prófverkefni fullnægi kröfum námskrár.
  • Að nemandi hafi lokið fyrra námsstigi að fullu.
  • Að tilgreint sé á prófbeiðni hvaða verkefni (eitt eða fleiri) nemandi hyggst flytja utanbókar.
  • Að réttar upplýsingar séu á prófbeiðni um tónfræðakunnáttu nemandans.
  • Að prófbeiðni sé að öðru leyti rétt útfyllt, þar á meðal nafn, kennitala og hljóðfæri nemanda.
  • Ekki óska eftir stökum áfangaprófum, nema það sé nauðsynlegt. Heimilt er að krefja tónlistarskóla um greiðslu umframkostnaðar ef þessa er ekki gætt og ekki fallist á tilmæli um að tengja prófið við próf í öðrum skólum. Æskilegt er að biðja a.m.k. um þrjú próf hverju sinni. Sami prófdómari dæmir ekki bæði klassískt og rytmískt próf. Því myndi það teljast stakt próf ef óskað væri eftir einu klassísku prófi samhliða tveimur eða fleirum rytmískum prófum.
  • Látið koma fram á yfirlitsblaði eða í tölvupósti með prófbeiðni ef nemandi hefur sérþarfir (t.d. vegna lesblindu, sjónskerðingar, einhverfu, kvíða) sem prófdómari þarf að taka tillit til.

Nemandi sem ekki hefur lokið samsvarandi prófi í tónfræðum þegar hann þreytir hljóðfæraprófið fær ekki útgefið áfangaprófsskírteini - einungis vitnisburðarblað. Því þarf skólastjórnandi að láta Prófanefnd vita þegar nemandinn lýkur prófi í tónfræðum til að áfangaprófsskírteinið verði gefið út.